mánudagur, október 11, 2004

Helgin, já

Góð helgi. Núna er haustfrí hér í Cornell og þ.a.l. ekki hægt að húka í bænum (þó við grad stúdentarnir séum tæknilega ekkert í meira fríi en venjulega). Skellti mér þess vegna í tveggja daga gönguferð (gaurarnir á þessum myndum voru svo sniðugir að fara einhvern tímann í akkúrat sömu gönguferðina og við fórum í um helgina, svo ég bara linka á þeirra myndir af því ég tók engar sjálf. Þeir m.a.s. tjölduðu á sama stað og við!) í Catskill-fjöllunum með 5 öðrum grad stúdentum og skemmti mér vel.

Þetta var alveg heljarinnar labb. Á laugardeginum gengum við ekki nema ca. 6 km (sem voru reyndar allir upp í móti og berandi fullhlaðna bakpoka) en á sunnudeginum gengum við ca. 13 mílur, sem mun gera ca. 21 km. Á þeirri leið gengum við á þrjú fjöll og þar með bæði upp og niður ægilega brattar brekkur sem voru alveg að gera út af við hnén á okkur undir lokin. Svona erum við nú orðin gömul... Veðrið á laugardeginum var frábært, sól og dáldið hlýtt og þar með gott útsýni, og á sunnudeginum var veðrið svo aftur frábært en í það skiptið frábært til svona göngu; það var skýjað og svolítið kalt og öðruhvoru kom smá rigningarúði. Mjög notalegt. Reyndar sáum við ekki mikið af rómuðu útsýninu út af lágum skýjunum en skógurinn og grjótið undir skóginum var svo fallegt að útsýnismissirinn gerði ekki mikið til. Göngunni lauk í kolsvartamyrkri um 8-leytið í gærkveldi og eftir pizzu á þorpskránni keyrðum við til baka til Íþöku. Stórfínt frí.

Engin ummæli: