þriðjudagur, mars 09, 2004

Skemmtilegt líf aðstoðarkennara

Ein af mínum helstu skyldum hér þetta árið er að kenna verklegt í inngangskúrsi í haffræði og haf-jarðfræði. Í Bandaríkjunum byrjar fólk háskólanám þegar það er 18 ára, ekki tvítugt eins og heima, og því líður mér yfirleitt frekar eins og ég sé að tala við bekk af menntskælingum en háskólanemum. Þar að auki þurfa krakkarnir að taka heilan haug af kúrsum sem hafa ekkert með aðalfagið þeirra að gera, svona svipað og þegar máladeildarfók heima þurfti að taka jarðfræði og eðlisfræðikrakkar að taka þýsku út í það óendanlega. Þetta veldur því að inngangskúrsarnir eru þéttsetnir fólki sem hefur engan áhuga á efninu en verður að taka kúrsinn.

Þetta var skemmtilega augljóst í labbinu í gær. Við vorum að skoða set og grjót af hafsbotni og vinna verkefni um það hvernig setmyndun í hafinu á sér stað. Þar sem ég er skrýtinn jarðfræðingur sem elskar allt grjót og alla drullu finnst mér þetta alveg massa spennandi. Yfirleitt tekst mér ágætlega að fá fólk til að fá smá áhuga á viðfangsefninu þegar ég er með hóp af túristum úti í náttúrunni og get útskýrt hlutina í sínu rétta samhengi. Með míníatúr sýnishorn af grjóti á borði inni í skólastofu verður þetta hins vegar meiriháttar áskorun, sérstaklega þegar áheyrendahópurinn samanstendur af 18 ára krökkum sem hreinlega gæti ekki staðið meira á sama.

Það er svo sannarlega gaman að vera aðstoðarkennari...

Engin ummæli: