Svei mér þá alla daga, ef ég er ekki einn misskildasti snillingur sögunnar.
Ég var að þrífa loftbitana inni í eldhúsi í gær, til að koma blauta þvottinum mínum einhvers staðar fyrir. Það gekk vel, drullan fauk af í flyksum, og þar kom að ég ákvað að skoða nú hvað þetta væri fínt hjá mér. Stíg ég því upp á koll og ætla að teygja mig upp í þær hæðir að ég geti séð dýrðina. Ó vei, kollurinn minn er ekki byggður eftir sænskum gæðastöðlum, er þ.a.l. valtur eins og sauðdrukkinn Íslendingur og valt að sjálfsögðu undan mér. Ég lenti með hávaða og látum og einhverjum ópum á gólfinu, eftir að hafa rekið hægri fótinn alltof fast í setuna á stólnum sem stóð þarna við hliðina á. Þetta var svoldið vont, og þegar ég fór úr sokkunum sá ég að ristin á mér var afmynduð í meira lagi.
Umsvifalaust hringdi ég í björgunarsveitina, aka pabba og Siggu. Þau komu sem hendi væri veifað og transporteruðu mig upp á slysó. Þar beið ég með sífellt stærri rist og varð m.a. vitni að dópista læsa sig inni á klósetti og vera svo fjarlægður í lögreglufylgd þar sem hann reyndist vera vopnaður. Aksjón á slysó! Loks kom að mér, og eftir röntgen var það orðið deginum ljósara að fyrsta beinbrot mitt var í höfn. Ysta ristarbeinið tvíbrotið og næsta f. innan brotið á einum stað. Jibbí!!
Ég verð að segja að mér finnst þetta bráðfyndið. Í fyrsta lagi á ég eftir að kaupa svo að segja allar jólagjafirnar. Í öðru lagi var ég í þröngu gallabuxunum mínum og gat valið á milli þess að vera í þeim og láta klippa þær í sundur eða fá lánaðar gammosíur frá Þvottahúsi spítalanna, ætlaðar eldri korpúlent herrum sem í einstaka tilfellum þyrftu kannski að hafa bleyju sér til halds og trausts. Mér þykir vænt um Levi´s buxurnar mínar og þáði herramúnderinguna, tjúllað smart. Nú, í þriðja lagi á ég enn eftir að vinna smá feltvinnu í Helgafellinu og bið og vona að rúllustiginn upp fjallið verði tilbúinn áður en það fer að snjóa.
mánudagur, desember 23, 2002
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli