Ég var að finna þetta í pósthólfinu mínu. Ef einhver ykkar er til í að taka með aukapott fyrir mig þá væri það vel þegið:
"Jafnrétti núna! Nú gefst kjörið tækifæri til að taka þátt í að skapa kvennasögu Íslands og láta til sín taka í baráttunni fyrir jafnrétti því hinn 24. október næstkomandi verður kvennafrídagurinn endurvakinn en þá eru liðin 30 ár frá kvennafríinu 1975.
Konur eru hvattar til að leggja niður störf klukkan 14:08 en þá hafa þær unnið fyrir launum sínum, ef litið er til munar á atvinnutekjum karla og kvenna sem eru 64,15% af launum karla. Samkvæmt þessu eru konur búnar að vinna fyrir sínum launum, eftir fimm tíma og átta mínútur (miðað er við vinnudag kl. 9-17).
Kröfuganga verður farin frá Skólavörðuholti, niður Skólavörðustíg og að Ingólfstorgi. Mæting á Skólavörðuholti kl. 15. Yfirskrift göngunnar er ,,Konur höfum hátt" og eru konur hvattar til að taka með sér eldhúsáhöld, svo sem potta og járnsleifar eða ásláttarhljóðfæri til að framkalla hávaða. Hugmyndin er sú að konur hafa verið hljóðar of lengi og nú er kominn tími til að við látum í okkur heyra og krefjumst jafnréttis núna! Til að kröfugangan verði litrík og áhrifamikil, er fólk eindregið hvatt til að mæta með kröfuspjöld, fána og hvaðeina. Á Ingólfstorgi verður baráttufundur kl. 16, þar sem haldnar verða stuttar barátturæður og flutt menningardagskrá.
Markmið kvennafrísins er það sama og fyrir 30 árum, að sýna fram á verðmæti vinnuframlags kvenna fyrir íslenskt efnahagslíf. Hvergi í heiminum er atvinnuþátttaka kvenna jafnmikil og hér á landi. Þau samtök sem eiga aðild að því að undirbúa viðburði til að minnast merkisviðburða í sögu íslenskra kvenna á þessu ári eru: Femínistafélag Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennakirkjan, Kvenréttindafélag Íslands, Kvennasögusafn Íslands, Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands, Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, Samtök um kvennaathvarf, Stígamót og UNIFEM á Íslandi. Kvennafundurinn á Þingvöllum 19. júní var afrakstur þessa samstarfs. Heildarsamtök launamanna koma einnig að undirbúningi kvennafrídagsins 24. október. Þau eru: ASÍ, BHM, BSRB og KÍ.
Femínistafélag Íslands"
mánudagur, október 03, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli