þriðjudagur, febrúar 17, 2004

Rífumst!!!

Þið ykkar sem einhvern áhuga hafið á jarðfræði, kíkið endilega á Nature vol. 425, 23. okt. 2003, á Andes-greinina eftir Lamb og Davis. Við vorum að diskútera hana í tíma núna áðan.

Þannig er að kennarinn er ekki sammála höfundum, sem í stuttu máli halda því fram að loftslagsbreytingar hafi átt stóran þátt í því að Andesfjöllin urðu jafnhá og raun ber vitni (skerkraftar á plötumótum og lítið rof vegna þurrs loftslags spila hér inní). Kennarinn er eldfjallafræðingur og ekki hrifin af loftslagspælingum á neinu plani. Í hvert sinn sem einhver reyndi að segja eitthvað jákvætt var sá sami skotinn niður og þegar rök hennar (sem oft voru ekki beysin) voru uppurin sneri hún upp á sig og fór að tala um eitthvað annað. Því miður veit ég ekki nóg um jarðsögu og -fræði Andesfjallanna til að leggja mikið til málanna en þrátt fyrir það var ég var alveg að kafna fyrir hönd þeirra sem sáu ljósa punkta í greininni en voru alltaf jarðaðir með misgáfulegum athugasemdum. Þess vegna varð ég að taka undir með dauðuppgefnum vini mínum, honum Greg, í lok tímans þegar hann spurði hvernig í ósköpunum stæði á því að ef greinin væri svona mikill skeinipappír að Nature hefði samþykkt að birta hana. Svarið var ógleymanlegt og alveg fáránlega ópró: Ætli höfundurinn (sem hafði þegar verið lýst sem óþolandi bresku montpriki með egó á stærð við Everest) sé ekki bara persónulegur vinur ritstjórans, ha? For crying out loud, þessi kona er prófessor við virtan háskóla en á ekki betri mótrök en persónulegt skítkast (ætli hún kjósi D?? nei bara spyr...).

Ég hlýt að hafa verið eins og þrumuský í framan allan tímann sem greinin var "rædd", því eftir tímann kom þessi annars ágæta kona til mín og sagðist hafa tekið eftir því á svipnum á mér að ég væri nú greinilega mjög hrifin af greininni og loftslagi almennt og hvað mér fyndist. Úff, hugsaði ég (um leið og hún fékk prik hjá mér fyrir að a.m.k. reyna að sýna viðhorfum nemendanna athygli), erfitt að svara þessu án þess að fara sjálf út í persónulegt skítkast... svo ég sagði eins og er að ég hafi í raun ekki nógu mikla þekkingu á efninu til að hafa sterkar skoðanir í neina átt en hafi saknað jafnari umræðu, því þeir sem höfðu eitthvað jákvætt að segja hafi ekki verið gefið svigrúm til að þróa sín rök... eða eitthvað viðlíka dipló moð. Hún virtist ekki alveg ná punktinum hjá mér... enda greinin svoddan skeinipappír, þú veist.

Enívei, það væri haugalygi að segja að greinin að tarna sé óumdeild, fólk getur greinilega rifist eins og hundur og köttur um þetta og það er að mínu mati ekkert smá gaman. Kenningin þeirra er risastór og fullt af veikum punktum. Þannig var líka kenningin um flekarek upphaflega, og heill hellingur af öðrum kenningum. Ef ekkert mætti birta fyrr en menn væru með kenningu sem útskýrði allt alltaf alls staðar þá væri ekki búið að gefa út eina blaðsíðu af neinum vísindum enn. Held að sumir þurfi að fara að skilja það.

Engin ummæli: