Fór eins og sönnum lýðræðissinna sæmir að mótmæla í hádeginu. Hafist var handa við stjórnstöð Lands-/Illvirkjunar, þar sem Frikki Sóf gerði hetjulega tilraun til að stjórna mótmælafundi. Þaðan var haldið niður í umhverfisráðuneyti þar sem fánaborg í hálfa stöng var afhent móttökustarfsfólki (Siv sást hvergi). Til að reka smiðshögg á mótmælin var ákveðið á staðnum að rölta yfir að Stjórnarráðinu og reka þar niður fána í hálfa stöng.
Þegar hersingin (fámenn en góðmenn) mætti að stjórnarráðinu voru allir fréttamenn og -konur á bak og burt en Davíð nokkur Oddsson var hins vegar á leiðinni inn. Hann og Elísabet Jökuls áttu þarna nokkur orð saman og þar sem ég hafði tekið myndavélina mína með þá kom ég mér í fremstu röð og smellti af í gríð og erg. Davíð lagaði sig allan til svo hann kæmi nú sem best út á myndunum og hélt greinilega að þarna væri einhver "alvöru" ljósmyndari á ferð. Eftir á var því svo stungið að mér að koma myndunum í birtingu einhvers staðar. Mogginn hreppti hnossið og mér skilst að á morgun verði ég orðin blaðaljósmyndari!
mánudagur, júlí 19, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli