fimmtudagur, janúar 22, 2004

Symposium

Í dag var sjöunda árlega nemendaráðstefna EAS hér við Cornell og þrettán framhaldsnemar tóku til máls og sögðu frá rannsóknum sínum. Ég lét mig að sjálfsögðu ekki vanta og auk þess að vera í undirbúningsnefndinni hélt ég minn alfyrsta "alvöru" fyrirlestur fyrir "alvöru" vísindafólk. Tími kominn til :)

Helgafell var umræðuefnið enda er ég ekki búin að gera neinar rannsóknir enn hér úti (leiðbeinandinn minn er loks kominn heim frá Fransí og Hawaii svo nú verður bara labbvinnan tekin með trukki). Svo hafa þessir eyðimerkurjarðfræðingar hér nú bara gott af að fá smá intró í jökla og gos undir þeim. Þörfin virðist hafa verið orðin nokkur, því eftir fyrirlesturinn fékk ég merkilega margar spurningar úr salnum, flest allt spurningar sem maður myndi seint heyra frá íslenskum jarðfræðingum. Flestir áttu í mestu erfiðleikum með að ímynda sér ðí sínaríó, kannski við sjóuðu íslensku jarðfræðingarnir séum bara búin að venjast því að gos undir jökli er einfaldlega ekki eitthvað sem maður gerir sér í hugarlund svo auðveldlega og erum þ.a.l. hætt að reyna? Hinar spurningarnar, þær sem maður myndi seint heyra varpað fram á ráðstefnu á Loftleiðum, voru nokkuð athyglisverðar. Glöggt er gests augað.

Helsti lærdómur dagsins fyrir mig er sá að það er gaman að tala á ráðstefnum. Mér hefur alltaf fundist það mjög skelfileg tilhugsun. Tilhugsunin um að tala frammi fyrir svona mörgum er ekki svo slæm, enda á ég nú að vera vön því, heldur að tala við svona klárt fólk og þar með ljóstra upp um meinta fávisku mína, í stað þess að tala við pakka af túristum sem taka öllum fróðleiksmolum sem af borðum manns hrjóta með mestu þökkum. Skemmst frá því að segja að það er alveg jafngaman ef ekki bara miklu skemmtilegra að tala við svona marga klára :)

Allt komið í pokann fyrir fjallaferðina um helgina. Tjaldið sem við fundum niðrí klúbbhúsi er RISAstórt og allavega nógu stórt fyrir okkur þrjú sem förum. Skemmtilegur þessi klúbbur að því leyti að allar "stéttir" innan háskólans mætast þarna á miðri; í ferðinni okkar um helgina verða fulltrúar þeirra helstu: Undergrad nemi, framhaldsnemi (moi) og kennari. Það á að vera svakakalt og heiðskírt og ferðinni er heitið hingað. Íha!

Engin ummæli: