Þá er nýtt tímatal hafið. Í dag er annar dagur e.t., þ.e. eftir tónleikana.
Þessir gæjar eru ekkert venjulega svalir. Þeir spiluðu alveg brjálað rokk í rúma tvo tíma meðan 17 þúsund manns sungu og öskruðu með. Uppi á þriðju svölum, beint fyrir ofan og framan við sviðið og í fremstu röð, stóð undirrituð og rétt náði að halda í líftóruna þegar goðin komu á sviðið. Vá!! Þeir eru ekkert smá flottir, alveg eðalsvalir og vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera. Ég held að hver einasta manneskja í höllinni hefði étið úr lófanum á þeim hefði slíkt staðið til boða... þeir gjörsamlega áttu alla viðstadda.
Það sem ég saknaði var náttla uppáhaldslagið mitt, Bad (lagalistinn er neðst á síðunni sem ég linkaði á að ofan) og svo að sjá Bono fiska e-a dömu úr krádinu upp á svið til sín eins og hann gerði stundum í gamla daga. Núna var hann mjög passasamur með að koma ekki of nálægt sviðsbrúninni (einu sinni handjárnaði e-r dama sig víst við ökklann á honum og hann þurfti að standa á sviðsbrúninni og syngja þar til hægt var að saga handjárnin í sundur - hahahaha!!) en var að öðru leyti æðandi út um allt svið. Sviðið var alveg ótrúlega flott, mínímalisminn á fullu og ljós og form látin búa til effektana. Þetta hér var líka ótrúlega flott atriði - klikkið á myndina með greininni til að sjá betur. Mannréttindayfirlýsing SÞ á skjánum var áhrifamikil, Love and Peace kom ótrúlega á óvart og Where The Streets var rokkaðra og kraftmeira en ég hef nokkurn tímann heyrt það áður.
Annað sem var alveg rjómaflott var að við Shan gátum verið saman á tónleikunum... miðarnir mínir tveir sem ég keypti í forsölu fyrir aðdáendur (ég veit, ég er paþetísk..) voru á sitthvorum enda tónleikahallarinnar. Enginn skipti sér af því hvar maður sat fyrr en sætiseigandinn birtist - sem betur fer birtist enginn til að gera tilkall til sætanna sem við eignuðum okkur. Sem reyndust svo vera bestu sætin í húsinu. Edilon var svo sannarlega á svæðinu.
Í gær skoðuðum við svo Boston í haugarigningu og roki sem hefði alveg getað látið reykvískan útnyrðing skammast sín. Fólk í Boston virðist mér almennt vera skynsamara en Íþökubúar, það klæðir sig eftir veðri og dró fram flíshúfurnar og dúnúlpurnar í tilefni veðursins meðan að hér í Íþöku fara allir í stuttbuxurnar í lok mars, sama hvernig viðrar. Held með Boston-liðinu.
Á heildina var þetta alveg agalega flott aukahelgi í miðri viku. Meira svona, takk.
fimmtudagur, maí 26, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli