sunnudagur, febrúar 29, 2004

Góða helgi, gott fólk!

Mikið er þetta búin að vera ánægjuleg helgi. Alveg frá föstudegi fram á daginn í dag!

Á föstudaginn gerði ég vini mínum honum Greg smá greiða. Þannig er að á föstudögum er alltaf semínar hér þar sem einhver virtur jarðvísindamaður (eða -kona, þó svo ég muni ekki eftir að neinni konu hafi verið boðið hingað í minni tíð, ussfuss) frá öðrum háskóla eða stofnun heldur fyrirlestur fyrir deildina og talar við prófessora og nemendur sem hafa sérstakan áhuga á þeirra rannsóknum. Í þetta sinn kom hingað kornungur prófessor sem er sérfræðingur í landmótunarfræðum og tektóník (jarðskorpuhreyfingum). Ef svo óheppilega vill til að dagurinn hjá gestafyrirlesaranum er ekki fullskipaður viðtölum og umræðum er töluverð hætta á að viðkomandi verði voðalega foj og móðgaður, svo gestgjafanum er mikið í mun að fylla prógrammið hjá gestinum. Einmitt þess vegna féllst ég á að taka eitt viðtalsbil hjá þessum prófessor; Greg var ábyrgur fyrir heimsókninni og grátbað mig að gera sér þennan greiða. Ég hef ekki mikið vit á því sem þessi náungi er að gera svo ég prentaði út grein eftir hann af Netinu og reyndi að undirbúa mig fyrir ósköpin á þann hátt.

Nú, svo rann viðtalið upp og ég var alveg úti að hjóla, gat mest lítið spurt hann út í hans eigin rannsóknir en klóraði í bakkann með því að spyrja heil lifandis ósköp út í Himalayafjöllin, þar sem hann hefur unnið mikið og þar sem ég verð að öllum líkindum að vinna. Þegar viðtalið var sirka hálfnað kom svo prófessorinn sem kennir kúrsinn um flæði vökva í skorpunni aðvífandi, ég greip tækifærið og innvolveraði hann í samræður um líkan af hitaflæði í Himalaya sem ég er að spá í að gera í kúrsinum og voilá, allt í einu var skollinn á brjálaður þrí-heilastormur og ég lærði alveg helling. Fór sem sagt miklu betur en á horfðist!

Um kvöldið var svo Banff Mountain Film Festival hér á kampus. Þar sem útivistarklúbburinn var einn af skipuleggjendum hátíðarinnar hér í Íþöku hjálpaði ég til við að vísa fólki til sætis, taka miða og deila út prógrömmum. Einhverra hluta vegna hef ég aldrei séð þetta áður þótt hátíðin hafi komið heim á Frón nokkrum sinnum og mikið hlýt ég að hafa misst af miklu! Það var brjáluð stemning í salnum, fólk blístraði og klappaði og allir skemmtu sér hið besta yfir misbrjálæðislegum uppátækjum sem sýnd voru. Persónulega fannst mér mest koma til síðustu myndarinnar (sem tilheyrði ekki alvöru Banff-hátíðinni), hún var gerð af 8 eða 10 íþökskum unglingsstrákum sem fengu innblástur frá hátíðinni í fyrra og bjuggu til sína eigin skíða- og snjóbrettamynd. Ekkert smá gaman að svona framtakssömu fólki!

Í gær skrönglaðist ég svo á fætur á þeim ókristilega tíma hálfsex. Það mátti ekki seinna vera því tveggja tíma akstur eftir skutl hingað og þangað um Íþöku til að ná í fólk og græjur skilaði okkur að Laxárgljúfrum rétt um hálfníu-leytið, og þá þegar var sólin farin að bræða efstu hluta ísfossanna sem við ætluðum að klifra. Við vorum fimm á ferð og náðum að klifra tvær leiðir áður en næsti skammtur af klifrurum kom í gljúfrið. Þetta er nokkuð stórt klifursvæði, einar 20 leiðir hafa verið settar upp (klifraðar) og meðan hin þrjú reyndu við lengstu og hæstu leiðina í gljúfrinu fórum við Simeon og opnuðum tvær nýjar leiðir (i.e. klifruðum leiðir sem ekki er vitað til að hafi verið klifraðar áður). Þessi merkilega frammistaða ætti að koma okkur alla leið á spjöld sögunnar, þ.e. í leiðarvísi yfir leiðir þarna. Þeir/þær sem fyrst klifra leið fá að nefna hana; fyrri leiðina nefndi ég Lax og þá seinni nefndum við Sashimi (minnir það, það var a.m.k. eitthvað með sushi). Sú var nú eiginlega eins og sturta efst, svo við vorum alveg holdvot þegar upp var komið. Minnti mig á klifur með honum Steina heima fyrir mörgum árum, þegar við fórum í Búhamra (held þeir heiti það) í Esjunni og klifruðum upp langan og aflíðandi foss sem bráðnaði hratt undan okkur á leiðinni upp. Soldið sjeikí það. Leiðin í gær var nú miklu öruggari, en ég var orðin ansi þreytt undir lokin og líður núna eins og einhver hafi lamið mig með lurkum í allan gærdag!

Matarboðið sem hann Jason hafði lofað okkur Ara í Adirondacks-ferðinni okkar varð svo loks að veruleika í gærkveldi, við þrjú vorum náttúrulega viðstödd og Simeon að auki, svo eftir matinn bættust einhverjir fleiri við. Það er ekkert smá sem hann Jason er góður kokkur! Lambalæri, ofnbakaðar kartöflur í rjómabaði (sem ég gerði að svalbarðskri fyrirmynd) og ferskur aspas með karrísmjöri var á matseðlinum, namminamm!

Svo er bara að vona að sunnudagurinn standist forverum sínum tveimur snúning.

Engin ummæli: