laugardagur, mars 13, 2004

Smá raus um dag og veg

Það er alltaf gaman að blogga þegar heimadæmi í stærðfræði liggja fyrir...

Þessa dagana er hér í heimsókn stelpa sem er búið að hleypa inn í jarðfræðina, n.t.t. í líf-jarðefnafræðiprógrammið hjá leiðbeinandanum mínum. Hún kom hingað á fimmtudaginn, er búin að vera í stífu prógrammi að hitta fólk og kynna sig, og fer svo aftur heim á morgun. Í gær þvældist hún um allan kampus í fylgd framhaldsnema, fór á fyrirlestra og lauk deginum á skemmtistað í bænum í boði deildarinnar. Allir eru að sýna sitt besta andlit og vera sem almennilegastir til að hún ákveði nú að taka tilboðinu héðan; það er sennilega jafnmikil samkeppni milli skóla um góða nemendur eins og það er mikil samkeppni meðal nemenda um skóla.

Eftir að fylgjast með, mest til utan frá, hvernig svona kynnisheimsókn fer fram er ég alveg rosalega fegin að ég fór ekki í heimsóknir sem þessar þegar ég var að sækja um í fyrra!! Ekki það að ég sé svona ósósíal, ég bara hefði snappað á einhverjum tímapunkti yfir allri kurteisinni og innihaldslausa hjalinu. Á barnum í gær slysaðist ég til að spyrja hana hvað hún væri að vinna við þar sem hún er núna. Til baka fékk ég þvílíkan þjáningarsvip, svo afsökunarbros og eitthvað muldur. Allt í einu þagnaði hún í miðju kafi og baðst afsökunar, hún væri bara búin að fara með þessa rullu svo oft þennan daginn að hún gæti það ekki aftur. Grey stelpan. Hún er mjög indæl og væri kærkomin viðbót við labbið okkar, nú er bara að vona að hún velji okkur fram yfir Kaliforníu! Ég vona líka að hún hafi átt aðeins afslappaðri dag í dag.

Hjá mér byrjaði dagurinn snemma, allt of snemma miðað við hvað ég var lengi úti í gær. Fór á skíði með nokkrum félögum mínum, í þetta skipti að telemarka í brekkunum í Greek Peak (öfunda aðra félaga mína, sem nú eru á Telemark-hátíð í Vermont, svo mikið :)). Ég fékk lánuð "alvöru" telemark-skíði og það er svona milljón sinnum viðráðanlegra en að telemarka á gönguskíðum. Íhá, ekkert smá gaman!

Engin ummæli: