föstudagur, júlí 16, 2004

Flaggað í hálfa

Þann 19. júlí í fyrra og hittifyrra flögguðu landverðir í hálfa stöng á nokkrum stöðum á hálendinu til að mótmæla virkjanaframkvæmdum og -áformum á hálendinu. Þeir fengu áminningar frá Umhverfisstofnun og ein landvarðanna var ekki endurráðin. Nokkrir linkar á upplýsingasíðu Náttúruvaktarinnar fjalla um þetta mál og þá tilraun stjórnvalda til skoðanakúgunar sem meðferð opinberra aðila á málinu er. Það má jafnvel líta svo á að með viðbrögðum sínum séu stjórnvöld að koma þeim skilaboðum til fjöldans að mótmæli séu ólögleg, eins og bent var á í ferðinni góðu.
 
Ég held ég sé ekki að segja ykkur frá neinu leyndarmáli ef ég segi ykkur frá svolitlu sem tengist þessu máli. Leiðsögukonurnar okkar í göngunni sögðu okkur frá plönum um að sýna landvörðum samstöðu með því að flagga í hálfa stöng þann 19. júlí á hverjum þeim stað sem hefur verið lagður undir í virkjunarorgíu stjórnvalda. Fólk þarf ekki að burðast með fánastöngina að heiman heldur er nóg að fjárfesta í kökufánum og festa tannstönglaofan á þá svo það líti út sem fáninn sé í hálfa stöng. Það er líka allt í lagi að stinga þessum hálfflöggum niður á stöðum í útrýmingarhættu síðar en 19. júlí, jafnvel kannski alveg fram til 19. ágúst. Aðalmálið er að þetta verði gert, að fólk taki myndir af þessu og að fólk sendi fjölmiðlum myndirnar. Þannig vita valdhafar að við erum að fylgjast með þeim og þannig getum við gert okkar til þess að vernda það sem eftir er af ósnortinni náttúru landsins.
 
Svo til að hún haldist nú ósnortin sem lengst kippum við náttla fánunum með heim eftir gjörninginn.

Engin ummæli: