mánudagur, október 20, 2003

Stiklur

Nú verð ég að bregða mér í gervi Ómars kallsins og stikla á stóru yfir undangengna "stórviðburði" svo ykkur fari nú ekki að leiðast þófið og hættið að kíkja á síðuna mína.

Akkúrat núna er mér efst í huga próf sem ég er að fara í á þriðjudaginn, enda er ég búin að neita mér um þrjár bíóferðir þess vegna og vera iðin sem því nemur við lestur. Eða þannig. Ég á ekki von á að þessar þrjár bíóferða-afneitanir skili sér í stjarnfræðilegum einkunnum, en þær verða vonandi til þess að ég nái prófinu með aðeins meiri sæmd en að slefa. Ég er rétt að byrja að sjá samhengið í hlutunum en ekkert mikið meira en það; ég finn samt að aukinn skilningur er rétt handan við hornið. Æi, það er alltaf svo gaman þegar maður loks skilur eitthvað, mómentið þegar vitrunin kemur er algjörlega gulls ígildi :) Vonandi að hún komi á morgun... þetta er nú meira syndrómið í mér, að draga alltaf lestur og undirbúning fram á síðustu mínútu. Verð að fara að venja mig af þessu.

Hélt fyrirlestur og slædssjóv fyrir Hlynskóga-samfélagið (þetta hljómar eins og ég búi á e-u sambýli... sem ég náttla geri í vissum skilningi, verður maður ekki eitthvað skrýtinn af langskólanámi??) á föstudaginn, það gekk bara svakalega vel. Ég týndi fram smá sýnishorn af myndasafninu mínu og blaðraði eitthvað með um Íslendinga fyrr og nú, eldgos, virkjanir og önnur tröll sem dagað hefur uppi, og notaði flugkortið frá Landmælingum (sem ég fékk lánað hjá honum Helga sem var að byrja hér í doktor eins og ég) til að fljúga með viðstadda á þá staði sem við vorum að fræðast um. Eða, til að gefa viðeigandi kredit eins og tíðkast í akademíunni, þá sá Helgi sjálfur um að fljúga með okkur, var nk. einkapílót samkundunnar. Mér fannst alveg hrikalega gaman að standa þarna og blaðra og hefði alveg getað eytt kveldinu í þetta, en það var búið að lofa skrílnum "Myrkradansaranum" með henni Björku (sem var endurskírð Bjorn á flæernum *tíhí*) svo ég varð að hemja málæðið. Mér til ótamdrar ánægju og jafnmikillar furðu h.u.b. tæmdist salurinn þegar ég var búin, það segir mér það eitt að ég hafi trekkt betur en Björk!! Eða kannski var það ókeypis pizzan... nei, höfum það frekar hinsegin, betra fyrir egóið ;)

Svo gerði leiðbeinandinn minn sér lítið fyrir og skrapp til Íþöku um helgina og gaf sér tíma til að hitta okkur nýju stúdentana sína. Ég rakst á hann í mýflugumynd á föstudeginum, bara svona til að taka í höndina á honum og segja hóvdjúdú??, en á laugardagsmorgninum hittumst við svona formlega til að spjalla. Þetta er mikill indælismaður, alveg bráðskemmtilegur og það sem mestu máli skiptir, a) með heilan helling af spennandi rannsóknahugmyndum sem mig alveg klæjar í puttana að fara að vinna að og b) finnst að fólk eigi að fá bæði jóla- og sumarfrí (ekki sjálfgefið í Amríggu). Hann talar mjög mikið og við Chris, hinn nýi stúdentinn hans, vorum bæði orðin dehýdreruð, vannærð og komin með sigg á rasskinnarnar þegar spjallinu lauk, næstum fimm klukkutímum eftir að það byrjaði!!!

Sem sagt, allt í furðanlega góðu ástandi miðað við aldur minn og fyrri störf. Nú bíð ég bara hentugs tækifæris til að slökkva á heilanum eins og eitt kveld og glugga í bókina sem ég fann niðri í íslenska kjallaranum hér; "Í biðsal hjónabandsins". Ha???

Engin ummæli: