laugardagur, febrúar 21, 2004

Partý partý

Eins og glöggir lesendur kommentakerfisins hér og blogganna þeirra Stínu og Hallveigar hafa eflaust tekið eftir átti undirrituð stórafmæli í gær, the big three-O eins og Kaninn segir. Ekki var annað hægt en að efna til veislu og maður lifandi, þetta var nú meira partýið!

Okkur telst til að 30 manns hafi mætt. Allir voru kátir og glaðir, skemmtu sér vel og drukku hraustlega, tóku svo til eftir sig og voru farnir kl. 3. Enginn sendi lögguna á okkur og enginn lamdi neinn en einhverjir fóru heim með símanúmer hjá fólki af hinu kyninu á límmiða á bringunni. Afmælisbarnið skemmti sér alveg konunglega, sérstaklega í dansinum sem brast á eftir miðnættið; þá var húsgögnunum mokað út í horn og tekin suður-amerísk sveifla. Nokkuð var um að fólk kæmi með eitthvað smálegt handa afmælisbarninu; t.d. laumaði hann Brjánn að mér pakka sem innihélt svona bók, Meghan gaf mér afmælistertu sem var alveg ótrúlega góð... og með kertum, Adam kom með Smirnoff eplavodka (eins og samkundan hafi mátt við meira áfengi) og Jack og hans kærasta færðu gestum kampavín. Toppurinn var nú samt gjöfin frá Greg og Gaby kærustunni hans; þau tóku sér góðan tíma fyrir framan bókarekkann í Wegman's til að velja viðeigandi gjöf fyrir þrítuga einhleypa konu. Ekki má svo gleyma framlagi þeirra Martin vinar míns, sem útbjó þýskan rauðvínsdrykk, og Jacob, sem hélt uppi stuðinu með því að lána okkur bassamagnarann sinn og hátalarana.


Birgðakönnun í morgun leiddi í ljós að í ísskápnum eru enn 40 ódrukknir bjórar og í frystinum er Smirnoff eplavodkinn frá Adam og kærustunni. Hér verður sem sagt líklega bara að blása til annarrar veislu bráðum.

Svo vil ég endilega nota tækifærið og þakka fyrir afmæliskveðjurnar, kort og pakka, bæði komna og enn-á-leiðinni, frá ykkur heima!

Engin ummæli: