1. Fjallasýnin á Möðrudal eins og hún blasti við úr kaffistofunni bak við afgreiðsluborðið í Fjallakaffi. Bragakaffi á köflóttum Thermos-brúsa og kleinur, gestabókin eins og beinakerlingar fyrri alda á borðinu. Ómetanlegt afdrep leiðsögukonu og bílstjóra til að fylgjast með ferðum starfsbræðra og -systra.
2. Útsýnið til austurs af hábungu Pettermann-jökulsins á Svalbarða á heiðskírum sólbjörtum degi í mars. Næst okkur er púðursnjór á jöklinum, svo djúpur að það er eins og að keyra ofan í skurði, aðeins fjær hverfur jökullinn fram af sjálfum sér ofan í sjóinn í háum ísklettum, svo tekur við hafísinn nánast eins langt og augað eygir uns Barentseyja rís snævi þakin upp úr jakahrönninni handan Storfjorden. Yfir öllu vakir fullt tungl og nálægðin við eilífðina úti í geimnum er algjör.
3. Eldhúsið í gamla kvennaskólanum sem nú hýsir kaffihús og minjagripaverslun að Glaumbæ í Skagafirði. Í þessu eldhúsi fengum við leiðsögukonur og bílstjórarnir alltaf kaffi og með því, uppvörtuð af madömmulegum konum í gamaldags kjólum og með bryddaðar svuntur. Á snúrum yfir borðinu héngu ullarvettlingar og leistar eins og til þerris.
4. Sænautasel. Kom þangað bara einu sinni, en fannst ég vera meira "á Íslandi" en nokkru sinni fyrr eða síðar. Nema kannski þá helst þegar ég stóð við lónið í Grímsvötnum snemmsumars í fyrra. Lífsbaráttan í hnotskurn.
laugardagur, september 04, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli