Í gær og dag var hringvegurinn umhverfis Hawai'i-eyju tekinn fyrir. Reyndar svindluðum við smá og keyrðum yfir á austurströndina gegnum "skarðið" (2000 m y.s.) sem skilur að risahlussurnar tvær Mauna Kea og Mauna Loa, en að öðru leyti héldum við okkur á hringveginum. Skarðið var svoldið svona eins og að keyra uppi við Kröflu á tímabili, kolbikasvart hraun og úrhellisrigning. Það rigndi líka mjög hressilega á okkur á austurströndinni og ekkert virtist regninu ætla að linna eftir því sem við nálguðumst Volcanoes-þjóðgarðinn. Til að komast að svæðinu þar sem eldvirknin er þarf að keyra niður nokkra háa klettastalla niður að ströndinni og þegar við keyrðum niður af þessum stöllum, eða pali eins og klettar heita á hawaiisku, urðu verstu regnskýin sem betur fer eftir í upphæðum. Þannig var komið næstum-sólskin gegnum skúraleiðingarnar þegar við hófum gönguna.
Claire, sem er 7 ára, stjórnaði gönguhraðanum. Elly, 3ja ára systir hennar, var í poka á baki mömmu sinnar og moi tölti með. Gangan inn eftir tók okkur rúma tvo tíma í hávaða-mótvindi og ansi hressilegum regnskúrum. Í dagsbirtunni sást ekki mikið hraun renna til að byrja með og mér fannst þetta innst inni hálfgert frateldfjall, engin læti og vá-stuðullinn skuggalega lágur.
Þegar Claire var alveg að komast á stigið sem ég á hennar aldri hefði komist á strax eftir kortérs labb, i.e. að kasta sér á andlitið æpandi og gólandi og sverja þess eið að ganga ekki feti lengra á ævinni, fór hraunrennslið loks að gera vart við sig í fjarska. Sú stutta kættist aðeins og með miklum fortölum tókst að fá hana til að koma sér fyrir eigin afli að útsýnisstaðnum. Þar var múgur og margmenni að skoða og við fengum okkur sæti og sáum mjóa hrauntaumana renna út úr kletti ofan í sjó. Þetta var fínt fyrir mig í bili, mér fannst ég alveg hafa himinn höndum tekið og sat opinmynnt að dást að herlegheitunum meðan Claire útskýrði fyrir mér helstu fakta um hraun. Eins og að ofan segir þá er hún 7 ára gömul en hún getur farið beint í mastersprógrammið í jarðfræði, alin upp eins og hún er af tveimur jarðfræðiprófessorum! Á meðan við þrjár, Claire, Elly og ég, virtum undrið fyrir okkur fór Alex með vídeókameruna nokkrum metrum lengra út eftir, þar sem orðrómur fór af mikilli hraunelfur. Þegar hún kom til baka var útsýnið mitt farið að takmarkast allverulega af rauðhærðum krullukollum frá Skotlandi sem höfðu af einskærri tillitssemi plantað sér beint fyrir framan okkur þrjár svo engin okkar sá neitt lengur.
Ég rölti því yfir að hraun-ánni og viti menn, vá-stuðullinn, sem hafði reyndar hækkað allsvakalega þegar ég sá hraunið renna ofaní sjó, hoppaði alveg lengst út að endimörkum kortsins. Þarna var hraun að mjaka sér út um allar sprungur, og ofan í sprungunum sást rauð glóð hvar sem litið var. Mér fannst þetta hálfskuggalegt og fór eitthvað að vara fólk við því hvað þetta væri nú allt saman hættulegt. Sem betur fer tók ég mig svo saman í andlitinu og minnti sjálfa mig á að ég væri ekki leiðsögumaður fyrir þessa túristafávita heldur væri ég bara túristafáviti sjálf. Það var samt svoldið skerí að labba á þessu... glóandi og fljótandi hraun undir fimm sentimetra hraunskán sem heldur manni uppi. Ég var alveg bergnumin yfir þessu öllu saman og hálfhljóp yfir hraunið, þar til ég sá að ég var alveg við það að hlaupa út á rennandi hrauntungu þar sem þetta fimm sentimetra þykka og gráa var ekki búið að myndast! Þá snarstoppaði ég og dró andann djúpt nokkrum sinnum... (hefði betur sleppt því, brennisteinninn ekki mjög heilsusamlegur) og um leið var þjóðgarðsvörðurinn mættur: Hvernig hefur þú það svo í dag? Fínt, takk. Einmitt, en þú ættir nú að fara að færa þig, annars bráðna sólarnir þínir neflilega. Já, akkúrat, einmitt, þakka þér fyrir. Þetta var sem sagt ever so slightly súrrealísk upplifun, ég skal sko segja ykkur það.
Þegar þarna var komið sögu var farið að rökkva og rigningin kom aftur af fullum krafti. Við biðum af okkur skúrina undir kletti og vorum allar orðnar hundblautar þegar stytti upp. Sem betur fer, í þessu tilfelli, er alveg svakalega heitt nálægt hrauninu og við röltum aftur yfir að glóandi hraunbólstrunum til að þurrka okkur. Vindurinn hlýnar svo af varmastreyminu frá kólnandi hrauninu að þetta er eins og að standa inni í þurrkara og á nokkrum mínútum vorum við allar skraufaþurrar. Þá tók við ganga í myrkri til baka yfir hraunið. Hraunrennslið sést miklu betur í myrkri og á þessari göngu til baka gerði ég mér loks grein fyrir því hvað það er í raun mikið hraun að renna þarna. Öll hlíðin ofan við okkur var þakin bæði mjóum og breiðum hraunám á mörg hundruð metra kafla og hraun rann í sjó fram miklu víðar en þar sem við höfðum séð.
Það sem mér fannst eiginlega merkilegast við þetta allt saman er að það skuli yfirhöfuð vera hægt að fara að hrauninu og horfa á það renna rétt við nefið á sér. Hawaii tilheyrir jú Bandaríkjunum. Í Bandaríkjunum ertu látin skrifa undir plögg til að afsala þér öllum rétti til hugsanlegra málsókna ef þú stígur upp í rútu á vegum saumaklúbbsins þíns. Skilti hóta þér málsókn ef þú gengur niður snjóugar tröppur í næsta state park. Við Kilauea máttu ganga ofan á fimm sentimetra þykku hraunlagi ofan á 1200°C heitu hrauni og þjóðgarðsverðinum gæti ekki staðið meira á sama. Mér finnst að ríkin 49 á meginlandinu ættu að taka sér Hawaii-attitúdið til fyrirmyndar!
Þetta var í gær. Í dag fórum við aftur í þjóðgarðinn til að sjá allt sem við slepptum í gær fyrir gönguna, en sáum nánast ekkert vegna úrhellisrigningar. Ég náði nú samt að sjá aðalgíginn á Kilauea-eldfjallinu, svo og Kilauea Iki-gíginn fræga. Þar voru gerðar alveg svakalega merkilegar rannsóknir í bergfræði sem allir, og ég meina ALLIR, jarðfræðistúdentar læra um. Rigningin hefur varla yfirgefið okkur í allan dag, nema í þessa tvo tíma sem ég rölti um Kona-bæ að versla og hafa það næs. Á morgun byrjar kennsla í kúrsinum sem ég er TA í, en þar sem leiðbeinandinn minn kennir kúrsinn er eins við því að búast að fyrirlesturinn verði um kaffirækt eða pólitík. Sjáum til hvað gerist næst!
miðvikudagur, mars 30, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli