Við gætum opnað dýragarð hér í Hlynskógi E5. Nýjasta tegundin sem bættist í hópinn er pínulítil, nánast gegnsæ og gefin fyrir stærðfræði. Hún er með fálmara og skott og sást fyrst á rölti yfir lausnaheftið í stærðfræðinni minni. Henni var umsvifalaust snarað ofan í tóma plastdollu og sett plast yfir. Nú skulu sönnunargögnin geymd!
Fyrr í dag fann ég flugu með lítinn, eldrauðan haus hálfdrukknaða í appelsínusafanum mínum. Flugur eru nú sök sér svo ég drekkti henni bara, en litla bjallan sem vogaði sér að vera á rölti yfir eldhúsborðið á meðan fékk aðeins óvægnari dauðdaga. Hún var kramin í sundur. Hún var lítil og svarbrún með fálmara og litlar rauðbrúnar doppur á bakinu, kunnugleg sjón hér í íbúðinni undanfarnar tvær vikur eða svo. Alveg síðan meindýraeyðirinn kom í sína fyrstu heimsókn. Þangað til vorum það bara við stöllurnar, af sapiens-tegundinni.
Þessar fálmkenndu elskur hafa fundist víða um íbúðina, aðallega þó í eldhúsinu. Nokkrar hafa lagt undir sig land í svefnherbergjum, örfáar hafa sést inni á baðherberginu, ákveðinn hluti þeirra virðist fíla sig best rétt við eldavélina og a.m.k. ein var staðin að verki í könnunarleiðangri ofan í hnífaparaskúffu. Engar hafa þó hætt sér enn sem komið er inn í skordýragildrurnar sem komið var fyrir um allt eldhúsið eftir hávær mótmæli og miklar kvartanir frá okkur sapiens-íbúum hér, og þessi eina sem ég bókstaflega neyddi inn í gildruna spásseraði um á eitrinu langalengi meðan ég hélt henni í gíslingu þar inni; svo þegar ég þurfti að fara til dyra notaði hún tækifærið og skaust út aftur. Sérlega góð virkni. Mestur hasarinn er þó án efa í baunapokunum hennar Deepti, bjöllurnar bora sér leið gegnum plastið og í þurrkuðu baunakrásirnar, gata þær allar og bora sér svo leið inn í næsta poka. Angi af þessari iðju í mínum skáp birtist mér um daginn í formi drukknaðrar bjöllu í seríósinu mínu. Sérstaklega sjarmerandi byrjun á degi, ég verð nú bara að segja það. Nú bíðum við spenntar: Hvenær skyldu silfurskotturnar byrja að streyma upp úr niðurföllunum? Og kakkalakkarnir að hoppa á okkur í svefni???
mánudagur, september 29, 2003
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli