laugardagur, desember 25, 2004

Svona eru jólin

þegar haldið er upp á þau í vinahópi í NYC:

Mætti til Manhattan í rútunni á Þorláksmessukvöldi. Haugarigning og rok sáu til þess að meira og minna jarða alla jólastemmingu og gaurinn aftast í rútunni, með nælonsokkabuxur á hausnum, var svo sannarlega ekki í hátíðarskapi. Hann stóð upp um leið og rútan lenti og öskraði á alla motherf***ing fávitana í rútunni að motherf***ing drullast út úr motherf***ing rútunni á motherf***ing nóinu, hann væri búinn að sitja á motherf***ing rassgatinu í 6 motherf***ing tíma... o.s. motherf***ing frv.... já, alveg sérstaklega motherf***ing heillandi ungur maður.

Hjá Ernu og Mödda var aðeins meira afslappelsi í gangi og við sváfum langt fram á aðfangadagsmorgun. Eftir bæjarrölt og smá innkaup og naggrísaaðhlynningu (fyrir vinkonu Ernu) tók við eldamennska sem í mínu tilfelli fólst í að læra að gera uppstúf (með jólahangiketinu sem var annar aðalrétturinn fyrir sitt óneitanlega curiosity value), smakka kalkúnakryddið og "leiðbeina" Ernu með brúnuðu kartöflurnar (sko, þær eru aðeins brúnari hjá mömmu...). Meðan á þessu stóð komu hinir gestirnir og rétt upp úr sex vorum við öll sest að borðum. Nokkuð vel af sér vikið, oder was?? Máltíðin stóð, með hléum til smá gjafaopnana og skemmtiatriða, til að verða sjö í morgun (enn betur af sér vikið) og núna er það bara bælið sem bíður. Pakkarnir frá fjölskyldunum heima verða opnaðir "í fyrramálið", hlakka til!! Ég vona að þið hafið öll haft það gott í gær og að jóladagurinn verði góður.

Engin ummæli: