þriðjudagur, október 26, 2004

Four down, one to go

Svona er ég nú orðin ameríkaníseruð, get ekki haft titla á íslensku lengur.

Í tilefni af því að nú er ég (næstum) búin með fjögur af fimm heimadæmum í stærðfræði fyrir morgundaginn ætla ég að segja ykkur litla skemmtisögu úr hversdagslífinu hér vestan Atlantsála. Hún fjallar um mig í vinnunni, sem sagt alveg sérstaklega spennandi, áhugavert og skemmtilegt :)

Í gær var ég að föndra í litlu og ljótu forriti sem maður getur notað til að skoða loftmyndir og stafræn hæðargögn þegar maður er búinn að fá sér heilaígræðslu til að skilja frumskóginn af skráa-formöttum og fleira rugli sem þarf að kunna skil á til að nota litla ljóta forritið. Ég var búin að ryðja mér leið gegnum skrárendinga- (nei, ekki skrá (no.) rendinga (ef.)) kraðakið og búa til alls konar hausa hér og þar og var komin með fallegt stafrænt hæðarlíkan (næstum alveg eins og kort með hæðarlínum, nema bara á tölvutæku formi) af Tímor. Mig langaði mikið að losna við allt föndrið sem fylgdi því að opna allar skrárnar sem nú voru þarna saman í bróðerni á skjánum mínum og bað forritið að vera svo huggulegt að vista fyrir mig nýja skrá með öllum þessum litlu skrám saman í einni. Ekki málið, sagði forritið, og baunaði á mig nokkrum litlum gluggum með skrýtnum orðum og tölum alveg frá næstum óendanlega litlu upp í næstum óendanlega stórt. Ég bara pírði augun og ýtti jafnharðan á OK og þessir litlu gluggar hoppuðu upp á skjáinn minn. Svo byrjaði tölvan að vinna og ég hélt áfram að hlusta á Massive Attack og tala við Stephanie um kærastann sem hún var að hætta með.

Svo töluðum við og töluðum og töluðum svo aðeins meira og þurftum m.a.s. að skipta um disk einhvern tímann á leiðinni. Enn hamaðist hún Askja mín (nýja ofurtölvan sem var keypt handa mér í haust til að vinna í litlum ljótum forritum í) og eitthvað gekk þetta nú hægt hjá henni blessaðri. Ég veit að tölvur eldast upp til hópa illa en þetta var einhver bráðahrörnunarsjúkdómur sem mér sýndist vera kominn í kelluna, hún reyndi svo mikið á sig að ég gat varla skrifað tölvupóst á meðan. Loks eftir dúk og disk gafst hún upp og sagðist vera hætt þessu því það væri ekkert pláss eftir fyrir hana að skrifa skrána á. Eitthvað fannst mér það nú undarlegt því harði diskurinn í þessari elsku er 150 GB og eitthvað um 18 þar af voru í notkun áður en vinnutörnin hófst. Ég athugaði nú samt málið og viti menn, diskurinn var bara orðinn stút- og barmafullur og skráin mín, hæðarlíkanið góða af Tímor, orðið 132 GB og ekki tilbúið enn! Þetta verður nú að teljast þvílíkt afrek að við Stephanie fórum bara á barinn og skáluðum fyrir duglegu tölvunni minni og héldum áfram stelpusnakkinu okkar langt langt fram eftir.

Í morgun kom svo í ljós hvað hafði verið að gerast: Ég hafði verið að búa til hæðarlíkan af Tímor í ca. 1 m upplausn, kannski hærri, meðan að gögnin mín eru í 90 m upplausn. Það þýðir að hver pixill í gögnunum mínum varð að a.m.k. 8100 pixlum í nýju skránni! Mikið væri nú gaman að hafa gögn í svona svakalegri upplausn, þá gæti maður séð munstrið í nærbrókunum sem hún Frú Flóra var að hengja út á snúru!

Engin ummæli: