Ég er nú meiri blogg-auminginn, svei mér þá. Enda margt annað að gera en að blogga þegar maður er að undirbúa flutning milli heimsálfa.
Hlakka alveg svaka til. Er að leita að stórum ferðatöskum og vinn jafnóðum að því að tæma allar kremtúpur á heimilinu og éta upp allan afgangsmat (það býður upp á ýmsar misgirnilegar samsetningar eins og t.d. haframjöl með kakómalti og mjólk í morgunmat og hvítlauksbrauð með osti og marmelaði í hádeginu...), klára blessaða helv. greinina mína og hnýta lausa enda hér og þar, selja húsgögnin (ehemm, húsgagnið, er ekki stóreignamanneskja á innbúsfrontinum) o.s.frv. Það er, þetta stendur allt til. Enn eru jú alveg heilir 9 dagar þar til ég flyt af landi brott og engin ástæða til að fara sér að neinu óðslega. Svo er jafnvel á dagskránni að skjótast inn í Veiðivötn í skottúr í vikunni og fara í lögboðna pílagrímsför inn að Kárahnjúkum og mótmæla. Sem sagt, nógur tími til stefnu og ekki farið að örla á minnsta votti af stressi...
laugardagur, ágúst 09, 2003
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli