föstudagur, júlí 30, 2004

Njósnir um lesendur

Það er á hreinu að Erna og Stína gætu tekið greiðslu fyrir að hafa fólk á linka-listanum sínum. Langflestir sem koma hingað á þessa blessuðu síðu mína koma frá þeim. Mange takk, jenter!

Aðrir koma úr öðrum áttum, t.d. frá gúggli og jahú. Einhver fann mig undir "torn rubber boots" um daginn. Það er svosem gott og blessað en jafnast ekkert á við perrann sem leitaði að "smoking girls in swimsuits" hér um árið.

Íbúð kveldsins

Þá er íbúðarleitin hafin á ný. Þetta fer að flokkast undir áhugamál mitt, ég bara geri varla annað. Við tvær sem fórum á stúfana í vor og fundum okkur íbúð til að leigja næsta vetur höfum ákveðið að slíta sambúðinni áður en hún hefst. Nú á bara eftir að ákveða hvor okkar fær íbúðina unnndisslegu á Austur-Senecastræti. Ég vona náttla innst inni að ég fái hana, hún er svo krúttleg! Svo er líka svo leiðinlegt að skoða íbúðir og erfitt að finna eitthvað brúklegt fyrir viðráðanlegan péning. Aldrei teppi aftur, t.d., það er engin smákrafa hér í Amríggu.

Nú, en íbúð kveldsins verður hins vegar óumdeilanlega íbúðin hans Jasons. Hún er með teppi (og ketti líka) og því í nokkurri ónáð hjá mér, en þar sem ég þarf ekki að búa þar má mér nú vera nokk sama. Til stendur að elda beer-can chicken (bjórdós upp í óæðri endann á kjúllanum og svo á grillið, agalega vinsælt hér...), bjóða upp á hákarl og brennivín í forrétt og horfa svo á skandinavíska snilld í vídeóinu, Börn náttúrunnar (til að skæla smá) og Elling (til að hressa sig við eftir skælið). Þetta gæti orðið hin besta skemmtun og ágæt byrjun á non-verslunarmannahelgi.

þriðjudagur, júlí 27, 2004

Dreginn, ekki stolinn

Frekari fréttir af æsingunni í New York-borg:

Eiríki var lagt ólöglega á langlegudeildinni og var dreginn í burtu. DREGINN!!! Vesalings karlinn minn. Löggan komst að þessu þegar ég var mætt á löggustöðina á JFK og inn í skýrslutökuherbergi. Ég varð svo glöð að ég hoppaði næstum yfir afgreiðsluborðið og kyssti þá alla sem einn (á tímabili voru fjórir amrískir lögreglumenn að leita að Eiríki mínum). Svo fengum við Mörður far með fyndnu löggunni að ná í bílinn: "Þú þarft ekkert að spenna beltin, löggan stoppar þig ekki". Harharhar. Ég í sæluvímu: "Vá mar, ég hef aldrei áður verið í amrískum löggubíl." Löggan: "Nú, í hvers lenskum þá?!?!"

Sem sagt, er á leið til Íþöku á drossíunni minni. Íha.

mánudagur, júlí 26, 2004

Ekki týndur, heldur stolinn

Það er búið að stela bílnum mínum. Víkingnum sjálfum, Eiríki rauða, STOLIÐ!!! Djöfulsins ómenni hérna í Amríggunni. Möddi hennar Ernu hefur sko verið betri en enginn og fólkið hjá Icexpress líka, ég er búin að sitja á skrifstofunni þeirra í allan dag að viða að mér upplýsingum um afdrif Eiríks. Íslendingarnir rokka!

Nú erum við Möddi á leið að ná í bílaleigubíl og svo til löggunnar á JFK. Við syrgjum Eirík í hljóði. Hver veit, kannski var hann notaður í drive-by shooting?? Vesalings Eiríkur.

Eiríkur týndur

Hann Eiríkur rauði er HORFINN!!! Hann var skilinn eftir á langlegudeildinni á JFK og þar ætlaði ég að sækja hann... en hann er horfinn. Við erum búin að reyna mikið en allt er eiginlega að koma fyrir ekki. Svo náttla man ég ekki númerið á bílnum... uss fuss. Ætla að reyna eitt í viðbót, ok?

laugardagur, júlí 24, 2004

Málhelti dagsins

í boði Thorvaldsen:

"Sýnishorn af myndum af stemmingunni á Thorvaldsen Bar. Svona rétt til að sýna ykkur, þar sem við berum miklar virðingar fyrir einkalífi viðskiptavina okkar, höfum við þær í hreyfimynd."

Grimmar konur, in English

Ég hef nákvæmlega engu við frásögn Kristínar af gærkveldinu að bæta. Nema þá helst þessu: Stína, þú átt að verða rithöfundur!

Brian, Meghan, Greg: If you ever still visit this site, try out the link above.

Djöfulsins menntasnobbið!

HASH(0x8c05934)
From Timbuktu to Tijuana, you know all about world culture and politics. You've seen it all, and what you haven't seen, you watched on one of the "smart people channels." Your friends tell you that you should run for governor.
What people love: You've always got a great story to tell.
What people hate: You make them feel like ignorant plebians. Sometimes you slip and CALL them plebians.

What Kind of Elitist Are You?
brought to you by Quizilla gegnum konuna á karlaklósettinu


Haha, ekki furða að ég hafi verið vond við aumingja fótboltagaurinn sem lenti við hliðina á okkur Stínu vinkonu á Thorvaldsen í kvöld!!! Loksins próf sem sér í gegnum mig :)

miðvikudagur, júlí 21, 2004

Dauðinn í Grafningnum??

Hérna, dó einhver nýlega í umferðarslysi í Grafningnum?? Ég var þar á ferð í góða veðrinu í kvöld (eftir bíltúr upp í Borgarfjörð og yfir Kaldadal inn á Þingvelli með mútter) og sá þar alveg ótrúleg hjólför þar sem einhver kom niður brekku, greinilega á fljúgandi ferð, og missti af beygjunni sem tók við eftir brekkuna. Í staðinn fór viðkomandi út af og hlýtur, ef eðlisfræðilögmál gilda enn hér á jörðu, að hafa steypst ofan í lítið gil. Þar var hins vegar ekkert bílhræ svo ég gæti séð, en hins vegar héldu hjólförin áfram utan í gilinu, í ca. 40° halla og með smá ummerkjum um að bíllinn hafi helst viljað renna niður en ekki fengið það, og upp á veg aftur. Ég hélt ég væri á lyfjum þegar ég sá þetta, svona lagað á ekki að vera hægt. Nema viðkomandi hafi verið á svona geðveikislega mikilli ferð... þarna öðlast slagorðið "hraðann eða lífið" duldið tvíræða merkingu.

þriðjudagur, júlí 20, 2004

Selebrití

Við vinkonurnar fórum á barinn í kvöld og rákum þar augun í amríska kvikmyndastjörnu. Á litla Íslandi...

mánudagur, júlí 19, 2004

Fréttaljósmyndari??

Fór eins og sönnum lýðræðissinna sæmir að mótmæla í hádeginu. Hafist var handa við stjórnstöð Lands-/Illvirkjunar, þar sem Frikki Sóf gerði hetjulega tilraun til að stjórna mótmælafundi. Þaðan var haldið niður í umhverfisráðuneyti þar sem fánaborg í hálfa stöng var afhent móttökustarfsfólki (Siv sást hvergi). Til að reka smiðshögg á mótmælin var ákveðið á staðnum að rölta yfir að Stjórnarráðinu og reka þar niður fána í hálfa stöng.

Þegar hersingin (fámenn en góðmenn) mætti að stjórnarráðinu voru allir fréttamenn og -konur á bak og burt en Davíð nokkur Oddsson var hins vegar á leiðinni inn. Hann og Elísabet Jökuls áttu þarna nokkur orð saman og þar sem ég hafði tekið myndavélina mína með þá kom ég mér í fremstu röð og smellti af í gríð og erg. Davíð lagaði sig allan til svo hann kæmi nú sem best út á myndunum og hélt greinilega að þarna væri einhver "alvöru" ljósmyndari á ferð. Eftir á var því svo stungið að mér að koma myndunum í birtingu einhvers staðar. Mogginn hreppti hnossið og mér skilst að á morgun verði ég orðin blaðaljósmyndari!

laugardagur, júlí 17, 2004

Communicator

Veit einhver hvað Netscape Communicator-poppöpp glugginn er að gera í tölvunni minni? Hann kemur alltaf upp þegar ég er að reyna að pöbblissa úr tölvunni minni hér á blogger og þegar ég loka honum lokast Firefox. Þessi andskoti segist ætla að senda um mig upplýsingar til Netscape (sem ég hef nákvæmlega ALDREI notað) en lofar að sýna mér alltaf allt sem er sent. Die, mofo!! Sem er náttla málið, ég er búin að öppdeita allar varnir hjá Adaware og Norton og keyra gamla Spysweeper-inn minn, en alltaf er þessi andskoti þarna. Einhver ráð??

föstudagur, júlí 16, 2004

Heppin!!

Í kvöld rann upp fyrir mér í fyrsta sinn hvað við erum heppin að allt sé svona dýrt á Íslandi. Allt er dýrt hér því við erum, þrátt fyrir endalausan barlóm um hvað við höfum það skítt, ein ríkasta þjóð í heimi. Það gerir það að verkum að við fáum líka hærri laun fyrir vinnu okkar en sennilega 90% jarðarbúa. Það aftur gerir okkur kleift að ferðast um allan heim, læs og vel nærð frá vöggu til grafar, og upplifa heiminn á allt annan og mögulega ríkari hátt en þessi hin umræddu 90% jarðarbúa.

Ef ég hefði fæðst í Laos eða Bólivíu eða Zimbabwe hefði ég ekki séð jafnmikið af þessari jörð og ég hef gert. Þar kostar bjórinn kannski tíkall en flugmiðinn kostar enn hundrað þúsundkalla og það væru laun mín fyrir áralangt strit. Ég gæti kannski verið sífull en Svalbarði og Suðurskautslandið yrðu mér framandi að eilífu. Jafnvel tilvist þeirra gæti verið mér ókunn um alla ævi.

Mikið ROSALEGA erum við heppin að hafa fæðst á Íslandi.


Álfahúfan

Gamall draumur rættist í dag: Ég fékk mér heklaða álfahúfu af þeirri tegund sem er seld í gömlu timburhúsi á horni Grettisgötu og Klapparstígs. Húfan er blá eins og fáninn, með lítinn dúsk og bekk neðst úr silfurþræddu hvítu garni. Mikið rosalega er ég hamingjusöm!!!

Flaggað í hálfa

Þann 19. júlí í fyrra og hittifyrra flögguðu landverðir í hálfa stöng á nokkrum stöðum á hálendinu til að mótmæla virkjanaframkvæmdum og -áformum á hálendinu. Þeir fengu áminningar frá Umhverfisstofnun og ein landvarðanna var ekki endurráðin. Nokkrir linkar á upplýsingasíðu Náttúruvaktarinnar fjalla um þetta mál og þá tilraun stjórnvalda til skoðanakúgunar sem meðferð opinberra aðila á málinu er. Það má jafnvel líta svo á að með viðbrögðum sínum séu stjórnvöld að koma þeim skilaboðum til fjöldans að mótmæli séu ólögleg, eins og bent var á í ferðinni góðu.
 
Ég held ég sé ekki að segja ykkur frá neinu leyndarmáli ef ég segi ykkur frá svolitlu sem tengist þessu máli. Leiðsögukonurnar okkar í göngunni sögðu okkur frá plönum um að sýna landvörðum samstöðu með því að flagga í hálfa stöng þann 19. júlí á hverjum þeim stað sem hefur verið lagður undir í virkjunarorgíu stjórnvalda. Fólk þarf ekki að burðast með fánastöngina að heiman heldur er nóg að fjárfesta í kökufánum og festa tannstönglaofan á þá svo það líti út sem fáninn sé í hálfa stöng. Það er líka allt í lagi að stinga þessum hálfflöggum niður á stöðum í útrýmingarhættu síðar en 19. júlí, jafnvel kannski alveg fram til 19. ágúst. Aðalmálið er að þetta verði gert, að fólk taki myndir af þessu og að fólk sendi fjölmiðlum myndirnar. Þannig vita valdhafar að við erum að fylgjast með þeim og þannig getum við gert okkar til þess að vernda það sem eftir er af ósnortinni náttúru landsins.
 
Svo til að hún haldist nú ósnortin sem lengst kippum við náttla fánunum með heim eftir gjörninginn.

Náttúruvaktin

Setti inn link á Náttúruvaktina hér til hliðar. Ég er sérstaklega hrifin af upplýsingasíðunni þeirra þar sem má finna urmul af linkum. Tékkiði á þessu þegar ykkur leiðist í vinnunni!

Karakterleysi

Á flugvellinum á Egilsstöðum var múgur og margmenni þegar við mættum þar á miðvikudaginn fyrir viku til að hefja gönguna okkar. Leggja skyldi hornstein að álveri Alcoa á Reyðarfirði þennan dag og margir helstu ráðamenn þjóðarinnar og Landsvirkjunarkónar flugu austur til að vera viðstödd þann atburð. Einn Landsvirkjunarmanna er faðir gamallar vinkonu minnar úr Garðabænum og ég tók hann tali meðan við biðum eftir farangrinum.
 
Félagi hans tók eftir því að ég var göngulega búin og spurði hvert ferðinni væri heitið. Ég sagði honum að ég væri þarna með stórum hópi fólks sem ætlaði að ganga meðfram Sauðá og Jöklu og inn í Kringilsárrana til að sjá landið sem mun hverfa ef Kárahnjúkastíflan rís. Hann brosti nett hæðnislega út í annað og kom svo með þessa ódauðlegu speki: "Ertu ekki til í að segja ferðafélögum þínum frá mér að þið ættuð nú bara að taka næstu vél í bæinn aftur og koma aftur þegar lónið er orðið fullt. Þá verður allavega eitthvað að sjá þarna, þetta er allt svo karakterlaust þarna uppfrá hjá Sauðá".


miðvikudagur, júlí 14, 2004

Næring fyrir næsta árið

Þá er ég komin heim úr viku gönguferð Augnabliks með álfkonunum Ósk og Ástu um undraveröld Jöklu og Kringilsárrana. Þvílík lífsreynsla! Ég vona að ég eigi aldrei eftir að verða söm; þær miðluðu til okkar þvílíkri jákvæðni og virðingu fyrir landinu og því sem í því lifir og mér finnst ég vera full af þeirra krafti núna. Á hverjum morgni vöktu þær okkur með söng, áður en lagt var í'ann á morgnana leiddi Ásta okkur í jóga og þegar í náttstað var komið tókum við nokkrar jógateygjur. Hópurinn var alveg frábær, við vorum 34 á öllum aldri og úr öllum áttum; við náðum svakalega vel saman og á flugvellinum áðan leið mér eins og ég væri að kveðja fjölskylduna mína. Það verður gott að fara með þessa vellíðan inn í næsta ár í Bandaríkjunum. Enn eru laus sæti í ágústferðirnar um svæðið og ég get ekki mælt nógsamlega með því að þið sem þetta lesið drífið ykkur. Auðvitað skiptir ekki máli hvað fólki finnst um virkjanir því ferðin er opin öllum og öll munum við þurfa að sjá á eftir þessu landi ef virkjunin rís.

Reyndar er svolítið undarlegt að tala um vellíðan þegar um er að ræða gönguferð um það svæði sem mun hverfa undir mesta mikilmennskubrjálæði Íslandssögunnar, Hálslón og Kárahnjúkavirkjun. Ég hef alltaf verið á móti þessum framkvæmdum og eftir þessa ferð hefur sú afstaða mín ekki haggast nema síður sé. Ég er núna algjörlega yfirkomin af sorg og reiði út af þessum illvirkjum sem mér finnst þessar framkvæmdir vera, ekki síst vegna þess sem mér lærðist í þessari ferð, neflilega hvernig við fólkið í landinu höfum verið kerfisbundið blekkt af áróðursmeisturum Lands-/Illvirkjunar. Dæmi: Samfellt gróðurlendi við bakka Jöklu, bæði í Brúardölum og á Vestur-Öræfum, er kynnt af Landsvirkjunarkónum sem örfoka melar. Tölvugerðar yfirlitsmyndir af Hálslóni villa fólki sýn með því að láta lónið virðast miklum mun minna en það í raun er (berið myndina sem ég linka á hér að framan saman við þetta kort hér). Látið er sem stórkostlegar náttúrusmíðar eins og gljúfur Jöklu milli Sauðár og Tröllagilslækjar, Töfrafoss í Kringilsá og margir fornir og núverandi farvegir Gljúfrakvíslarinnar séu ekki til. Eins gefa stjórnvöld sögu landsins og vísindum langt nef: Sethjallarnir í farvegi Jöklu eru algerlega einstakir og segja sögu um hörfun ísaldarjökulsins sem hvergi annars staðar verður lesin en enn hefur ekki gefist tækifæri til að rannsaka þessa hjalla að neinu marki. Töðuhraukar, sem eru einstæðar náttúrusmíðar framhlaupsjökuls, munu fara undir vatn. Íslenskum stjórnmálamönnum gæti ekki staðið meir á sama.

Á tyllidögum mala íslensk stjórnvöld um þekkingarsamfélag, án þess að hafa dímensjónir í að skapa Austfirðingum og Íslendingum almennt skilyrði til að skapa slíkt samfélag. Í staðinn leita þau skyndilausna sem skila engum hagnaði nema í kjörkassana og nauðga landinu sem við höfum að láni hjá komandi kynslóðum. Þau bókstaflega drulla yfir mannauðinn í landinu með því að kalla hvern þann (mennta-)mann og -konu sem mótmælir stefnu þeirra í stóriðju- og virkjanamálum ærumeiðandi fúkyrðum; þau sjá íslenska karlmenn fyrir sér upp til hópa ófaglærða nema í álfræðum, íslenskar konur í þjónustustörfum að selja verkamönnunum í bræðslunni hreinar nærbrækur og hamborgara í næstu sjoppu. Trú þeirra á kraftinn og sköpunargáfuna í fólkinu í landinu er engin, uppgjöfin algjör.

Við erum ein ríkasta þjóð heims og lifum á tímum góðæris, við eigum frambærilega háskóla og fjöldan allan af hámenntuðu fólki. Í stað þess að nýta þennan kraft, þessa fjárfestingu og þennan mannauð fara stjórnvöld auðveldu leiðina, uppgjafarleiðina, þau taka sig til og eyðileggja landið okkar og hórast fyrir alþjóðlegan auðhring í leit sinni að nokkrum skildingum í ríkispyngjuna og atkvæði í kassana. Svei ykkur, Siv og Valgerður, Finnur og Friðrik, Davíð og Halldór. Svei svei svei og aftur svei. Ef ég væri trúuð myndi ég gera orð Jesú að mínum: "Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra".

þriðjudagur, júlí 06, 2004

Bloggað úr mýrinni

Þá er kona bara komin heil og höldnu eftir langt ferðalag til Fróns, n.t.t. í gestaherbergið hjá mömmu í Safamýrinni. Nóg að gerast alveg hreint!

First things first: Þjóðhátíðarhelgi Bandaríkjamanna eyddi ég í Bender-kofanum, vígi jarðfræðideildarinnar minnar í Adirondacks-fjöllunum. Við í stjórn nemendafélagsins reyndum að hóa saman í ferð þangað, upprunalegur 10 manna hópurinn var orðinn að fjórum hræðum þegar loks var lagt af stað. Þar af erum við tvær í stjórninni. Við reynum að telja okkur trú um að við verðum ekki ásakaðar um fjárdrátt vegna þess að við gerðum allt sem í okkar valdi stóð til að fá fleiri til að koma með. Bottom line: Deildin er full af félagsskítum!!!

Ferðin var stórskemmtileg. Við ókum út eftir á föstudaginn í brakandi blíðu og komum okkur fyrir í kofanum, svo eyddum við laugardeginum á kayökum og kanó á nálægum vötnum. Sólin skein í heiði og við náðum öll að sólbrenna á misgáfulegum stöðum; Louise brann á andlitinu, ég á lærunum og upphandleggjunum og Greg á ristunum! Julie er alltaf svölust og fékk bara fleiri freknur. Um eftirmiðdaginn var vatnið orðið það hlýtt að tilraunir til baða enduðu ekki á andköfum og krampaflogum, svo við svömluðum um í dágóða stund og ég nýtti tækifærið til að æfa mig í að fara upp í kayak á vatninu. Það gekk ágætlega eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir þar sem ég náði m.a. næstum því að skafa holu í aðra rasskinnina með e-u helv. skrúfudrasli á skuti kayaksins.

Um kveldið skruppum við til Newcomb, næsta bæjar, til að sjá flugeldasýninguna þar í tilefni 4. júlí. Þetta var glæsileg sýning, næstum jafnflott og sú sem Íþökubær efndi til fimmtudagskvöldið áður í sama tilefni. Áhorfendasvæðið var rétt við skotsvæðið svo við urðum að liggja á bakinu til að sjá herlegheitin almennilega. Ekki ónýtt það. Ég fékk sem sagt mjög vænan skammt af flugeldum þessa helgina, fyrst svaðalegt sjóv í Íþöku og svo þetta í Newcomb. Sehr gut, ja.

Nú, á sunnudeginum gengum við fyrst upp á fjall eitt lítið, Goodnow-fjall, rétt aftan við kofann okkar og brunuðum svo í bæinn. Það er svo gaman að keyra á svona highways að ég bara á ekki orð! Verst að hraðatakmörk skuli vera til staðar, ég var ansi oft komin yfir 80 mílur/klst þar sem hámarkshraði er 65. Eins gott að vera ekki tekin, ég yrði bara hreinlega dregin fyrir rétt.

Meiri keyr keyr keyr meiri meiri meiri keyr á mánudeginum. Þá leigði ég bíl til að bruna til JFK, með viðkomu í NYC hjá Ernu vinkonu. Aftur ógissla gaman að keyra. Við Erna eyddum saman góða eftirmiðdagsveðrinu á Manhattan, röltum í Riverside Park og borðuðum mexíkanskt á Amsterdam Avenue. Á JFK skilaði ég svo bílaleigubílnum og var svo bara ápur en varði komin upp í flugvél á leið til Fróns. Íha. Verst hvað mðurinn við hliðina á mér í stappfullri vélini var uppáþrengjandi; hann reyndi svona 40 sinnum að brydda upp á samræðum þar sem ég sat með heddfónanda á hausnum, óperu í botni og grúfði mig yfir þýðingarverkefnið mitt í tölvunni. Sumir kunna bara ekki að take no for an answer. Einhvern veginn tókst mér nú samt að sofna og þegar ég vaknaði vorum við að lenda á Reykjanesinu. Rok, hraunflákar og hreint loft; það er ágætt að vera komin hingað aftur.