fimmtudagur, júlí 28, 2005

Kvart og kvein og smá bjartsýni í lokin

Það er eins með blogg og bænirnar*, maður bloggar bara þegar eitthvað bjátar á.

Jónaskiljan er að gera mig gráhærða. Ég held að ég hafi eytt meiri tíma með þessari maskínu en allir hinir nemarnir á labbinu til samans. Alltaf þegar ég tel mig vera búna að komast að rótum vandans (leki, óhreinindi etc.) þá skal eitthvað nýtt koma upp. Ef ég næ að klára að greina Hawaii-sýnin mín fyrir áramót tel ég mig góða.

Svo er það kísilgreiningin. Sull með alls konar vibbaleg efni og skeiðklukku til að vera með tímasetninguna á hreinu. Bíða svo í 12-24 tíma, greina svo. Og hvað gerðist?? Allt í hassi og ekki heil brú í niðurstöðunum þegar ég fór og greindi 22ja tíma gömlu blöndurnar mínar. Það þýðir aðrir 2 tímar í undirbúning og svo reyna aftur að greina, á morgun. Jibbí kóla. Heit ðiss.

Vonandi að helgin nái e-u af fýlunni úr mér. Við skötuhjúin ætlum að skella okkur í ofurbíltúr út á Þorskhöfða í Massachusetts og þaðan með bát til Nantucket-eyju. Það ku vera agalega fallegt þarna. Tilefnið er að vinur Shans, Erik, á hlut í húsi á eyjunni og við fáum að vera þar frítt. So far erum það við tvö, Erik og svo mamma hans sem ætlum að eyða helginni þarna. Gæti orðið gaman.

* = hér verð ég eiginlega að taka fram að ég gekk af trúnni fyrir langa löngu og hef ekki farið með bænir síðan ég komst til vits og ára.

mánudagur, júlí 25, 2005

Kotasæla

Liðin helgi var mikil kotasæla. Heit og sveitt kotasæla, ekki síst af veðurfarsástæðum. Sumarið í Íþöku er ótrúlega heitt og ótrúlega sveitt. Farmers market og íste með myntubragði standa á svoleiðis dögum algjörlega fyrir sínu.

laugardagur, júlí 23, 2005

Ekki meira svona, takk.

Æi, hvað þetta er ótrúlega ömurlegt. Mikið ætla ég að vona að mennirnir sem gerðu þetta verði ekki bara reknir heldur líka leiddir fyrir rétt. Það er heldur óspennandi framtíð að fólk sem er kannski bara að pukrast með hassmola í öndergrándinu fari að vera skotið úr návígi.
You scored as Albus Dumbledore. Strong and powerful you admirably defend your world and your charges against those who would seek to harm them. However sometimes you can fail to do what you must because you care too much to cause suffering.

Albus Dumbledore

90%

Hermione Granger

80%

Draco Malfoy

65%

Ron Weasley

65%

Sirius Black

60%

Remus Lupin

55%

Severus Snape

50%

Ginny Weasley

40%

Harry Potter

40%

Lord Voldemort

35%

Your Harry Potter Alter Ego Is...?
created with QuizFarm.com

þriðjudagur, júlí 19, 2005

Þotuþreyta (og önnur)

Þá er sumarfríinu þetta árið bara lokið og við komin aftur heim til Íþöku eftir mikið fjör og sprell á Ísalandi. Sólin skein í heiði í þrjá daga samfleytt meðan Laugavegurinn var genginn, svo rigndi eins og hellt væri úr fötu, Ölstofan stóð fyrir sínu og að auki fengum við heil ótrúleg ósköp af edilonsfínum mat að borða. Ógissla gaman allt saman. Er bara svolítið þreytt í dag enda komum við ekki til Íþöku fyrr en um 5-leytið að morgni að íslenskum tíma. Segi bara takk fyrir okkur!!

sunnudagur, júlí 10, 2005

Doppótta treyjan og rakaðir leggir

Ég get ekki að því gert en mér finnst eitthvað hálfskringilegt að Dani sé að rústa öllum brekkunum í Tour de France, meðan að kappar frá BNA, Ítalíu og hvað-þau-nú-heita löndin með fjöllunum fá ekki rönd við reist. Þeim sem gengur best í brekkunum einn daginn fá að vera í doppóttri treyju daginn eftir (og þar með vera ókrýndur stílkóngur keppninnar). Frakkarnir alltaf smart. Annars býr Daninn víst í Ítalíu skv. persónunjósnum mínum á CNN, svo það er kannski ekkert svo skrýtið.

Glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir að færsla um íþróttir birtist ekki oft hér á þessum bloggi. Undantekning er gerð fyrir Tour de France og þessa dönsku anómalíu.

Að auki steingleymdi ég að segja ykkur frá því þegar túrinn kom hingað til Nancy. Jamms, alltaf tekst mér að vera á réttum stað á réttum tíma og það þó ég ætli mér það ekki. Enda skiptir túrinn mig afar litlu máli persónulega. Flestir Kanar sem ég þekki eru hins vegar að tapa sér af æsingi (enda svo sem ekki skrýtið) og ég fékk fyrirskipanir um að gjöra svo vel að fara á vettvang og horfa á þegar kapparnir komu inn í Nancy og eiginhandaráritun frá Lance.

Þar sem ég þekki hvorki haus né sporð á Nancy endaði ég nú ekki við markið eins og planið var heldur eina 200 metra aftan við það. Það gerði ekki mikið til, ég sá ágætlega hangandi í stálrimlum fyrir glugga nokkrum. Kapparnir komu inn í mikilli kássu og það var ekki séns að koma auga á Lance í þvögunni. Sama hvað ég leitaði þá var það eina sem ég sá rakaðir leggir. Ég hef aldrei á ævinni séð annað eins samansafn af rökuðum karlmannaleggjum og ég segi það satt, ég get alveg lifað án þess að sjá svona lagað aftur. Náði nú samt að sjá Lance þegar hann var færður í gulu treyjuna og dreif mig svo í burtu. Hef ekki enn náð mér almennilega og gleðst innilega í hvert sinn sem ég sé órakaðar kallalappir koma undan stuttbuxunum.

laugardagur, júlí 09, 2005

Shop 'till you drop

At the risk of being considered frivolous, in the aftermath of these senseless bombings in London, I'm going to talk about shopping.

Og núna á íslensku. Suma hluti er bara einfaldara að orða á ensgu.

Nancy er ekki stærsta borg í heimi en hún lumar á fleiri verslunum en tölu verður á komið. Alla vega fleiri verslunum en ég kemst yfir að skoða í lofttæmis-heimsókn minni hingað. Mér hefur nú samt tekist að villast inn í þó nokkrar og þá sérstaklega þær sem skarta risastórum auglýsingum um "soldes". Það var fyrsta nýja orðið mitt í frönsku í þetta skiptið, það þýðir "útsala" og er nú orðið eitt af uppáhaldsorðunum mínum. Einkum og sér í lagi þegar það sést í glugganum hjá H&M.

Keypti sitt af hverju smálegt þar. Keypti ekki grænu brauðristina með bleiku blómunum sem fékkst í lítilli búð rétt við Stanislas-torg. Keypti fleira smálegt í hræðilegri miðbæjarkringlu. Keypti ekkert á risa-götumarkaðinum sem fyllti miðborgina í dag, en það var bara af því 2ja evru skórnir sem mig langaði í voru ekki til í minni stærð. Eða réttara sagt, þá var enginn hægri fótur til í minni stærð. Það er oftast betra að hafa báða skóna jafnstóra, ef maður er á annan bóginn svo partíkúlar að þurfa skó á báða fætur. Svo væri ekki leiðinlegt að komast að því hvar sá hægri er.

Að öðru leyti er ekki laust við að mér sé farið að leiðast. Þíða, hræra, frysta. Þíða, hræra, frysta.

fimmtudagur, júlí 07, 2005

miðvikudagur, júlí 06, 2005

Kalin

Það er með vissu stolti sem ég tilkynni að ég er með örsmá kalsár á handarbaki hægri handar. Ég var að hræra í etanól-köfnunarefnisblöndunni minni, sem var ca. -85°C, og smá lús skvettist á mig. Ef þetta hefði bara verið etanól eða köf eða blanda þá hefði þetta bara gufað upp á stundinni og í mesta lagi verið smá svona hressandi. Með tímanum safnast vatn (sem þéttist utan á tilraunaglasið þegar það er tekið úr blöndunni) í etanól-blönduna og smá moli af þessu frosna vatni hefur lent á hendinni. Ætli það hafi ekki legið á húðinni í svona ca. hálfa sekúndu áður en ég burstaði það af. Nóg til að fá pínulitlar rauðleitar doppur, varla kalsár nema í sjúkri ímyndun minni. Kalsár hafa neflilega verið réttur dagsins í dag.

Let me explain. Þessa dagana er ég að lesa um verstu ferð í öllum heiminum, og eins hrifin og ég er nú af alls konar geðveiki á köldum, óvistlegum og hættulegum stöðum þá verð ég að játa að ég er fegin að hafa ekki þurft að fara í þessa ferð sjálf. En þessir bresku sjéntilmenn rúlluðu djobbinu upp, fundu fingurna á sér frjósa meðan þeir reyndu að fíra upp í prímusnum og þíddu svo kalsárin á tánum meðan tevatnið var að sjóða. Þeir gerðu þetta allt í 60 stiga frosti um hávetur í heimskautamyrkri, auk þess að draga þrír saman 350 kg sleða yfir jökulsprungur og brotinn hafís, klifra upp og niður kletta og ísstál og bara gvöð veit hvað. Einn þeirra var meira að segja illilega nærsýnn og gleraugnalaus. Af bókinni að dæma voru þeir alltaf í trallilí skapi og rataðist aldrei blótsyrði á munn í allar vikurnar fimm sem ferðalagið tók. Þetta er geðveiki sem engum nema þegnum breska heimsveldisins hefði dottið í hug að leggja út í og sem engum nema Bretum hefði tekist að lifa af, á sjéntilmennskunni einni saman.

Thus, afbrigðileg hamingja mín yfir kali. Sem er ekki einu sinni kal, sama hvað ég reyni. Ætti ég kannski bara að stinga bífunum oní frostpollinn??

þriðjudagur, júlí 05, 2005

Óskast gefins eða fyrir lítið:

Partý, fullt af fólki, einhver með gítar, hver syngur með sínu nefi.

Miði á U2-tónleikana í París 10. júlí. Baksviðspassi má fylgja með.

Skyggni gott til allgott á leiðinni Landmannalaugar-Hrafntinnusker miðvikudaginn 13. júlí næstkomandi.

Cheerios-pakki með Ph.D.-gráðu í jarðefnafræði frá Cornell innan í (má vera Cocoa Puffs).

30 feta ísstyrktur seglbátur og hytte á Svalbarða. Hytten má vera á Suðurskautslandsskaganum, en þá má gjarna almennilegur ísbrjótur fylgja með.

Bæta má við listann eftir þörfum.

mánudagur, júlí 04, 2005

Til áréttingar

Lesist með síðasta pósti:

"Heila eilífð" = "Heila andskotans fokkíngs eilífð"

Lifið heil.

Lu vaköm

Alveg er þetta nú stórskemmtilegt og hressandi. Þýða, hræra, frysta. Þýða, hræra, frysta. Þýða, hræra, frysta.

Svo koma svona snillingasýni eins og öll þau sem ég tók í lok mars. Það er bara bókstaflega ekkert í þeim, eða ef það er ekki bókstaflega ekkert í þeim þá er bara pínulítið, nógu lítið til þess að það tekur heila eilífð að kreista þessa hungurlús út. Lífið væri einfaldara ef engin væri hungurlúsin.

Meira um Frans

Það fyrsta sem ég tók eftir þegar út úr RER- og metróinu kom (á ljóshraða í TGV-lestinni á leið til S-Frakklands) var hvað allir bílarnir eru litlir. Mér leið eins og ég væri í Lególandi. Í Amríku telst til tíðinda að sjá lítinn bíl á vegum úti (frúarbíl, eins og þeir voru/eru kallaðir á Íslandi), hér í Frans telst til tíðinda að sjá stóran bíl á vegum úti. Greinilegt að hátt bensínverð skilar sér í eyðslugrennri bílum. Er alveg gasalega ánægð með það.

Annað: Frakkar halda enn í þann forna sið að hafa allt lokað á sunnudögum. Ógurlega kósí eitthvað.

föstudagur, júlí 01, 2005

Fancy Nancy?

Er þá ekki kominn tími á að skoða borgina aðeins? Ég er núna búin að vera hér í tæpa þrjá sólarhringa og hef ekki séð annað en veginn milli íbúðarinnar sem ég fékk lánaða og rannsóknamiðstöðvarinnar þar sem ég vinn. Þetta náttla gengur ekki.

Ætlaði að vera enn duglegri og gera eitt sýni í viðbót. Held ég sleppi því. Klukkan er orðin sex og ég er orðin frekar steikt í höfðinu eftir tíu tíma á labbinu. Á þá skyndilega bara eftir að klára síðasta sýnið, ganga frá, pakka oní poka og labba út. Stanislas-torgið er næsti áfangastaður.