miðvikudagur, júlí 06, 2005

Kalin

Það er með vissu stolti sem ég tilkynni að ég er með örsmá kalsár á handarbaki hægri handar. Ég var að hræra í etanól-köfnunarefnisblöndunni minni, sem var ca. -85°C, og smá lús skvettist á mig. Ef þetta hefði bara verið etanól eða köf eða blanda þá hefði þetta bara gufað upp á stundinni og í mesta lagi verið smá svona hressandi. Með tímanum safnast vatn (sem þéttist utan á tilraunaglasið þegar það er tekið úr blöndunni) í etanól-blönduna og smá moli af þessu frosna vatni hefur lent á hendinni. Ætli það hafi ekki legið á húðinni í svona ca. hálfa sekúndu áður en ég burstaði það af. Nóg til að fá pínulitlar rauðleitar doppur, varla kalsár nema í sjúkri ímyndun minni. Kalsár hafa neflilega verið réttur dagsins í dag.

Let me explain. Þessa dagana er ég að lesa um verstu ferð í öllum heiminum, og eins hrifin og ég er nú af alls konar geðveiki á köldum, óvistlegum og hættulegum stöðum þá verð ég að játa að ég er fegin að hafa ekki þurft að fara í þessa ferð sjálf. En þessir bresku sjéntilmenn rúlluðu djobbinu upp, fundu fingurna á sér frjósa meðan þeir reyndu að fíra upp í prímusnum og þíddu svo kalsárin á tánum meðan tevatnið var að sjóða. Þeir gerðu þetta allt í 60 stiga frosti um hávetur í heimskautamyrkri, auk þess að draga þrír saman 350 kg sleða yfir jökulsprungur og brotinn hafís, klifra upp og niður kletta og ísstál og bara gvöð veit hvað. Einn þeirra var meira að segja illilega nærsýnn og gleraugnalaus. Af bókinni að dæma voru þeir alltaf í trallilí skapi og rataðist aldrei blótsyrði á munn í allar vikurnar fimm sem ferðalagið tók. Þetta er geðveiki sem engum nema þegnum breska heimsveldisins hefði dottið í hug að leggja út í og sem engum nema Bretum hefði tekist að lifa af, á sjéntilmennskunni einni saman.

Thus, afbrigðileg hamingja mín yfir kali. Sem er ekki einu sinni kal, sama hvað ég reyni. Ætti ég kannski bara að stinga bífunum oní frostpollinn??

Engin ummæli: