miðvikudagur, september 14, 2005

In memoriam

Nú er ég að verða búin með hann Eirík. Eiríkur var stríðsfákur mikill, ekinn tæpar 170 þúsund mílur og orðinn nokkuð aldurhniginn, þ.e. 18 ára gamall. Til að halda kappanum á götunni þurfti að leggja í viðgerðir upp á eina 900 dollara og reyndist það samdóma álit álitsbærra manna að ekki borgaði sig að leggja út í slíka fjárfestingu. Var kappanum því ekið nú í eftirmiðdaginn á partasölu í bænum sem keypti garminn af mér. Þar voru númeraplöturnar teknar af og mér heitið því að ekki yrði þessi elska nú tekin í sundur heldur yrði hann settur beint undir pressuna miklu. Blessaður kallinn.

Það er nú ekki alveg við hæfi að segja frá þessu en ég stórgræddi á þessum viðskiptum. Sjáiði til, ég fékk 18 dollara fyrir bílinn. Það hljómar nú ekki mikið, en ég keypti hann á einn dal og þannig græddi ég 17-falda kaupupphæðina! Eins og gefur að skilja bauð ég honum Shan mínum (sem var aðstoðarbílstjóri og almenn moralsk støtte á þessari erfiðu ferð) að koma í erfisdrykkju á kostnað hins látna. Splæst var í beyglur og allt sem við á að eta og nú sit ég hér við skrifborðið mitt og sporðrenni síðustu bitunum. Takk fyrir mig, Eiríkur!

Engin ummæli: