miðvikudagur, mars 30, 2005

Hraunað á hringveginn

Í gær og dag var hringvegurinn umhverfis Hawai'i-eyju tekinn fyrir. Reyndar svindluðum við smá og keyrðum yfir á austurströndina gegnum "skarðið" (2000 m y.s.) sem skilur að risahlussurnar tvær Mauna Kea og Mauna Loa, en að öðru leyti héldum við okkur á hringveginum. Skarðið var svoldið svona eins og að keyra uppi við Kröflu á tímabili, kolbikasvart hraun og úrhellisrigning. Það rigndi líka mjög hressilega á okkur á austurströndinni og ekkert virtist regninu ætla að linna eftir því sem við nálguðumst Volcanoes-þjóðgarðinn. Til að komast að svæðinu þar sem eldvirknin er þarf að keyra niður nokkra háa klettastalla niður að ströndinni og þegar við keyrðum niður af þessum stöllum, eða pali eins og klettar heita á hawaiisku, urðu verstu regnskýin sem betur fer eftir í upphæðum. Þannig var komið næstum-sólskin gegnum skúraleiðingarnar þegar við hófum gönguna.

Claire, sem er 7 ára, stjórnaði gönguhraðanum. Elly, 3ja ára systir hennar, var í poka á baki mömmu sinnar og moi tölti með. Gangan inn eftir tók okkur rúma tvo tíma í hávaða-mótvindi og ansi hressilegum regnskúrum. Í dagsbirtunni sást ekki mikið hraun renna til að byrja með og mér fannst þetta innst inni hálfgert frateldfjall, engin læti og vá-stuðullinn skuggalega lágur.

Þegar Claire var alveg að komast á stigið sem ég á hennar aldri hefði komist á strax eftir kortérs labb, i.e. að kasta sér á andlitið æpandi og gólandi og sverja þess eið að ganga ekki feti lengra á ævinni, fór hraunrennslið loks að gera vart við sig í fjarska. Sú stutta kættist aðeins og með miklum fortölum tókst að fá hana til að koma sér fyrir eigin afli að útsýnisstaðnum. Þar var múgur og margmenni að skoða og við fengum okkur sæti og sáum mjóa hrauntaumana renna út úr kletti ofan í sjó. Þetta var fínt fyrir mig í bili, mér fannst ég alveg hafa himinn höndum tekið og sat opinmynnt að dást að herlegheitunum meðan Claire útskýrði fyrir mér helstu fakta um hraun. Eins og að ofan segir þá er hún 7 ára gömul en hún getur farið beint í mastersprógrammið í jarðfræði, alin upp eins og hún er af tveimur jarðfræðiprófessorum! Á meðan við þrjár, Claire, Elly og ég, virtum undrið fyrir okkur fór Alex með vídeókameruna nokkrum metrum lengra út eftir, þar sem orðrómur fór af mikilli hraunelfur. Þegar hún kom til baka var útsýnið mitt farið að takmarkast allverulega af rauðhærðum krullukollum frá Skotlandi sem höfðu af einskærri tillitssemi plantað sér beint fyrir framan okkur þrjár svo engin okkar sá neitt lengur.

Ég rölti því yfir að hraun-ánni og viti menn, vá-stuðullinn, sem hafði reyndar hækkað allsvakalega þegar ég sá hraunið renna ofaní sjó, hoppaði alveg lengst út að endimörkum kortsins. Þarna var hraun að mjaka sér út um allar sprungur, og ofan í sprungunum sást rauð glóð hvar sem litið var. Mér fannst þetta hálfskuggalegt og fór eitthvað að vara fólk við því hvað þetta væri nú allt saman hættulegt. Sem betur fer tók ég mig svo saman í andlitinu og minnti sjálfa mig á að ég væri ekki leiðsögumaður fyrir þessa túristafávita heldur væri ég bara túristafáviti sjálf. Það var samt svoldið skerí að labba á þessu... glóandi og fljótandi hraun undir fimm sentimetra hraunskán sem heldur manni uppi. Ég var alveg bergnumin yfir þessu öllu saman og hálfhljóp yfir hraunið, þar til ég sá að ég var alveg við það að hlaupa út á rennandi hrauntungu þar sem þetta fimm sentimetra þykka og gráa var ekki búið að myndast! Þá snarstoppaði ég og dró andann djúpt nokkrum sinnum... (hefði betur sleppt því, brennisteinninn ekki mjög heilsusamlegur) og um leið var þjóðgarðsvörðurinn mættur: Hvernig hefur þú það svo í dag? Fínt, takk. Einmitt, en þú ættir nú að fara að færa þig, annars bráðna sólarnir þínir neflilega. Já, akkúrat, einmitt, þakka þér fyrir. Þetta var sem sagt ever so slightly súrrealísk upplifun, ég skal sko segja ykkur það.

Þegar þarna var komið sögu var farið að rökkva og rigningin kom aftur af fullum krafti. Við biðum af okkur skúrina undir kletti og vorum allar orðnar hundblautar þegar stytti upp. Sem betur fer, í þessu tilfelli, er alveg svakalega heitt nálægt hrauninu og við röltum aftur yfir að glóandi hraunbólstrunum til að þurrka okkur. Vindurinn hlýnar svo af varmastreyminu frá kólnandi hrauninu að þetta er eins og að standa inni í þurrkara og á nokkrum mínútum vorum við allar skraufaþurrar. Þá tók við ganga í myrkri til baka yfir hraunið. Hraunrennslið sést miklu betur í myrkri og á þessari göngu til baka gerði ég mér loks grein fyrir því hvað það er í raun mikið hraun að renna þarna. Öll hlíðin ofan við okkur var þakin bæði mjóum og breiðum hraunám á mörg hundruð metra kafla og hraun rann í sjó fram miklu víðar en þar sem við höfðum séð.

Það sem mér fannst eiginlega merkilegast við þetta allt saman er að það skuli yfirhöfuð vera hægt að fara að hrauninu og horfa á það renna rétt við nefið á sér. Hawaii tilheyrir jú Bandaríkjunum. Í Bandaríkjunum ertu látin skrifa undir plögg til að afsala þér öllum rétti til hugsanlegra málsókna ef þú stígur upp í rútu á vegum saumaklúbbsins þíns. Skilti hóta þér málsókn ef þú gengur niður snjóugar tröppur í næsta state park. Við Kilauea máttu ganga ofan á fimm sentimetra þykku hraunlagi ofan á 1200°C heitu hrauni og þjóðgarðsverðinum gæti ekki staðið meira á sama. Mér finnst að ríkin 49 á meginlandinu ættu að taka sér Hawaii-attitúdið til fyrirmyndar!

Þetta var í gær. Í dag fórum við aftur í þjóðgarðinn til að sjá allt sem við slepptum í gær fyrir gönguna, en sáum nánast ekkert vegna úrhellisrigningar. Ég náði nú samt að sjá aðalgíginn á Kilauea-eldfjallinu, svo og Kilauea Iki-gíginn fræga. Þar voru gerðar alveg svakalega merkilegar rannsóknir í bergfræði sem allir, og ég meina ALLIR, jarðfræðistúdentar læra um. Rigningin hefur varla yfirgefið okkur í allan dag, nema í þessa tvo tíma sem ég rölti um Kona-bæ að versla og hafa það næs. Á morgun byrjar kennsla í kúrsinum sem ég er TA í, en þar sem leiðbeinandinn minn kennir kúrsinn er eins við því að búast að fyrirlesturinn verði um kaffirækt eða pólitík. Sjáum til hvað gerist næst!

mánudagur, mars 28, 2005

Tralalala

FYI: Ég mæli ekki með hálfum poka af jógúrthúðuðum rúsínum í morgunmat.

Djövulli er allt dýrt á Hawai'i. Maður lifandi. Ég keypti tvo pakka af morgunkorni, tvo lítra af mjólk og einn kaffipakka í dag og pungaði út 26 dollurum fyrir herlegheitin. Held ég verði að drífa mig til baka til Íþöku áður en ég stingst á hausinn.

Í þessum ágæta nýja heimabæ mínum er engin ástæða til að sakna Íslands. Hér rignir viðstöðulaust, yfirleitt svona smá rigningu sem er blaut en samt eiginlega ekki neitt neitt. Vindurinn blæs af svo miklum móð að trén vaxa samsíða jörðinni. Svo um leið og niður úr söðlinum kemur dettur allt í dúnalogn. Waimea (bærinn) liggur neflilega í söðli milli tveggja útkulnaðra eldfjalla, Kohala í norðri og Mauna Kea í suðri. Staðvindarnir úr suðaustri blása upp hlíðarar og er svo veitt eins og í gegnum trekt inn í söðulinn. Þess vegna er sjaldan ef nokkru sinni logn í bænum og vindarnir sterkari en víðast hvar annars staðar.

Þetta var mjög áberandi í gærkvöldi. Alex, konan sem sér um prógrammið hér, stakk upp á að borða kvöldmat á ströndinni. Ég hélt nú bara hún væri eitthvað biluð því hér í bænum rigndi og rokið var alveg formidable. Enginn gerði hins vegar athugasemd við uppástunguna svo ég hélt mér saman. Kínverski maturinn var sóttur og svo brunað niður í Spencer Beach Park, við rætur Kohala-fjalls. Á leiðinni niður eftir, ca. 10 mínútna akstur, stytti upp og í baksýnisspeglinum gat að líta þrjú eldfjöll, Mauna Kea, Mauna Loa og Hualalai, sem öll voru ósýnileg vegna regnskýja frá Waimea-bæ, baða sig í síðustu geislum sólarinnar. Á ströndinni var hlýtt og bara smá gola af hafi meðan Waimea-bær var enn kyrfilega umvafinn regni og roki. Mér sýnist sem sagt að málið sé að vera ekkert að púkka of mikið upp á þennan nýja heimabæ minn og borða í staðinn dinnerinn on the beach á hverju kvöldi.

laugardagur, mars 26, 2005

Lei

Steingleymdi að segja ykkur að hann Chris sem kom að sækja migá völlinn hér á Stóreyju skellti einum svona edilonsfínum kransi um hálsinn á mér í kveðjuskyni. Haldiði maður sé nú lekker?? Minn er úr svona blómum sem eru lengst til hægri, gulum og hvítum. Svo ilmar þetta svona líka agalega vel. Edilon, alveg hreint.

Bloggfall og það sem er við hæfi

Ég verð nú að segja að mér finnst þið hundleiðinleg. Enginn kommentar á færslurnar mínar lengur. Ef þið farið ekki að taka ykkur saman í andlitinu fer ég bara að hætta þessu. Væl.

Nú, að öðru. Mér finnst ekki annað við hæfi en að láta ykkur öll, sem núna liggið andvaka í bælinu af spenningi yfir páskaegginu sem bíður ykkar í fyrramálið, vita að ég komst heil á húfi yfir á Stóru eyjuna, þrátt fyrir að gemsinn minn hafi gleymst í Waikiki og að ég hafi ekki átt bókað flug milli eyjanna. Flugfélagastarfsmenn, sérstaklega þeir sem svara símum og þurfa að kunna að telja upp að tíu, eru miklar mannvitsbrekkur og eiginlega uppáhaldsfólkið mitt. Ein svoleiðis sannfærði mig um það fyrir rúmri viku að hún væri búin að breyta fluginu mínu, svo mætti ég á flugvöllinn í morgun og bara sorrý Stína, þú misstir af fluginu þínu og þarft að kaupa nýjan miða. Það þarf eiginlega ekki að taka það fram að undirrituð gjörsamlega missti sig. Eftir þetta public display of affection er ég nokkuð viss um að Íslendingum verður ekki framar hleypt inn í fylkið.

Á stóru eyjunni er rok og rigning og hálfgert gæsahúðarveður. Hraunið er alveg svakalega svart og grasið alveg svakalega grænt og eitthvað finnst mér pálmatrén sem vaxa upp úr hraunreipunum stinga í stúf við grámosann sem býr í hraunflákum hugans. Kúrsinn sem ég er hér til að aðstoðar-kenna í byrjar á miðvikudaginn, þangað til er eiginlega bara frí og mér skilst að á mánu- og þriðjudaginn ætli ég í gönguferð að skoða gosið í Mauna Loa. Mér hlakkar svo mikið til að ég verð bara eins og fimm ára óviti, mér hefur neflilega alltaf langað að sjá hraun renna en aldrei tekist!! Vona það hafist í þetta skiptið.

Vidforlar

Eg var allt i einu ad fatta (jamms, thetta tekur tima) ad vid systurnar erum nuna badar vid Kyrrahafsstrendur. Flottar!

Aloha

20 tima ferdalag yfirstadid og undirritud situr a barnum a Waikiki Sand Villa ad sotra Heineken. Viljidi spa, eg aetladi ad tipsa skutlu-bilstjorann 2 dollara og let hann ovart fa 11, og hann sagdi ekkert. Farid er 8 dollarar. Ullabjakk. Hann var nu reyndar med running commentary, med song og hljodeffektum og ollum pakkanum, a leidinni. En samt.

Tolvan min i vinnunni "is having hardward problems", eins og tolvugaeinn okkar ordadi thad i postinum. Eg aetladi ad kopera gogn yfir a geisladisk i gaer og hafa med mer hingad og sumir folderarnir virtust tomir. Jesus Maria og Petur. Dell er ad senda okkur nyjan hardan disk. Leggjumst nu oll a baen ad gognin min seu ekki horfin. Eg verd i marga daga ad danloda og prosessa aftur oll gognin sem eg nadi ekki i i gaer. Held malid se ad fjarfesta i auka hordum disk til ad bakka allt upp a.

Rokkar Hawaii sokkunum minum? Thad er god spurning. Her er allt of fint vedur til ad vera eitthvad i sokkum. Svarid er thvi liklegast nei.

Flyg til Kona i fyrramalid. Uppdeit sidar.

fimmtudagur, mars 24, 2005

smö

rosalega er undarleg lykt af döktteipi. ætli ég sé í vímu??

var búin með snilldarfærslu um áhrif stress á mannslíkamann... týndi henni. þar með eru áhrif stress á mannslíkamann lifandi komin. ætla út af þessu labbi og út í hreint loft áður en teipið drepur þessar fáu gráu sem eftir eru.

heyrumst af e-m flugvelli, lifið heil.

miðvikudagur, mars 23, 2005

Ekki alveg svona svart

nei nei, Herdís mín, ekki alveg svona neikvæð. Hver þarf svo sem að fara í vorfríinu (sem nú stendur sem hæst) alla leið til Aspen til að fara á skíði?? Það verður náttla bara strápilsið og blómahálsmenin sem blíva frá og með laugardeginum. Ef ég missi ekki af vélinni, þ.e.a.s.

Brottfararstress

Núna er Herdís ekki hress. Ég fer á föstudagsmorguninn til Hawai'i og er á fullu að undirbúa brottför. Óskipulögð eins og ég er þá er ég ekki búin að neinu og finn stressið hellast yfir. Það á eftir að senda hálft efnafræðilabb úr húsi og í viðbót á ég eftir að pakka öllum mínum eigum, koma þeim í geymslu og þrífa eftir mig á gamla staðnum. Ofan á allt þetta bætist að ég held að ég eigi eftir að verða gaga af að vera á Hawai'i í tæpar átta vikur.

Ergó: Ég er í fýlu. Urrr.

föstudagur, mars 18, 2005

MR-gengið

mun hittast í kvöld þegar Erna og Mörður koma í heimsókn til Íþöku. Þeim verður boðið til kvöldverðar að Austurströnd 1014 og svo dregin, hugsanlega nauðug viljug, á aðalpöbb bæjarins, Chapter House. Afgangi helgarinnar mun verða eytt á skíðum á Grískatindi og einhverju bralli í bænum.

Er komin með heimilisfang á Hawaii. Ef einhvern langar að senda mér brimbretti í póstinum skal ég senda ykkur addressuna :)

fimmtudagur, mars 17, 2005

Vorið

er bara að koma. Úldið gras er farið að stingast upp úr snjónum út um allt og dagarnir eru að verða langir. Um sex-leytið um eftirmiðdaginn fer sólin að skína svo skemmtilega úr vestrinu á glerhýsin umhverfis bílastæðið sem ég sé út um labbgluggann minn og þá finnst mér ég vera að horfa á sindrandi vesturglugga sem brenni í húsunum. Sakna íslenska vorsins núna, þó ég viti reyndar ekki hvort það sé komið þarna í norðrinu.

miðvikudagur, mars 16, 2005

Góð!!

Er búin að gera mikið gagn í dag. Lítil græja til að mæla styrk jóna í vatni var biluð, og var það mjög miður því hún hentar svo vel til að nota úti í mörkinni og með nemendum á Hawaii. Tilraunir til viðgerða af hálfu framleiðandans voru ekki mjög miklar, í staðinn hentu þeir í okkur e-m hálfónýtum kapli sem virkaði ekki og kostaði 135 dollara. Ég skrifaði harðort kvörtunarbréf í nafni labbsins okkar og sendi á nokkra vel valda aðila og það bar þann árangur að við fáum glænýja græju okkur að kostnaðarlausu, þrátt fyrir að gamla græjan hafi verið löngu farin úr ábyrgð. Þarna sparaði ég okkur sirka þúsund dollara í nýtt júnit. Nú get ég með góðri samvisku farið í kaffi, þó ég hafi bara verið í vinnunni í kortér :)

þriðjudagur, mars 15, 2005

Anokha

Er að hlusta á Anokha í tilefni af því að hún Erna vinkona keypti sér diskinn um daginn. Hún saknaði hans víst eftir að hafa heyrt hann hundrað sinnum hjá mér meðan við leigðum saman á Mánagötunni. Eldgamall diskur en enn algjör snilld.

mánudagur, mars 14, 2005

Af græjum er þetta helst:

Af þeim þremur skíðum sem ég prófaði um helgina stóðu þessi upp úr. Svona bindingar með og ég get bara skíðað allt! Eða næstum því.

Í framhjáhlaupum skal á það minnst að Vermont er tjúllaðislega fallegt. Og Mad River Glen rokkar sokkunum mínum.

fimmtudagur, mars 10, 2005

Parliamentary Motion attacks destruction of Icelandic Highlands

Press release (in English) from Sue Doughty MP: Lesið íslenska þýðingu hérna.

Gaman þegar gömul og virðuleg þjóðþing nágrannalandanna eru farin að líkja okkur við þriðja heims lönd. Sérstaklega af því við erum sjálf að grátbiðja nýlenduveldi nútímans að sjá aumur á okkur og arðræna, við erum ekki að berjast á móti eins og aðrar nýlendur. Hver þarf sjálfstæði og stolt þegar skjótfenginn gróði er í sjónmáli?? Er ekki næst upplagt að opna ríkisstyrktar vopnafabrikkur í Eyjafirði og leyfa kjarnorkutilraunir undir Vatnajökli? Svo hlýtur að vera hægt að koma inn öðrum Guantanamó einhvers staðar, kannski á Hornströndum? Fyrst við erum byrjuð að selja okkur svona hressilega, bæði líkama og sál, þá er engin ástæða til að láta staðar numið hér.

Fávitar. FOKKÍNGS FÁVITAR!!!!!

miðvikudagur, mars 09, 2005

Enn um linka

Fínt að eyða miðvikudagskveldi með hor í nös heima að drekka bjór og hlæja eins og vitfirringur að kvendjöflum í Reykjavík. Þær áttu sérlega góða spretti í febrúar í fyrra. Og Múmínmamma á endalausa góða spretti. Setti inn fasta linka á þær hérna til hliðar.

Það er hins vegar með sorg í hjarta og tár á hvarmi sem ég hendi út linkunum á Sif og Jón Bjarka. Drífið ykkur nú að blogga og ég skal UM LEIÐ setja ykkur inn aftur. Ok?

Afrek daxins

Hvað er eiginlega hægt að vera þreytt og rotinpúrruleg í vinnunni?? Undanfarnar nætur hef ég verið eitthvað stressuð út af Hawai'i-ferð og fleiru og hef ekki náð að sofa sem skyldi... er orðin eins og uppvakningur... með bauga og hrukkur og hárstrý út í loftið. Mö. Afrek dagsins því frekar takmörkuð... skellti sápuvatni í 62 125-ml plastflöskur sem ég ætla að taka með til Hawai'i og fylla af árvatni þar. Sápuvatnið þarf að liggja þarna í einn dag svo þarf að snúa flöskunum við og láta þær standa á haus í einn dag og svo skola sápuna og setja sýru oní og sömu leikfimiæfingar endurteknar, á haus og kollhnís. Að þessu loknu fæ ég doktorsgráðu í uppvaski. Jibbí.

Telemark-festivalinn nálgast á svimandi hraða. Djæses kræses hvað það verður GAMAN!!!!

Guði sé lof, Chris labbfélagi er að fara heim. Það þýðir neflilega að sjálfsögðu að mér er óhætt að láta mig hverfa líka. Lifið heil

þriðjudagur, mars 08, 2005

Ný íbúð - sáluhjálp innifalin í leigu

Við Stephanie vinkona brugðum undir okkur betri fætinum í eftirmiðdaginn og fóru að skoða íbúðir. Hún er skipulagssnillingur mikill og var búin að setja upp viðtöl og skoðanir á einum 15 íbúðum á 4 tímum, geri aðrir betur!

Þetta fór frekar skrautlega af stað. Fyrsta landladyin var gaggandi hryllingur frá helvíti og sú næsta var hippi sem sýndi okkur þriggja íbúða sumarbústað úti á túni þar sem eiturslöngur búa í búrum. Eftir þá lífsreynslu fengum við okkur hjartastyrkjandi (kakó með rjóma) í beyglubúðinni. Næsta deit var við vinalegan húsvörð sem sýndi okkur tvær íbúðir, önnur var svo lág til loftsins að Stephanie fékk innilokunarkennd (fyrir utan að við þurftum að klofa yfir tíu rúmmetra af rusli á gólfunum í öðru svefnherberginu og það hafði ekki verið sturtað niður úr tojaranum í einar tvær vikur) og hin var svo dýr að við hefðum eins getað staðið við gluggann í rokinu og hent hundraðköllunum út einum af öðrum.

Við létum samt ekki bugast. Næsta deit var niðri í bæ svo við skelltum okkur í te á Gimme! kaffihúsinu, þar sem misskilin ljóðskáld Íþöku sötra espresso daginn út og inn, meðan klukkan varð kortér yfir fimm. Þá mættum við í kjallara hússins nr. 410 við Norður-Norðurljósastræti og bara kolféllum fyrir því sem þar var að sjá. Húsið sjálft var byggt 1830 og eitthvað og eigandinn er að gera það upp, þannig að til stendur að gera alla íbúðina upp í sumar og lýsingar landlordsins á renóvasjóninni hljómuðu alveg spellbinding. Bak við húsið er risastór garður, við hliðina á húsinu norðan megin rennur Cascadilla-áin í stokki og handan við hana er búddaklaustur, meðan að sunnan megin við húsið er eldgömul kirkja.

Okkur leist alveg svakalega vel á og eftir að tjatta við eigandann og ráða okkar ráðum ákváðum við að taka bara íbúðina. Þá voru reyndar aðrir próspektív leigjendur mættir að skoða en við Stephanie hringsóluðum í kringum húsið þar til við sáum þá fara, hringdum þá umsvifalaust í eigandann og báðum um að fá íbúðina. Elsku kallinn sagðist einmitt hafa ákveðið með sér að hann vildi að við fengjum hana... bara sætt. Hittum hann svo tíu mínútum seinna og gengum frá dílnum. Nú er sem sagt Herdís litla komin með húsaskjól fram í ágúst 2006 og ætti að vera nokkuð sáluhólpin í millitíðinni líka.

Íþaka - Reykjavík

Einhvern veginn hélt ég að rúma 400 km frá næsta úthafi ríkti meginlandsloftslag. Því er samt bara alls ekki að heilsa. Undanfarnar vikur hefur verið margra stiga frost hér, svo um helgina varð bara hlýtt og í gær var 10 stiga hiti í Íþöku. Í morgun vöknuðu svo bæjarbúar með bílana sína kyrfilega frosna í klakabrynju og tommu af nýföllnum snjó á jörðu. Þetta er bara eins og í borginni við sundin.

Nýjustu fregnir herma að einhver hafi sett hálftugginn hákarlsbita ofan í blómapott hjá Hrönnsu. Skamm!

sunnudagur, mars 06, 2005

Hrútspungar 2005

eru hér. (Ó-)eðlilegar afleiðingar Hrútspunga 2005 má svo sjá hér.

föstudagur, mars 04, 2005

Allt of mikil snilld!!

Ef ykkur vantar neyðarviðbúnað vegna yfirvofandi fellibylja, komið til mín!!

fimmtudagur, mars 03, 2005

Ný síða jarðfræðideildarinnar

Hér á bæ var verið að gera meiriháttar öppdeit á vefsíðu deildarinnar. Mín eigin prívat og persónulega síða er líka komin upp og fastir linkar hér til hliðar. Gaman að því.

miðvikudagur, mars 02, 2005

Ekki annað við hæfi

en að deila með ykkur þeirri skemmtilegu lífsreynslu sem ég varð fyrir í gærkveldi. Fór þá í fyrsta sinn á ævinni niður hálfpípu, svona eins og snjóbrettaliðið er alltaf að hoppa í. Ég var nú bara pen að sveifla mér niður eftir miðjunni en stefnan er sett á að prófa einhver hopp innan tíðar. Sei sei já, það mætti halda að ég væri bara ung að leika mér, jájá.

Nýr linkur

Var að henda inn krækju á Hawai'i-prógrammið hjá Cornell hérna til hliðar. Njótið vel, eftir nokkrar vikur verða kannski komnar myndir af ykkar einlægri þarna inn :)

þriðjudagur, mars 01, 2005

Ekki heima

Það er alla vega alveg klárt að ekki er það lesefni dagsins sem vekur mér vellíðan: Sundquist að leiða út alls konar K og T og C^-1 og aðra fylkja-viðurstyggð, allt tekið úr e-m pappír eftir einn mesta jarðefnafræðing samtímans sem átti því óláni að fagna að vera pedófíl. Huggulegt. Ekki það að p-fílían hafi mikið verið að þvælast fyrir blessuðum manninum á rannsóknastofunni, en samt óspennandi tilhugsun.

Sem minnir mig á, ég var um daginn að lesa grein um áhrif mosans og hníptu heiðablómanna uppi við Skorravatn á veðrun grjóts. Greinin, sem var rituð 1997, er eftir konu og mjög frægan prófessor sem ég ályktaði að hefði verið leiðbeinandinn hennar. Í e-u prókrastinasjónar-kasti fletti ég konunni upp á gúggli og fyrsta hittið: Minningargrein um þessa ágætu konu, nýbakaðan aðstoðarprófessor í jarðefnafræði við e-n háskóla í miðríkjunum, sem lést í mótorhjólaslysi nálægt heimili foreldra sinna.

Hmmm... ætti kannski ekki að verða jarðefnafræðingur...

Heima

Það var svolítið skrýtið í morgun þegar ég var að fara í skólann. Mér fannst í fyrsta sinn síðan ég flutti hingað eins og ég ætti virkilega heima í Íþöku. Kannski það sé öllum snjónum að þakka (það var neflilega 20 cm jafnfallinn snjór yfir öll, líka honum Eiríki mínum, í morgun). Kannski það hafi verið skíðaferðin í gærkvöldi með vinum mínum Ara og Simeon, sem eru alveg óborganlegir. Eða kannski það hafi bara verið hún Stella hárgreiðslukona sem ég rakst á úti í apóteki að spyrja mig hvort ég sé ekki kát með snjóinn.

Andabær rokkar sem sagt í dag. Skvibbí!