miðvikudagur, júlí 14, 2004

Næring fyrir næsta árið

Þá er ég komin heim úr viku gönguferð Augnabliks með álfkonunum Ósk og Ástu um undraveröld Jöklu og Kringilsárrana. Þvílík lífsreynsla! Ég vona að ég eigi aldrei eftir að verða söm; þær miðluðu til okkar þvílíkri jákvæðni og virðingu fyrir landinu og því sem í því lifir og mér finnst ég vera full af þeirra krafti núna. Á hverjum morgni vöktu þær okkur með söng, áður en lagt var í'ann á morgnana leiddi Ásta okkur í jóga og þegar í náttstað var komið tókum við nokkrar jógateygjur. Hópurinn var alveg frábær, við vorum 34 á öllum aldri og úr öllum áttum; við náðum svakalega vel saman og á flugvellinum áðan leið mér eins og ég væri að kveðja fjölskylduna mína. Það verður gott að fara með þessa vellíðan inn í næsta ár í Bandaríkjunum. Enn eru laus sæti í ágústferðirnar um svæðið og ég get ekki mælt nógsamlega með því að þið sem þetta lesið drífið ykkur. Auðvitað skiptir ekki máli hvað fólki finnst um virkjanir því ferðin er opin öllum og öll munum við þurfa að sjá á eftir þessu landi ef virkjunin rís.

Reyndar er svolítið undarlegt að tala um vellíðan þegar um er að ræða gönguferð um það svæði sem mun hverfa undir mesta mikilmennskubrjálæði Íslandssögunnar, Hálslón og Kárahnjúkavirkjun. Ég hef alltaf verið á móti þessum framkvæmdum og eftir þessa ferð hefur sú afstaða mín ekki haggast nema síður sé. Ég er núna algjörlega yfirkomin af sorg og reiði út af þessum illvirkjum sem mér finnst þessar framkvæmdir vera, ekki síst vegna þess sem mér lærðist í þessari ferð, neflilega hvernig við fólkið í landinu höfum verið kerfisbundið blekkt af áróðursmeisturum Lands-/Illvirkjunar. Dæmi: Samfellt gróðurlendi við bakka Jöklu, bæði í Brúardölum og á Vestur-Öræfum, er kynnt af Landsvirkjunarkónum sem örfoka melar. Tölvugerðar yfirlitsmyndir af Hálslóni villa fólki sýn með því að láta lónið virðast miklum mun minna en það í raun er (berið myndina sem ég linka á hér að framan saman við þetta kort hér). Látið er sem stórkostlegar náttúrusmíðar eins og gljúfur Jöklu milli Sauðár og Tröllagilslækjar, Töfrafoss í Kringilsá og margir fornir og núverandi farvegir Gljúfrakvíslarinnar séu ekki til. Eins gefa stjórnvöld sögu landsins og vísindum langt nef: Sethjallarnir í farvegi Jöklu eru algerlega einstakir og segja sögu um hörfun ísaldarjökulsins sem hvergi annars staðar verður lesin en enn hefur ekki gefist tækifæri til að rannsaka þessa hjalla að neinu marki. Töðuhraukar, sem eru einstæðar náttúrusmíðar framhlaupsjökuls, munu fara undir vatn. Íslenskum stjórnmálamönnum gæti ekki staðið meir á sama.

Á tyllidögum mala íslensk stjórnvöld um þekkingarsamfélag, án þess að hafa dímensjónir í að skapa Austfirðingum og Íslendingum almennt skilyrði til að skapa slíkt samfélag. Í staðinn leita þau skyndilausna sem skila engum hagnaði nema í kjörkassana og nauðga landinu sem við höfum að láni hjá komandi kynslóðum. Þau bókstaflega drulla yfir mannauðinn í landinu með því að kalla hvern þann (mennta-)mann og -konu sem mótmælir stefnu þeirra í stóriðju- og virkjanamálum ærumeiðandi fúkyrðum; þau sjá íslenska karlmenn fyrir sér upp til hópa ófaglærða nema í álfræðum, íslenskar konur í þjónustustörfum að selja verkamönnunum í bræðslunni hreinar nærbrækur og hamborgara í næstu sjoppu. Trú þeirra á kraftinn og sköpunargáfuna í fólkinu í landinu er engin, uppgjöfin algjör.

Við erum ein ríkasta þjóð heims og lifum á tímum góðæris, við eigum frambærilega háskóla og fjöldan allan af hámenntuðu fólki. Í stað þess að nýta þennan kraft, þessa fjárfestingu og þennan mannauð fara stjórnvöld auðveldu leiðina, uppgjafarleiðina, þau taka sig til og eyðileggja landið okkar og hórast fyrir alþjóðlegan auðhring í leit sinni að nokkrum skildingum í ríkispyngjuna og atkvæði í kassana. Svei ykkur, Siv og Valgerður, Finnur og Friðrik, Davíð og Halldór. Svei svei svei og aftur svei. Ef ég væri trúuð myndi ég gera orð Jesú að mínum: "Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra".

Engin ummæli: