þriðjudagur, mars 23, 2004

Happaferðin mikla

Makalaust alveg hvað ég get verið heppin. Allt fer þetta einhvern veginn að lokum, eins og einhver sagði svo spaklega, og stundum fer þetta alveg ótrúlega vel.

Ferðin mín til Chicago og New York var sem sagt mjög ánægjuleg. Reyndar var sjálf ráðstefnan ekki par spennandi, þó svo vissulega hafi ég brennandi áhuga á málefnum Latinos og svertingja í úthverfum Chicago, að ekki sé minnst á félagslega aðstoð við konur í fangelsum. Hið alltumlykjandi suð loftræstingarinnar slævði og deyfði uns það eina sem ég heyrði voru hroturnar í sessunautum mínum. Ég forðaði mér út í borgina áður en mínar hrotur færu að óma um salinn líka.

Chicago er flott. Vá, hún er algjört æði. The Magnificent Mile, Hancock Tower, Sears Tower, áin, Lake Michigan... það er nóg að sjá og allt er hreint og fallegt. Eitthvað annað en New York, sem minnir mig alltaf á þriðja heims borg. Hamingja mín óx upp í annað veldi þegar ég fann North Face-búð og útsýnið frá barnum á 96. hæð Hancock Tower var fyllilega biðraðarinnar virði.

Fulbrightarnir eru líka æðislegir! Konan sem ég deildi herbergi með, stelpuleg Kenýukona í mastersnámi í umhverfisfræði við Yale, reyndist vera fimm barna móðir og fyrrverandi þingmaður. Það var ekkert smá gaman að spjalla við hana um kvenréttindi og náttúruvernd í þriðja heiminum. Þarna var fólk frá sennilega rúmlega fimmtíu þjóðum, m.a. spengileg stelpa frá Bergen og herramaður frá La Paz sem varð alveg óendanlega hissa þegar ég, ljóskan frá Íslandi, heilsaði honum á spænsku og kynnti mig sem samlanda hans.

Erna og Möddi eru líka æðisleg! Eftir villur í subway og ráf um Harlem alein á mjög myrku sunnudagskveldi álpaðist ég á rétta götu og að réttu húsi, mikið óskaplega varð ég fegin! Mánudeginum eyddi ég í Central Park og á American Museum of Natural History, sem hér með útnefnist besta náttúrugripasafn sem undirrituð hefur komið á. Þegar Erna var búin í vinnunni hittumst við til að skoða neðri hluta Manhattan betur. Við fórum í Battery Park og á pöbb sem George Washington fannst víst gaman að hanga á; hann hefði áreiðanlega verið liðtækur í billjarð hefði borðið verið komið þegar hann var upp á sitt besta, að ekki sé minnst á hvað hann hefði fílað sig að horfa á Superbowl-ið á risasjónvarpsskjánum. Ekkert verið að taka fornminjar og gömul hús of hátíðlega þarna. Áfram örkuðum við, alla leið upp í Greenwich Village undir leiðsögn Ernu sem veit alveg ótrúlega mikið um borgina og sögu hennar. Kvöldinu var svo slúttað með eþíópskum mat á Macdougal-stræti.

Í morgun hafði ég það svo af að sofa yfir mig og næstum missa af vélinni til baka til Íþöku. Sem betur fer vakti Erna mig, annars væri ég sennilega enn sofandi. Leigubílstjórinn gerði sitt besta til að koma mér á völlinn á réttum tíma og það hafðist, ég held tipsið sem ég gaf honum dugi honum í gott fyllerí! Flugferðirnar til Chicago gengu mjög vel fyrir sig en þegar ég mætti út á o'Hare á sunnudaginn til að fara til baka til New York var mér tilkynnt að farinu mínu hefði verið kansellerað. Ég mótmælti öll, hafði enda staðfest flugið og allt, en konan stóð föst á sínu, nafnið mitt var hvergi sýnilegt á neinum farþegalista og ekkert sem hún gæti gert í því. Eftir japl og jaml og fuður aumkaði hún sig yfir mig og 1100 dollara reikninginn fyrir fluginu sem ég veifaði viðstöðulaust framan í hana og lét mig á standby. Þá var vélin alveg að fara í loftið og ég hentist í gegnum óryggisgæsluna, vildi sko ekki missa af fluginu og vera strand í Chicago. Sem betur fer komst ég með og deginum var þar með bjargað.

Upphaflega planið var að fara af vellinum í NYC og taka rútuna til baka til Íþöku á þriðjudeginum, þ.e. í dag. Þegar ég var sest inn í vél og farin að jafna mig eftir stressið á vellinum datt mér í hug að kannski væri þetta vesen einmitt það sem ég þyrfti til að losna við að hjakkast í rútu í sex tíma til baka til Íþöku og komast í staðinn með flugi til baka, án þess að missa af heimsókninni til Ernu og Mödda. Fulbright-starfsmaðurinn sem keypti miðann fyrir mig sagði að það væri svo dýrt að stoppa í New York að þeir vildu ekki borga það fyrir mig; nú allt í einu sá ég fram á að vera kannski strandaglópur í NYC fyrir mistök ferðaskrifstofunnar. Allt flugið æfði ég mig í aumingjasvipnum mínum og viti menn, hann virkaði! Ég var bókuð í flugið til Íþöku og átti sæti í vélinni og allt; ég setti upp eymdarsvipinn og sagðist hafa verið svo freaked out by this whole mess að ég hafi hringt í vinkonu mína í New York, sagt henni að ég væri strandaglópur í borginni út af incompetent airline personell og ég gæti ekki bara ekki mætt! Konan skildi mig afskaplega vel og kinkaði róandi kolli og spurði hvernig miða ég væri með; ég sagðist ekki vita það, bara að hann hefði kostað mig 1100 dollara. I see, sagði hún, I´m sure we can change your flight. When do you want to go back then?? Sem sagt, ég er ótrúlega heppin manneskja!

Engin ummæli: