sunnudagur, júlí 10, 2005

Doppótta treyjan og rakaðir leggir

Ég get ekki að því gert en mér finnst eitthvað hálfskringilegt að Dani sé að rústa öllum brekkunum í Tour de France, meðan að kappar frá BNA, Ítalíu og hvað-þau-nú-heita löndin með fjöllunum fá ekki rönd við reist. Þeim sem gengur best í brekkunum einn daginn fá að vera í doppóttri treyju daginn eftir (og þar með vera ókrýndur stílkóngur keppninnar). Frakkarnir alltaf smart. Annars býr Daninn víst í Ítalíu skv. persónunjósnum mínum á CNN, svo það er kannski ekkert svo skrýtið.

Glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir að færsla um íþróttir birtist ekki oft hér á þessum bloggi. Undantekning er gerð fyrir Tour de France og þessa dönsku anómalíu.

Að auki steingleymdi ég að segja ykkur frá því þegar túrinn kom hingað til Nancy. Jamms, alltaf tekst mér að vera á réttum stað á réttum tíma og það þó ég ætli mér það ekki. Enda skiptir túrinn mig afar litlu máli persónulega. Flestir Kanar sem ég þekki eru hins vegar að tapa sér af æsingi (enda svo sem ekki skrýtið) og ég fékk fyrirskipanir um að gjöra svo vel að fara á vettvang og horfa á þegar kapparnir komu inn í Nancy og eiginhandaráritun frá Lance.

Þar sem ég þekki hvorki haus né sporð á Nancy endaði ég nú ekki við markið eins og planið var heldur eina 200 metra aftan við það. Það gerði ekki mikið til, ég sá ágætlega hangandi í stálrimlum fyrir glugga nokkrum. Kapparnir komu inn í mikilli kássu og það var ekki séns að koma auga á Lance í þvögunni. Sama hvað ég leitaði þá var það eina sem ég sá rakaðir leggir. Ég hef aldrei á ævinni séð annað eins samansafn af rökuðum karlmannaleggjum og ég segi það satt, ég get alveg lifað án þess að sjá svona lagað aftur. Náði nú samt að sjá Lance þegar hann var færður í gulu treyjuna og dreif mig svo í burtu. Hef ekki enn náð mér almennilega og gleðst innilega í hvert sinn sem ég sé órakaðar kallalappir koma undan stuttbuxunum.

Engin ummæli: