þriðjudagur, október 26, 2004

Four down, one to go

Svona er ég nú orðin ameríkaníseruð, get ekki haft titla á íslensku lengur.

Í tilefni af því að nú er ég (næstum) búin með fjögur af fimm heimadæmum í stærðfræði fyrir morgundaginn ætla ég að segja ykkur litla skemmtisögu úr hversdagslífinu hér vestan Atlantsála. Hún fjallar um mig í vinnunni, sem sagt alveg sérstaklega spennandi, áhugavert og skemmtilegt :)

Í gær var ég að föndra í litlu og ljótu forriti sem maður getur notað til að skoða loftmyndir og stafræn hæðargögn þegar maður er búinn að fá sér heilaígræðslu til að skilja frumskóginn af skráa-formöttum og fleira rugli sem þarf að kunna skil á til að nota litla ljóta forritið. Ég var búin að ryðja mér leið gegnum skrárendinga- (nei, ekki skrá (no.) rendinga (ef.)) kraðakið og búa til alls konar hausa hér og þar og var komin með fallegt stafrænt hæðarlíkan (næstum alveg eins og kort með hæðarlínum, nema bara á tölvutæku formi) af Tímor. Mig langaði mikið að losna við allt föndrið sem fylgdi því að opna allar skrárnar sem nú voru þarna saman í bróðerni á skjánum mínum og bað forritið að vera svo huggulegt að vista fyrir mig nýja skrá með öllum þessum litlu skrám saman í einni. Ekki málið, sagði forritið, og baunaði á mig nokkrum litlum gluggum með skrýtnum orðum og tölum alveg frá næstum óendanlega litlu upp í næstum óendanlega stórt. Ég bara pírði augun og ýtti jafnharðan á OK og þessir litlu gluggar hoppuðu upp á skjáinn minn. Svo byrjaði tölvan að vinna og ég hélt áfram að hlusta á Massive Attack og tala við Stephanie um kærastann sem hún var að hætta með.

Svo töluðum við og töluðum og töluðum svo aðeins meira og þurftum m.a.s. að skipta um disk einhvern tímann á leiðinni. Enn hamaðist hún Askja mín (nýja ofurtölvan sem var keypt handa mér í haust til að vinna í litlum ljótum forritum í) og eitthvað gekk þetta nú hægt hjá henni blessaðri. Ég veit að tölvur eldast upp til hópa illa en þetta var einhver bráðahrörnunarsjúkdómur sem mér sýndist vera kominn í kelluna, hún reyndi svo mikið á sig að ég gat varla skrifað tölvupóst á meðan. Loks eftir dúk og disk gafst hún upp og sagðist vera hætt þessu því það væri ekkert pláss eftir fyrir hana að skrifa skrána á. Eitthvað fannst mér það nú undarlegt því harði diskurinn í þessari elsku er 150 GB og eitthvað um 18 þar af voru í notkun áður en vinnutörnin hófst. Ég athugaði nú samt málið og viti menn, diskurinn var bara orðinn stút- og barmafullur og skráin mín, hæðarlíkanið góða af Tímor, orðið 132 GB og ekki tilbúið enn! Þetta verður nú að teljast þvílíkt afrek að við Stephanie fórum bara á barinn og skáluðum fyrir duglegu tölvunni minni og héldum áfram stelpusnakkinu okkar langt langt fram eftir.

Í morgun kom svo í ljós hvað hafði verið að gerast: Ég hafði verið að búa til hæðarlíkan af Tímor í ca. 1 m upplausn, kannski hærri, meðan að gögnin mín eru í 90 m upplausn. Það þýðir að hver pixill í gögnunum mínum varð að a.m.k. 8100 pixlum í nýju skránni! Mikið væri nú gaman að hafa gögn í svona svakalegri upplausn, þá gæti maður séð munstrið í nærbrókunum sem hún Frú Flóra var að hengja út á snúru!

Thoroughly unimpressed

Bókaði flugið mitt til Sjíle hjá expedíu.komm. Fór þangað í dag af einhverri rælni og skoðaði leiðarlýsinguna mína. Viti menn, flugið mitt til Santiago ætlaði ekkert lengra en til San José í Costa Rica og verðið enn það sama. Ekki það að ég væri ekki einhvern tímann til í að kósa mig í Costa Rica í tvær vikur, mig langar bara svolítið miklu meira á eldfjallaráðstefnuna mína.

Á leið upp á hæsta sjé hringdi ég í expedíu og talaði þar við afskaplega indæla konu sem sagði mér að ég hefði jú hringt í flugfélagið og kansellerað fluginu. Eftir mjög kröftug mótmæli frá fröken Schopka neyddist hún til að tékka á þessu og lét mig bíða á línunni í laaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaannnnnnnnnnnnnggggggggggggggan tíma (sem við Adam skrifstofufélagi minn nýttum í að leita að nýju flugi handa mér í tölvunni hans og æsa okkur alveg upp úr þakinu yfir incompetans þessa helv. óskilgreinda pakks). Hún virtist á endanum hafa nýtt tímann vel því þegar hún kom aftur á línuna var hún hress og kát og sagði mér að þetta hefðu nú bara verið einhver mistök og þeir hjá Lacsa væru búnir að setja mig inn aftur. Ég þyrfti bara að hringja í þá við tækifæri til að staðfesta.

Fröken Schopka lét ekki segja sér það tvisvar og hringdi umsvifalaust í Lacsa. Aðstoðarmaður minn um þann frumskóg var afar indæll líka og sagði mér stoltur í bragði að flugið mitt til San José væri á tíma og allt í gúddí og að hann óskaði mér góðrar dvalar í Kosta Ríka. Mér rétt svo tókst að stoppa hann áður en hann lagði á mig og smeygja inn spurningu; hvenær er svo tengiflugið til Santiago?

Ekkert flug á moi til Santiago, og önnur löng bið í símanum eftir kryptískt komment frá kappanum um að honum sýndist nú sem það yrði hreinlega ekkert flogið til Sjíle þennan dag. Aftur komst ég nokkuð nálægt þrístrikaða sjéinu meðan ég beið, sá fyrir mér að þurfa að punga út þúsundkalli í viðbót og gvöð veit hvað.

Sem betur fer vann drengurinn fyrir laununum sínum og kippti þessu í lag. Hann endurnýjaði bókunina og staðfesti fyrir mig öll flugin þrjú, bæði fram og tilbaka, og m.a.s. gaf mér staðfestingarkóða á flugið frá San José til Santiago. Svo virðist sem expedia hafi bókað flugið mitt í tvennu lagi, staðfest annað og rukkað fyrir bæði.

Ég er, sem sagt, thoroughly unimpressed með expedíu. Hún selur sig hins vegar svo ódýrt að kannski má ekki við öðru búast.

mánudagur, október 25, 2004

Sköpunin og glæpir gegn mannkyni

Að hita gamalt kaffi upp í örbylgjunni og drekka það svo hlýtur að vera einhver voðalegasti glæpur sem hægt er að fremja án þess að vera send í fangelsi fyrir. En gulrótarkökusneiðin sem ég var að kaupa úti í beyglubúð er sem betur fer svo stór að ég verð líklegast farin úr kjálkaliðnum áður en ég næ að fá mér sopa af glæpakaffinu.

Merkilegt fyrirbæri sem ég hef upplifað í ca. hálfan annan mánuð á svo að segja hverju einasta ári síðan ég komst til (svokallaðs) vits: Þegar vinnan í skólanum virkilega kicks in síðla hausts og dagarnir verða um leið dimmari og styttri þá hellist yfir mig alveg yfirgengileg þörf fyrir fallega hluti og að búa eitthvað til. Ég dreg fram úr pokahorninu gömul prjónablöð, hrúga öllum kertastjökunum mínum (eða hvað það nú er sem ég á álitlegt í það og það skiptið) á eitt borð til að njóta smá overflod af einhverju sem glatt getur fegurðarskynið, hugsa upp föt sem mig langar að sauma (ég hef nb ekki komið nálægt saumavél í mörg ár) og leikrit sem mig langar að setja á svið og lög sem mig langar að syngja og bækur sem ég hef lengi ætlað að skrifa... og um leið á ég eiginlega bara að vera að lesa skólabækur og troða í mig visku. Af hverju ætli þetta sé? Er þetta heilinn að krepera á lógík, eða örvar öll rökrétta hugsunin e-ar aðrar stöðvar?

En það er náttla alveg hægt að vera kreatívur í vísindunum líka (ehemm, það er eiginlega bara ekki hægt að stunda vísindi án sköpunargáfu, svei mér þá). Held ég verði að reyna að beina orkunni þangað þó mig langi miklu miklu meira að sauma mér flottan kjól eða skrifa ljóð...

Húsfreyjan

Hérna, er hægt að hekla stroff?

sunnudagur, október 24, 2004

Fourier

Er byrjuð að læra um Fourier-raðir. Seint hefði stærðfræðikennarann minn í 3ja bekk í MR grunað að ég ætti eftir að ná þetta langt á menntabrautinni (njólinn að tarna tók mig á eintal einhvern tímann og sagði mér að það væri herfilegur misskilningur hjá mér að ætla að fara út í raunvísindi, ég ætti að einbeita mér að mýkri vísindum... ætli það sé ekki allt honum að kenna að ég varð jarðfræðingur?? Þrjóskan, þið vitið.). Ekki það að ég sé að taka Fourier í nefið neitt, en raðirnar hans eru flottar.

Óperan var ágæt. Í fyrsta þætti var aðalsaungvarinn reyndar agalega dempaður eitthvað en hann hristi það af sér eftir fyrsta hlé. Hefur kannski fengið sér engifer-te og fíkjukex, hver veit? Mikið hefur lífið nú verið einfalt og brautin bein fyrir konur á þessum tíma; allt snúist bara um eiginmanninn. Sérlega athyglisvert hvernig blessunin hún Desdemóna brást við þegar hún sá að hann Óþelló ætlaði að drepa hana: Emilía mín, hvar er brúðarkjóllinn minn? Best að vera sæmilega til höfð svona síðustu mínúturnar, ó mig auma. Vona að í hennar sporum hefði ég haft the presence of mind til að bara kála honum í staðinn... svona delar eiga náttla ekkert með að vera að láta ljúga framhjáhaldi og veseni upp á konurnar sínar og drepa þær í afbrýðisemiskasti. Fussu svei.

föstudagur, október 22, 2004

Óperan!

Er á leið í óperuna í Sýrakusu í kvöld að sjá Óþelló. Gaman gaman!

þriðjudagur, október 19, 2004

Málið komið í nefnd

Þá er doktorsgráðunefndin mín að verða tilbúin, íha! Tveir prófessorar í jarðfræðinni komnir á blað og á föstudaginn fer ég að negla þann síðasta, prófessor í jarðvegsfræðum og tölfræði. Ég ætla sem sagt, skv. eyðublaðinu sem er í útfyllingu, að verða doktor í jarðefnafræði með landmótunar- og tölfræði sem aukafög. Eins gott að ég lét ekki undan þrýstingi að taka efnafræði eða stærðfræði til hliðar, þá væri ég nú bara á leið í gröfina.

Líst bara vel á þetta. Það hjálpaði líka mikið að tala við þessi tvö prófessör sem ég talaði við í dag, þau sjá skóginn þar sem ég sé bara tré og þau sýndu mér þennan skóg sem ég var að lýsa fyrir þeim án þess að vita það. Schön.

mánudagur, október 18, 2004

Íslenski dagurinn

Íslenskt veður þarna úti - dumbungur og grátt. Logn og þurrt en það rignir laufblöðum, rauðum og gulum og brúnum.

Mér var sagt áðan að ég væri svo íslensk í dag. Kannski þad sé H&M pilsið mitt sem gerir það? Já, og Camper stígvélin? Íslenskt, einmitt.

Dró meðleigjendur mína með mér á forsýningu á Alfie i gær og var minnt á hvað evrópskir karlmenn hafa milljón sinnum betri fatasmekk en bandarískir kynbræður þeirra. Myndin er fín og Jude alltaf sætastur.

föstudagur, október 15, 2004

Önnur helgi

Djö.. líður tíminn hratt. Strax komin næsta helgi, svei mér þá. Ætla ekki að fara að þramma um fjöll (hvað þá firnindi) þessa helgina heldur hósta grillveislu fyrir skandinavíska klúbbinn annað kvöld. Það væri nú ágætt ef rigningin sem hefur vökvað bæinn undanfarna tvo daga myndi draga sig í hlé svona rétt á meðan pulsurnar hitna.

Annars allt með kyrrum kjörum. Nema náttla að einhver andskoti komst í Silfurskottu mína og núna þarf ég að strauja harða diskinn. Viðgerðarmennirnir bara klóra sér í hausnum og segja mér að þessu sé ekki viðbjargandi, nettengingarnar eru allar úr lagi og verða bara verri og verri. Merkilegt.

Svo rakst ég á þessi skrif vinkonu minnar í NYC um daginn. Endilega kíkið á þetta, sniðugar pælingar.

þriðjudagur, október 12, 2004

Jóhó!

Mín bara alveg eins og dívan:

You are Lili St. Cyr!
You're Lili St. Cyr!


What Classic Pin-Up Are You?
brought to you by Quizilla

mánudagur, október 11, 2004

Skólabækur? Ha? Hvað er það??

Var ég búin að segja ykkur frá þessari? Las hana um daginn og var mjög hrifin. Takk, pabbi og Sigga!

Fann svo þessa á tilboðsborði í kampus-bókabúðinni fyrir löngu síðan. Líklega fyrsta sinn sem ég hef þurft að þræla mér í gegnum bók af þessum toga á þrjóskunni einni saman. Hún er ömurleg, fjallar bara um höfundinn að vera skíthræddur í fallegum firði í Alaska. Ekki meira svona, takk.

Er núna að lesa Toni Morrison, n.t.t. þessa hér. Hún er góð á sinn hátt en mjög dimm og lífið vont við alla sem við sögu koma. Ekki beinlínis bókin sem ég myndi hafa með mér á eyðieyju en fín til að losna við fyrstu einkenni sjálfsvorkunnar í daglega lífinu.

Önnur sem ég las nýlega er þessi klassík úr fjallalitteratúr. Fékk hana lánaða hjá Ernu og Mödda og þarf að drífa mig að skila henni. Þau lánuðu mér líka þessa hér, sem er aðeins meira módern og meira og minna alveg frábær, eins og við er að búast af Jon Krakauer.

Helgin, já

Góð helgi. Núna er haustfrí hér í Cornell og þ.a.l. ekki hægt að húka í bænum (þó við grad stúdentarnir séum tæknilega ekkert í meira fríi en venjulega). Skellti mér þess vegna í tveggja daga gönguferð (gaurarnir á þessum myndum voru svo sniðugir að fara einhvern tímann í akkúrat sömu gönguferðina og við fórum í um helgina, svo ég bara linka á þeirra myndir af því ég tók engar sjálf. Þeir m.a.s. tjölduðu á sama stað og við!) í Catskill-fjöllunum með 5 öðrum grad stúdentum og skemmti mér vel.

Þetta var alveg heljarinnar labb. Á laugardeginum gengum við ekki nema ca. 6 km (sem voru reyndar allir upp í móti og berandi fullhlaðna bakpoka) en á sunnudeginum gengum við ca. 13 mílur, sem mun gera ca. 21 km. Á þeirri leið gengum við á þrjú fjöll og þar með bæði upp og niður ægilega brattar brekkur sem voru alveg að gera út af við hnén á okkur undir lokin. Svona erum við nú orðin gömul... Veðrið á laugardeginum var frábært, sól og dáldið hlýtt og þar með gott útsýni, og á sunnudeginum var veðrið svo aftur frábært en í það skiptið frábært til svona göngu; það var skýjað og svolítið kalt og öðruhvoru kom smá rigningarúði. Mjög notalegt. Reyndar sáum við ekki mikið af rómuðu útsýninu út af lágum skýjunum en skógurinn og grjótið undir skóginum var svo fallegt að útsýnismissirinn gerði ekki mikið til. Göngunni lauk í kolsvartamyrkri um 8-leytið í gærkveldi og eftir pizzu á þorpskránni keyrðum við til baka til Íþöku. Stórfínt frí.

föstudagur, október 08, 2004

Helgin

Aftur kappræður í kvöld, ætli maður fylgist ekki með þeim fyrst að í þetta skiptið á að tala um eitthvað annað en Saddam og Írak og hið illa. Er orðin mikið þreytt á þeirri umræðu hér í Paradísarríkjum N-Ameríku sem allar þjóðir vilja, eins og flestir Paradísarríkjamenn vita, ólmar líkjast.

Leigusalarnir okkar tóku allt úr garðinum um daginn nema nokkra götótta sólstóla. Grillið, kayakinn, smíðajárns"borðstofu"settið... alles ist weg og það þótt enn sé 20 stiga hiti dag eftir dag og kuldaboli varla mættur, hvað þá snjór og viðlíka. Ég hringdi í aðra þeirra í gær og kvartaði í heilt kortér yfir þessu. Hún bar fyrir sig ferðalagi sem þær stöllur eru að fara í í nóvember, það er jú aldrei að vita nema fyrsti snjórinn nái að falla einhvern tímann áður en þær koma aftur í lok nóvember. Ich habe nicht gewusst wohin ich gehen wollte (útleggst: Ég vissi ekki hvert ég ætlaði), það er heill mánuður þangað til þær fara og þ.a.l. nákvæmlega ENGIN ástæða til að rífa allt dótið í burtu strax! Á endanum samþykktu kellurnar að leyfa okkur að sækja dótið aftur (allt nema smíðajárnsborðið), til að hafa okkur góð. Mikið gasalega varð ég glöð :), jafnglöð og ég hafði orðið pirruð áður, og nú stendur aftur til að halda grillveislu fyrir skandínavana í Íþöku um næstu helgi.

fimmtudagur, október 07, 2004

miðvikudagur, október 06, 2004

Jaðrakan í Fljótum

Þessi frétt sendi mig beint inn á Nature-vefinn. Einn höfunda greinarinnar um ratvísi íslenskra jaðrakana er T. Sigurbjörnsson, til heimilis að "Langhús, Fljót 570, Iceland". Mér finnst alveg svakalega smart að eiga grein í virtasta náttúruvísindatímariti okkar tíma og vera ekki frá æðri menntastofnun. Go, Mr. T!

Annars fannst mér fyrirsögn Moggans nokkuð merkileg: Vísindamenn agndofa yfir ratvísi íslenskra jaðrakana. Ætli þessir ratvísu jaðrakanir hafi sérlega sterka þjóðerniskennd? Af hverju skyldu þeir ekki vera breskir??

Gamall vinur mættur

Loksins er orðið kalt í Íþöku og mér líður eins og gamall vinur sé mættur. Hjólaði heim í kvöld í tveimur ullarpeysum, það er ekkert þægilegra en að vera eins og rúllupylsa í mörgum lögum af hnausþykkum peysum. Sérstaklega þegar kóngabláa álfahúfan er á kollinum. Hún vakti mikla athygli í kvöld og sitt sýndist hverjum, hvort ég liti út eins og geimvera eða strumpur með hana á hausnum.

Sá eldgamla film noir-klassík í kvöld með Leticiu vinkonu. Mjög fyndið.

þriðjudagur, október 05, 2004

Á að halda upp á lífið eða dauðann?

Í sunnudagsútgáfu The New York Times eru ekki minningargreinar um látið fólk heldur tilkynningar um brúðkaup sprelllifandi og hamningusamra karla og kvenna. Tilkynningin er ekki örlítil flís með nöfnum brúðhjónanna og mynd, birt hálfu ári eftir atburðinn (eins og tíðkast í Mogganum), heldur nokkuð ítarleg úttekt á fjölskylduhögum, menntun og starfsferli parsins auk myndar, ef vill, og jafnvel smá sögu um hvernig þau kynntust og í gegnum hvers lags eldskírnir þau þurftu að ganga áður en altarið komst í sjónmál.

Þetta finnst mér alveg agalega krúttlegt. Auðvitað má deila um það hvað einkalíf annars fólks á mikið erindi við almenning en með sömu rökum má líka skjóta minningargreinar beint niður í gröfina. Mér finnst skemmtilegra og meira upplífgandi að lesa um 68 ára gömlu konuna sem kolféll fyrir 72 ára gamla kallinum sínum þegar hún fyrst leit hann augum (á efra dekkinu á skemmtiferðaskipinu sem sigldi með þau um firði Alaska fyrir þremur árum) heldur en að lesa um þetta fólk þegar það er dáið.

Mæli með að við tökum upp á svona siðum á Íslandi og förum þar með að halda aðeins meira upp á lífið og aðeins minna upp á dauðann.

mánudagur, október 04, 2004

Dugleg!

Ég er mikill snillingur:



Nú hefur mér neflilega tekist að læra að varpa stafrænum kortum til og frá milli landfræðilegra hnita og "varpaðra" hnita og þar með að láta tvö mismunandi kort smella saman eins og flís við rass. Schnillingur, og ekkert annað!

Þjóðarmorð

Hvað eiga nasistar, Ku Klux Klan og konur sem fara í fóstureyðingu sameiginlegt?

Jú, öll stunda þau þjóðarmorð.

Eða svo segja konur sem standa á aðaltorginu hér á háskólasvæðinu og bera spjöld þessa efnis. Máli sínu til stuðnings sýna þær myndir af gyðingum í fjöldagröfum, blökkumönnum hangandi í trjám og 12 vikna gömlum sundurtættum fóstrum.

Ef ég væri blökkukona eða afkomandi fólks sem lifði af helförina myndi ég segja þessum kellum að skammast sín. Mest myndi mig samt langa að vita hvort einhver þeirra myndi virkilega frekar vilja deyja á meðgöngu ef hún yrði lífshættulega veik út af óléttunni heldur en að láta eyða fóstrinu.

Og svo er allt í lagi að stunda dauðarefsingar, líka á ósakhæfu fólki og unglingum...

föstudagur, október 01, 2004

Jarðfræðiferð og skrýtileikinn í kýrhausnum

Þá á nú að fara að jarðfræðast um helgina í Hudson-dalnum. Tek jarðfræðihamarinn góða með, aldrei að vita að hvaða notum hann getur komið *evil grin*

Fór í fyrra skyndipróf misserisins í stærðfræði í gær. Mér fannst það ganga merkilega vel. Veit ekki hvort það þýðir að ég kunni nógu lítið til að vita ekki hvað ég kann lítið eða hvort ég kunni nóg til að virkilega ganga vel. Kemur í ljós.

Fór í húsvermiteiti til kunningjakonu minnar eftir prófið. Við eigum það sameiginlegt að hafa báðar, á mismunandi tímum þó, deitað sama manninn. Ég skilaði honum á sínum tíma tilbaka til hennar því hún hékk yfir okkur öllum stundum. Núna er hann búinn að skila henni, aftur, og fór að reyna við mig, aftur. Í húsinu hennar! Það er ekki í lagi með fólk, ég sver það.