Þegar ég fór í skólann í morgun var komið hálfgert vetrarveður, með blautu hagli og þyril-roki, ef svo má segja, um frekar hvassan vind sem ekki getur alveg ákveðið í hvaða átt hann á að blása. Þetta fannst mér að vonum æðislegt. Á leið heim úr skólanum eftir langan og strangan og leiðinlegan dag var mér til mikillar hugarhægðar enn þetta veður, rok úr öllum áttum og smá snjóflyksur á stangli í vindinum. Ég gekk meðfram gilinu eins langt og stígurinn nær í stað þess að ganga eftir götunum, til að reyna að hreinsa hugann af pirringi og neikvæðum hugsunum, og það var virkilega gott að heyra í rokinu í sölnuðum laufum trjánna, sjá trjástofnana svigna undan vindinum og snjóinn þyrlast í loftinu. Nú sit ég við skrifborðið mitt að læra og hlusta á vindinn, við undirspil Sigurðar Flosa og Gunnars Gunnarssonar á Sálmum jólanna... algjör snilldardiskur sem má spila á hvaða árstíma sem er.
Annars hefur veðrið hér verið alveg stórfurðulegt að undanförnu, í gær og fyrradag var t.d. svo hlýtt að maður gat verið úti bara á þunnum bol, og sumir (engar sumar) sprönguðu m.a.s. um í stuttbuxum. Reyndar er ég alveg sérstaklega óhrifin af þessari stuttbuxnamenningu hér, það er eins og karlmenn hér geri sér ekki grein fyrir því að kafloðnar spírur undan alltof víðum pokandi hnésíðum brókum er ekki sérlega sjarmerandi sjón og því nóg að þurfa að umbera hana yfir heitustu sumarmánuðina. Ég vona bara að þeir haldi ekki að þeir séu að gera okkur kvenþjóðinni einhvern greiða með þessum klæðnaði!!
fimmtudagur, nóvember 13, 2003
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli