mánudagur, janúar 26, 2004

Úr tjaldinu

Eins og áður segir var brjálæðislega kalt um helgina og ekki hlýrra í tjaldinu okkar, þar sem við þrjú lágum frekar eymdarleg í pokunum okkar og reyndum að vekja ekki hina með tannaglamri. Það var nú reyndar vitað mál að það yrði kalt þessa helgi og þeir sem spurðu hvað væri á dagskránni hjá mér um helgina urðu vægast sagt hissa þegar ég sagði þeim hvað stæði til. Ferðafélagar mínir tveir ítrekuðu oft og mörgum sinnum við mig hvað það yrði nú svaka kalt og því varð ég svolítið hissa þegar ég sá að ég var sú sem hafði mesta reynslu af að fást við svona veður (kannski ekki skrýtið þegar á það er litið að ég hef unnið í svalbörðskum vetri mánuðum saman?) og var best búin til að lifa af og hafa það sæmilega notalegt í -35°C.

Fyrir mína parta hófst ferðin strax á fimmtudeginum, þegar ég sprangaði eldsnemma niður í skóla með allt dótið. Eftir ráðstefnuna hitti ég neflilega strákana í klúbbhúsinu, við fórum í gegnum útbúnaðinn okkar og fundum til það dót sem upp á vantaði. Það er ekkert smá af dóti sem klúbburinn á og sem meðlimir geta notað í klúbbferðum, t.d. fengum við lánaða svefnpoka, tjald, prímusa, eldsneytisflöskur og potta, snjóþrúgur og áttavita og guð veit hvað meira; ef fólk vill kajaka er allt til til þess og eins til að fara á skíði eða í ísklifur eða hellasig eða bara gamaldags útilegu mð? A-tjald og exi til að höggva við í eldinn. Draumaland fátæks útivistarfólks :)

Eftir þessar tilfæringar var eftir litlu að bíða og við lögðum í'ann snemma á föstudagseftirmiðdaginn. Einhvern veginn tóku hlutirnir sinn tíma og við komum inn í Keene Valley um 10-leytið um kveldið. Það var alveg stafalogn í fjöllunum og nístandi kuldi, svo mikill að áður en við byrjuðum að ganga var búið að kasta fram þeirri hugmynd að það væri nú allt í fínasta að snúa við áður en tindinum á fjallinu okkar væri náð og bara bruna á næsta hótel strax næsta kvöld. Ákveðnin alveg að drepa viðstadda!

Nú, gangan inn að tjaldstæði gekk vel og snjóþrúgurnar fengu að hanga óáreittar á pokunum okkar því stígurinn var vel troðinn af fyrri göngufólki. Stjörnuhimininn lýsti yfir okkur og í fjarska heyrðum við vindinn næða um tindana, stöku sinnum tók hann dýfu og stakk sér ofan í dalinn og hristi snjóinn af greinum trjánna umhverfis okkur. Við gengum hratt og stoppuðum sama og ekkert og komum að tjaldstæðinu eftir tveggja og hálfs tíma göngu. Það gekk hratt fyrir sig að tjalda, sem betur fer höfðum við prófað að setja tjaldið upp inni í klúbbhúsi því það gerði okkur alveg snarrugluð og hélt okkur uppteknum í a.m.k. hálftíma, áuur en við föttuðum hvernig átti að fá það til að standa upp. Þrjár háskólamenntaðar manneskjur og eitt tjald, það er eitthvað bogið við þetta :)

Morguninn eftir vöknuðum við um kl. 8 og fannst mér það mjög miður, enda var ég í fyrsta lagi tiltölulega nýsofnuð og í öðru lagi er ég svona almennt séð alveg sérstaklega lítið hrifin af að vakna svona snemma. Í ljós kom, þegar við þrír "survivors-arnir" fórum að bera saman bækur okkar, að ekkert okkar hafði sofið vel um nóttina fyrir kulda. Kannski á maður ekki að búast við öðru þegar svefnpokarnir eru gerðir fyrir -20?C og kuldinn úti fer niður í ca. -35°C. Að auki var tjaldið stórt (hlýrra í litlu tjaldi) og við höfðum ekki verið nógu sniðug að fara úr öllum svitablautum fötum. Ok, verð að segja það sjálfri mér til málsbóta að einhvern tímann um nóttina fór ég úr sokkunum mínum og stakk þeim (táslunum) oní ullarsokka og vafði dúnúlpunni minni utan um, og viti menn, þegar ég vaknaði var mér raunverulega hlýtt! Verst að strákarnir áttuðu sig ekki á þessu og voru því frekar framlágir. Annar þeirra, hann Jason, sýndi væg einkenni fyrsta stigs kals á tveimur tám og fékk að hlýja þeim innan undir flísjakkanum mínum meðan ég sauð vatn handa okkur úti. Það er ekki hægt að láta manninn missa tær, eða hvað??

Eftir langan undirbúning komum við okkur loks af stað, enn í dásamlegu veðri með stafalogn og sólskin. Gangan sóttist vel lengst af; fyrst gengum við yfir tiltölulega breiðan dal og svo upp skógivaxna fjallshlíð sem varð brattari og brattari eftir því sem við nálguðumst skarðið milli Saddleback (Söðuls??) og Gothics, fjallsins sem við ætluðum upp á. Þegar þarna var komið sögu vorum við öll orðin þyrst og svöng og strákarnir kvörtuðu mikið undan kulda. Öðru hvoru stoppuðum við til að drekka en uppástungu um matarpásu var ekki vel tekið. Að auki var eitthvað um að gömul meiðsli væru að hrjá menn og því var ákveðið að fara ekki ofar en í lítið rjóður í hlíðum Gothics rétt ofan við skarðið góða, taka myndir og snúa svo við. Mér fannst þetta nú svoldið blóðugt enda ekki nema tæpir 100 metrar eftir á toppinn. Útsýnið þarna uppi var nú samt reglulega flott, lítil fjallavötn í fjarska og skógiklædd fjöll eins langt og augað eygir.

Við nánast hlupum til baka að tjaldinu og pökkuðum í snatri áður en myrkrið skall á. Þegar á bílastæðið kom var akkúrat kominn kvöldmatartími og við skelltum okkur til Lake Placid, bæjar ca. 20 mínútna akstur í burtu sem hefur tvisvar verið gestgjafi vetrarólympíuleika. Þar átum við pizzu hjá Mr. Martin og ég varð umsvifalaust ástfangin af bænum og ákvað að þangað yrði ég að fara aftur og aftur og aftur og ... Við yfirgáfum Lake Placid seint um kvöldið og þegar ég vaknaði um miðnætti úr aftursætisrotinu mínu vorum við komin hálfa leið til baka til Íþöku.

Á heildina litið var þetta sem sagt hin besta ferð. Það má alltaf læra eitthvað af svona ferðum og ég held að það sem ég hafi helst lært af þessari sé að þó ég sé enginn sérfræðingur þá kunni ég samt meira en nóg um ferðamennsku á vetrum til að taka að mér að mennta fólkið í klúbbnum í "kuldafræðum". Þess vegna ættuð þið ekki að vera hissa þó þið lesið einhvern tímann hér um kuldakvöldið mitt niðri í klúbbhúsi.

Þetta er orðið allt of langt. Skrifa um skólann og labbvinnu síðar :) Takk fyrir lesturinn!

Engin ummæli: