miðvikudagur, ágúst 24, 2005

Smá nöldur og Portland

Eitthvað gerast endurbætur á þessari bloggsíðu hægt. Ég er svo andlaus að ég hef ekki einu sinni haft nennu í mér til að setja inn link á flickr-síðuna mína með myndum úr sumarfríinu. Þetta er náttla alveg voðalegt.

Á morgun er dagurinn sem við öll hérna í Íþöku höfum beðið með öndina í hálsinum í allt sumar: Skólinn er að byrja. Undanfarna daga hefur bærinn fyllst af fólki; öndergraddarnir eru komnir aftur úr sumarfríinu og þeir nýju ráfa um bæinn með foreldra sína í eftirdragi, algjörlega týndir og þekkja hvorki haus né sporð á neinu. Þetta þýðir náttla fyrir okkur rótgrónu Íþökubúana að umferðin gengur hraðar en nokkru sinni, það er nóg af bílastæðum úti um allt og biðraðir hafa aldrei verið styttri. You catch my drift, I presume.

Sumarlokafríið okkar Shan var alveg með eindæmum vel heppnað. Flugvélin mín flaug svo nálægt Mt. Hood á leið inn til Portland að ég gat nánast séð múrmeldýrin njóta sólarlagsins hátt uppi í hlíðum fjallsins og weather.com hafði lofað mér sól og blíðu fram á sunnudag hið minnsta. Á laugardeginum keyrðum við sem leið lá meðfram Columbia-á til smábæjarnis Hood River, reyndum að birgja okkur af nauðsynjum fyrir útilegulífið (en gekk ekki vel, allt var uppselt!) og skröltum svo áleiðis að fjallinu. Eftir mikið japl, jaml og fuður og misgáfulegar ráðleggingar landvarða ákváðum við að reyna að fá pláss á Cloud Cap-tjaldstæðinu; það er í 6000 feta hæð og rétt við upphaf göngustígsins sem við ætluðum að ganga á daginn eftir. Þetta reyndist vera góð ákvörðun, það var nóg pláss, nógur tími og algjört overflød af náttúrufegurð.

Á laugardeginum komum við okkur snemma af stað og náðum upp í um 9000 feta hæð eftir 3ja tíma göngu. Þegar þangað var komið urðum við eiginlega að snúa við því hallinn undir fótum okkar var orðinn nokkuð mikill og við komin upp á gríðarlegan klaka-snjóskafl sem lá hálfa leiðina upp á topp, þar fyrir ofan voru bara þverhníptir klettar. Við vorum nokkuð ánægð með túrinn og sátum þarna í klukkutíma að maula nestið okkar og skoða eldfjöllin frægu í Washington-fylki (Mt. St. Helen's, Mt. Rainier, Mt. Adams) sem blöstu þarna við í öllu sínu veldi. Meðan á þessu útsýnisstoppi stóð háðum við þar að auki frækna baráttu við geitunga og býflugur sem virðast kunna bara vel við sig í 3000 metra hæð yfir sjávarmáli innan um grjót og drullu og ekki stingandi strá.

Á flugvellinum í Cincinnati, þar sem ég millilenti á leiðinni heim, keypti ég mér svo bók Jon Krakauers, Under the banner of heaven, til að forða mér frá sturlun af völdum leiðinda á síðasta spottanum heim (það verður eiginlega að taka það fram að við Shan flugum í sitthvoru lagi heim því við gátum ekki fengið tvo miða saman... annars hefði ég sko ekkert verið að sturlast úr leiðindum... það bara getur gerst ef eina lesefnið á margra klukkustunda langri flugferð er SkyMall...). Nú, það er skemmst frá því að segja að nú er ég hreinlega að sturlast af ógleði/viðbjóði... bðaaaa, meiri viðbjóðurinn sem fólk getur gert í nafni trúarinnar. Mæli eindregið með bókinni fyrir alla, konur og kalla (en ekki börn... allt of mikið af blóði og gori til þess).

Engin ummæli: