föstudagur, júlí 16, 2004

Heppin!!

Í kvöld rann upp fyrir mér í fyrsta sinn hvað við erum heppin að allt sé svona dýrt á Íslandi. Allt er dýrt hér því við erum, þrátt fyrir endalausan barlóm um hvað við höfum það skítt, ein ríkasta þjóð í heimi. Það gerir það að verkum að við fáum líka hærri laun fyrir vinnu okkar en sennilega 90% jarðarbúa. Það aftur gerir okkur kleift að ferðast um allan heim, læs og vel nærð frá vöggu til grafar, og upplifa heiminn á allt annan og mögulega ríkari hátt en þessi hin umræddu 90% jarðarbúa.

Ef ég hefði fæðst í Laos eða Bólivíu eða Zimbabwe hefði ég ekki séð jafnmikið af þessari jörð og ég hef gert. Þar kostar bjórinn kannski tíkall en flugmiðinn kostar enn hundrað þúsundkalla og það væru laun mín fyrir áralangt strit. Ég gæti kannski verið sífull en Svalbarði og Suðurskautslandið yrðu mér framandi að eilífu. Jafnvel tilvist þeirra gæti verið mér ókunn um alla ævi.

Mikið ROSALEGA erum við heppin að hafa fæðst á Íslandi.


Engin ummæli: