laugardagur, desember 18, 2004

Jólablandið

Haldiði ekki bara að hún mamma hafi komið í heimsókn hingað í öppsteitið á miðvikudaginn! Ekki slæmt að fá svona jólaheimsókn, hún kom með alls konar gotterí sem við Íslendingar tengjum við jólahald og það ætla ég að taka með mér til NYC og gefa Ernu og Mödda og öðrum jólagestum þar á bæ núna á aðfangadag. Nú, þetta var ekki langt stopp hjá henni mömmu minni, hún brunaði aftur til Boston núna í hádeginu og er sennilega farin að nálgast borgina núna. Sendi henni hugheilar baráttukveðjur í umferðinni!

Var ekki mjög ánægð með amrísku póstþjónustuna núna áðan. Fór með tvo jólapakka og 35 jólakort (einungis tvö til viðtakanda í BNA) á póstinn og náði að vera 3 mínútum of sein, allt lokað. Ég ætlaði að arka út en einhver starfsmaður benti mér á póstsjálfsala sem ég gæti notað til að sinna öllum mínum erindum. Ég stóð þarna og beið í tæpan hálftíma meðan þrjár manneskjur komu af sér jólakortum og -pökkum en eitthvað fór ég nú að fá mínar efasemdir um snilld græjunnar þegar ég sá að maðurinn á undan mér var að senda kort til Englands og þurfti að kaupa eitt frímerki í einu. Eitthvað fannst mér það fáránlegt og spurði hverju sætti, fékk þau svör að það væri bara hægt að kaupa innanlandsfrímerki í heilum síðum, ekki frímerki til annarra landa. Ég ákvað því, þegar röðin kom loks að mér, að senda bara pakkana og láta kortin bíða. Fyrsta pakkanum var því vippað upp á vog og maðurinn sem hafði þann ánægjulega starfa að kenna fólki á þetta "fast. easy" apparat lítur á mig furðu lostinn og segir að ég geti bara sent pakka innanlands í þessari græju.

Þegar þarna var komið sögu var farið að síga allverulega í mína. Búin að standa þarna í hálftíma og hvergi stóð á blessaðri vélinni að hún sinnti helst einungis þörfum þeirra sem þurftu að koma dóti milli manna í this country. Ég stakk því hálfsnúðugt að manninum að það væri nú ekki úr vegi að hafa smá svona miða á græjunni að ekki væri hægt að sinna millilandapósti þarna, þar sem það gerðist nú áreiðanlega öðru hvoru að á pósthúsið kæmi fólk sem ætti samskipti við fólk í öðrum löndum. Maðurinn leit á mig sármóðgaður og svaraði mér ekki einu sinni.

Þetta er náttla lítið atvik og ómerkilegt en leiðir hugann að stærra máli: Einangrunarstefnu Bandaríkjanna. Það er oft ekki gert ráð fyrir að neinn hafi eitthvað til annarra landa að sækja. Í frímerkjasjálfsalanum í bókabúðinni hér á kampus má t.d. einungis fá frímerki til Bandaríkjanna og verðlistinn fyrir bréfapóst á sjálfsalanum sýnir bara innanlandsgjaldskrána. Það væri kannski sök sér ef þetta væri ekki í háskólabókabúð þar sem annar hver stúdent er útlendingur.

Jæja, nóg af þrasi. Er enn og aftur sest fyrir framan tölvuna niðri í skóla því ég er ekki enn búin með verkefnið í landmótunarfræði. Úps, best að drífa sig.

Engin ummæli: