Jólin hafa bara verið ágæt. Alltaf gaman að þeim.
Margir fórna höndum yfir óförum mínum og dæsa yfir þessari tímasetningu minni; að ég hefði nú varla getað fundið verri tíma til að brjóta mig á. Ég er þessu alfarið ósammála, svona að fenginni reynslu. Í fyrsta lagi: Fólk er í jólafríi og því þarf ég ekki að fá óhóflegt samviskubit yfir að biðja ættingja að skutla mér hingað og þangað, koma að sækja mig í boðin og jafnvel kaupa með mér í matinn. Í öðru lagi eru jólaboð til hægri og vinstri, þar næ ég að hitta velflesta ættingjana og einnig vini og fæ því miklar samúðarbylgjur alls staðar að, í miklu meira magni en ella. Í þriðja lagi get ég sofið fram undir hádegi og setið uppi í sófa restina af deginum, hálfdottandi með maltesín, súkkulaði og bók í fanginu, og borið fyrir mig einhverju öðru en leti og skammdegi. Ynndælt.
Annars er það helst að frétta, fyrir utan útgöngubann í Betlehem og fleiri skemmtilegheit, að ég er komin í göngugips úr plasti sem er svo hart að ég gæti rotað naut með því (hvað eru hjúkkurnar uppi á endurkomu að bauka í frítímanum??) og verð í því fram í lok janúar. Það er aðeins minna um sig en þrýstiumbúðirnar sem ég var í, svo nú eygi ég von um að komast í önnur föt en víðustu buxurnar mínar og pils. Að auki sjást táslurnar mínar betur núna, svo ég get fylgst betur með því hvernig marið þróast. Í fyrradag voru tærnar blásvartar, í gær meira út í fjólublátt og núna er komin svoldil gulgræn slikja yfir herlegheitin. Hver þarf sjónvarp þegar tær sem skipta litum bjóðast, og engin hætta á að fá fúla innheimtumenn óvelkomna í heimsókn?
föstudagur, desember 27, 2002
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli