þriðjudagur, október 05, 2004

Á að halda upp á lífið eða dauðann?

Í sunnudagsútgáfu The New York Times eru ekki minningargreinar um látið fólk heldur tilkynningar um brúðkaup sprelllifandi og hamningusamra karla og kvenna. Tilkynningin er ekki örlítil flís með nöfnum brúðhjónanna og mynd, birt hálfu ári eftir atburðinn (eins og tíðkast í Mogganum), heldur nokkuð ítarleg úttekt á fjölskylduhögum, menntun og starfsferli parsins auk myndar, ef vill, og jafnvel smá sögu um hvernig þau kynntust og í gegnum hvers lags eldskírnir þau þurftu að ganga áður en altarið komst í sjónmál.

Þetta finnst mér alveg agalega krúttlegt. Auðvitað má deila um það hvað einkalíf annars fólks á mikið erindi við almenning en með sömu rökum má líka skjóta minningargreinar beint niður í gröfina. Mér finnst skemmtilegra og meira upplífgandi að lesa um 68 ára gömlu konuna sem kolféll fyrir 72 ára gamla kallinum sínum þegar hún fyrst leit hann augum (á efra dekkinu á skemmtiferðaskipinu sem sigldi með þau um firði Alaska fyrir þremur árum) heldur en að lesa um þetta fólk þegar það er dáið.

Mæli með að við tökum upp á svona siðum á Íslandi og förum þar með að halda aðeins meira upp á lífið og aðeins minna upp á dauðann.

Engin ummæli: