Trúi þeir sem trúa vilja, en ég er búin að vera á fótum síðan hálfsjö í morgun.
Hann Shan er neflilega að keppa í hjólreiðum í Binghamton þessa stundina og þurfti að leggja af stað klukkan sex. Þegar enginn var til að hlýja mér lengur þýddi lítið að liggja í bælinu svo ég skreið framúr og náði að lesa fyrstu 20 síðurnar í 70 síðna doðrants-grein um efnaveðrun á Íslandi yfir morgunmatnum. Datt svo ofan í NYT sunnudagsblaðið (eða blöðin, sendingin inniheldur jú aðalblaðið, ein 5 eða 6 fylgiblöð og tvenn tímarit) en náði að rífa mig upp úr því og byrja að vinna. Sem var jú tilgangurinn með því að fara svona óguðlega snemma á fætur á sunnudagsmorgni.
En Adam var ekki lengi í Paradís. Rakst neflilega á græna tímaritið sem ég fann á flugvellinum í Portland meðan ég beið eftir Shan - Plenty. Stóðst ekki mátið að kíkja aðeins í það og mundi þá að ég hafði ætlað að gerast áskrifandi. Þá varð ég náttla að fara á Netið og ganga frá áskriftinni. Þegar því var lokið var ekki verjandi að loka Netinu nema segja ykkur frá blaðinu. Alveg stórsniðugt og sýnir að maður þarf hvorki að vera mussuhippi né stórskrýtinn til að vera umhverfisvænn.
Held ég fari út í skóg á eftir að hlaupa smá. Ég hef bara farið einu sinni áður út í skóg að hlaupa og það var svo ótrúlega gaman að ég held ég verði að halda því áfram. Iss, eins og mér hefur alltaf fundist leiðinlegt að hlaupa. Slæ þarna hugsanlega tvær í einu; losna kannski bæði við óbeitina á trjám og hlaupum. Sjáum til hvað setur.
sunnudagur, ágúst 28, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli