Þessa dagana er ég að berjast í gegnum alveg ótrúlega magnaða bók (sem kemur bráðum í bíó) sem heitir Touching the Void (ég yfirgaf Pí litla í björgunarbátnum á Kyrrahafi með Bengaltígrinum en ætla að snúa aftur til þeirra nú á næstu dögum). Sú fjallar um tvo fjallgöngukappa sem lenda í ómanneskjulegum hremmingum í Andesfjöllunum. Annar dettur og fótbrotnar illa og hinn þarf að láta félaga sinn síga niður óralanga leið af fjallinu, gegnum óveður og grimmilegan kulda og miklar kvalir á stórhættulegri leið. Svo kemur að því að sá slasaði hrapar fram af ískletti einum miklum og munar litlu að hann taki félaga sinn með sér í fallinu. Klukkustundum saman eru þeir þarna aðskildir en samt algjörlega upp á hvorn annan komnir, hver á sinn mjög svo ólíka hátt; sá slasaði veit að reipið milli þeirra er eina lífsvon sín meðan sá óskaddaði veit að reipið á milli þeirra mun líklegast drepa hann, þungi þess slasaða draga hann niður og fram af brúninni. Hann gerir það eina sem hægt er að gera í stöðunni: sker á reipið.
Og víkur þá sögunni ofan í sprunguna. Þar hangir sá slasaði, frávita af kvölum og hræðslu, dinglar í lausu lofti og sér ekki til botns í þessari hrikalegu sprungu sem hann hefur hafnað ofan í. Hann öskrar og grætur og veinar og biður og þegir og gefst upp, fær móðinn á ný og allan tímann vitum við að uppi er löngu búið að skera á reipið.
Ég var frá mér heilan dag í skólanum núna nýlega, vitandi af manninum hangandi svona á skornu reipi og ekki enn komið kvöld uppi í rúmi til að vita hvernig fallið yrði.
Merkileg frásagnarlist.
miðvikudagur, nóvember 26, 2003
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli