fimmtudagur, desember 30, 2004

Áramótaheitið:

Ekki draga aðra niður í svaðið svo ég geti haft það örlítið betra.

Eftir því sem kaffiáhuginn vex og ég verð fanatískari á þeim frontinum þá finn ég meira og meira skemmtilegt um kaffi á Netinu. Inn á milli er svo annað minna skemmtilegt. Sem langtímaáhugamanneskja um óréttlæti heimsins finn ég mig knúna til að benda ykkur á þetta: Útdrátt úr skýrslu fjölþjóðlegu hjálparsamtakanna Oxfam um kreppu kaffiræktenda í fátækustu löndum heims. Ég sé enga ástæðu til að efast um að það sem þarna kemur fram sé rétt enda hef ég séð sambærilega hluti í öðrum fátækum löndum.

Auðvitað er hrikalegt þegar kaffið í Bónus heldur áfram að hækka í verði og auðvitað er líka hræðilegt að allar nýlenduvörurnar, sem svo voru kallaðar þegar ég var að koma í heiminn, séu að verða svona óguðlega dýrar að við, sem erum á leið í skíðaferð til Alpanna næsta vor, höfum bara varla efni á að kaupa þær lengur. Það er hins vegar enn hræðilegra að fólk í Kólombíu, Indlandi og Nýju Gíneu sem kemst ekki í skóla og veit líklega tæpast að Alparnir séu til, þurfi að selja afurðir sínar undir kostnaðarverði því við tímum ekki að borga þeim sanngjarnt verð. Samkeppnin er buddunni okkar kannski í hag en þegar grannt er skoðað kemur jú í ljós að bændurnir í Indónesíu og þeirra líkar um allan heim eru að borga fyrir skíðaferðirnar okkar. Hvernig getur það verið okkur sjálfum í hag?

Að gera þennan heim að örlítið réttlátari stað er alveg eins mikið á þína ábyrgð og það er á ábyrgð Davíðs og Bush. Við erum löngu búin að sjá að þeir munu aldrei gera neitt í málinu svo við verðum að axla þessa ábyrgð sjálf. Eyddu nokkrum krónum auka, eins oft og þú getur, í að kaupa vörur sem þú veist að skaða engan og neyða engan til að leggjast í duftið svo þú komist til Alpanna. Það er auðvelt fyrir okkur og getur skipt öllu máli fyrir þá sem minnst eiga.

Engin ummæli: