miðvikudagur, desember 29, 2004

Einkunnir komnar í hús

Alveg magnað að (nánast) komin á fertugsaldurinn skuli ég enn láta þessar tölur, eða bókstafi eins og tíðkast hér, skipta svona miklu máli. Skil sumar vinkonur systur minnar í MR og öðrum menntaskólum heima mjög vel þar sem þær barma sér yfir þessum örlagaþrungnu tölum. Einkunnir sökka!!! Sænska kerfið er svo fallegt, þar sem maður fær bara náði eða náði ekki. Allir jafnir. Samt finnst mér það líka fáránlegt því ef maður stóð sig rosa vel þá fæst engin (þótt huglæg sé) umbun fyrir það. Tók einn kúrs náði/náði ekki þetta misserið, það var náttla kúrsinn sem ég fékk mína hingað til langbestu einkunn í. Þá snilld sér svo enginn. Mö.

Annars má einkunnadjöfullinn bara fara að panta kistuna bráðum. Einhvern tímann hlýtur neflilega að koma að því að kúrsum sé lokið í mínu lífi og ég geti snúið mér óskipt að rannsóknum. Mikið svaðalega verður það mikill léttir. Og þó, því þá þarf ég víst að fara að gera eitthvað upp á eigin spýtur og af eigin frumkvæði. Almáttugur.

Í fréttum er það annars helst að Eiríkur fór til læknis í dag. Viftureimin var strekkt og skipt var um víra og dót. Hann sigldi út af verkstæðinu sperrtur eins og nývaknaður hani og fullur af lífsþrótti grátbað hann mig að skutlast til NYC um áramótin. Hver gæti hafa neitað blessuðum gamla kallinum um þá bón?

Engin ummæli: