sunnudagur, desember 29, 2002

Á bloggnum þeirra Ernu og Mödda er mikið rætt um femínisma þessa dagana. Þetta snertir mig ekki jafnmikið og ýmislegt annað óréttlæti heimsins, t.d. það hvernig Ingibjörgu Sólrúnu er bolað út úr borgarstjórastól (ÞAÐ er mál fyrir femínista), en engu að síður er allt í lagi að taka þátt í umræðunni:

Mega kallarnir gefa okkur konum nærföt í jólagjöf? Ég sé ekki að sú kona sem er ánægð með e-ar blúndur frá kallinum sínum sé lélegur femínisti. Í mínum huga koma blúndur femínisma næsta lítið við, hrífist konan á annað borð af þeim og finnist þær fallegar. Það að vera femínisti í mínum augum er að vera stolt af því að vera kona og krefjast þess að njóta virðingar og jafnréttis, og það er svo sannarlega hægt að gera þó kallinn gefi manni blúndur í jólagjöf. Auðvitað eru til karlrembur sem álíta að eina hlutverk eiginkvenna þeirra sé að vera sætar og vel tilhafðar, elda góðan mat og vera góðar í rúminu. Í blúndunærfötunum frá þeim. Út frá þessu skil ég punkt Ernu þar sem hún talar um að "besta gjöf sem hægt sé að gefa konu sé tækifæri til að finnast hún vera sexý, fyrir bóndann". Þessar konur gera líklega lítið fyrir femínismann og minna fyrir sjálfar sig sem þenkjandi verur. Enda, því miður, ekki hægt að ganga að því sem vísu að allar konur séu þenkjandi verur. Þaðan af síður allir karlmenn.

Hvaða fuss er þetta um e-ar nærjur í jólapakkanum? Hvaða hlutverki eru þær taldar gegna í þessu sambandi? Jú, að gera dömuna meira sexý. Og femínistarnir draga þá ályktun að konan viti ekkert verra en að þurfa að vera sexý fyrir kallinn sinn (þennan sveitta, loðna og andfúla sem krefst réttar síns tvisvar í viku??). Konan er svo miklu meira en bara kynvera, eins og Erna bendir réttilega á, og því er það argasta móðgun við hana að minna hana á það hlutverk. Ilmvatn? Silkiblússa? Og þar sem femínisminn krefst jafnréttis geri ég ráð fyrir að konur verði að hegða sér jafnvel og þær krefjast að karlarnir geri: Má konan gefa kallinum sínum nýja Armani rakspírann? Eða þennan þarna frá Dior, sem er svo geðveikt góður að hún kiknar alltaf í hnjáliðunum yfir lyktinni? Nei ó nei. Ekkert sem minnir á hlutverk mannsins sem kynveru. Ekki silkiboxers, og alls ekki g-streng. Óver mæ dedd!

Hvaða bull er þetta? Konur eru helmingur mannkyns og hafa jafnmargar og misjafnar skoðanir og þær eru margar. Sumar yrðu eflaust arfavitlausar ef þær drægju blúnduvirki með spöngum og græjum upp úr jólapakkanum frá kallinum. Aðrar alveg hæstánægðar. Aðrar einhvers staðar á milli. Mestu máli skiptir að kallinn viti, svo hann risíkeri ekki sambandsslitum. Þær sem fíla þetta, eða halda að þær fíli þetta, ættu kannski að skoða í hugskot sitt og athuga AF HVERJU þær eru svona ánægðar með sexý settið. Er það af því þeim finnst þær ekki hafa neinu merkilegri hlutverki að gegna í lífinu en að vera snotrar fyrir kallinn? Eða er það af því þær eru svo miklar kynverur að þær fá sitt kikk út úr því að vera í æsandi nærfötum upp á hvern einasta dag og eiga aldrei nógu mörg? Og þær sem finnst þetta fáránlegt, af hverju finnst þeim það? Af því einhver doktrína sem þær aðhyllast segir að þetta SÉ hallærilegt, sama hvað einstaklingnum finnst? Eða af því þeim finnst blúndur einfaldlega ljótar?

Sjálf álít ég mig femínista. Mikinn femínista. Ég hlusta ALDREI aftur á X-ið, þó ár og dagur séu liðin síðan auglýsingarnar hættu: "X-ið. Fyrir stelpur sem kyngja". Ég horfi aldrei á MTv og aðrar stöðvar þar sem mishæfileikaríkar og/eða -snauðar konur dilla sér berrassaðar í fanginu á köllunum, vitandi að það er svo til eina leiðin til að ná frama í heimi þar sem karlarnir eru yfirleitt allir of feitir og kappklæddir, í herfilega ljótum og óæsandi druslum. Cosmo og Glamour og viðlíka rusl les ég ekki, nema mig langi í þunglyndiskast. Samt finnst mér voða næs að eiga sæt nærföt og fer m.a.s. stundum í þau alveg af tilefnislausu. Enda ung og ólofuð stúlkan, og þarf ekki að klæða mig uppá fyrir þennan sveitta, loðna og andfúla tvisvar í viku. Bara fyrir sjálfa mig. Alveg eins og Stína sagði; sexí fyrir okkur sjálfar, í kommentunum á póstinn hjá Ernu. Það er ekki þversögn. Stundum langar okkur bara að vera svoldið sexý. Sama þótt enginn annar sjái :)

Engin ummæli: