Við Stephanie vinkona brugðum undir okkur betri fætinum í eftirmiðdaginn og fóru að skoða íbúðir. Hún er skipulagssnillingur mikill og var búin að setja upp viðtöl og skoðanir á einum 15 íbúðum á 4 tímum, geri aðrir betur!
Þetta fór frekar skrautlega af stað. Fyrsta landladyin var gaggandi hryllingur frá helvíti og sú næsta var hippi sem sýndi okkur þriggja íbúða sumarbústað úti á túni þar sem eiturslöngur búa í búrum. Eftir þá lífsreynslu fengum við okkur hjartastyrkjandi (kakó með rjóma) í beyglubúðinni. Næsta deit var við vinalegan húsvörð sem sýndi okkur tvær íbúðir, önnur var svo lág til loftsins að Stephanie fékk innilokunarkennd (fyrir utan að við þurftum að klofa yfir tíu rúmmetra af rusli á gólfunum í öðru svefnherberginu og það hafði ekki verið sturtað niður úr tojaranum í einar tvær vikur) og hin var svo dýr að við hefðum eins getað staðið við gluggann í rokinu og hent hundraðköllunum út einum af öðrum.
Við létum samt ekki bugast. Næsta deit var niðri í bæ svo við skelltum okkur í te á Gimme! kaffihúsinu, þar sem misskilin ljóðskáld Íþöku sötra espresso daginn út og inn, meðan klukkan varð kortér yfir fimm. Þá mættum við í kjallara hússins nr. 410 við Norður-Norðurljósastræti og bara kolféllum fyrir því sem þar var að sjá. Húsið sjálft var byggt 1830 og eitthvað og eigandinn er að gera það upp, þannig að til stendur að gera alla íbúðina upp í sumar og lýsingar landlordsins á renóvasjóninni hljómuðu alveg spellbinding. Bak við húsið er risastór garður, við hliðina á húsinu norðan megin rennur Cascadilla-áin í stokki og handan við hana er búddaklaustur, meðan að sunnan megin við húsið er eldgömul kirkja.
Okkur leist alveg svakalega vel á og eftir að tjatta við eigandann og ráða okkar ráðum ákváðum við að taka bara íbúðina. Þá voru reyndar aðrir próspektív leigjendur mættir að skoða en við Stephanie hringsóluðum í kringum húsið þar til við sáum þá fara, hringdum þá umsvifalaust í eigandann og báðum um að fá íbúðina. Elsku kallinn sagðist einmitt hafa ákveðið með sér að hann vildi að við fengjum hana... bara sætt. Hittum hann svo tíu mínútum seinna og gengum frá dílnum. Nú er sem sagt Herdís litla komin með húsaskjól fram í ágúst 2006 og ætti að vera nokkuð sáluhólpin í millitíðinni líka.
þriðjudagur, mars 08, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli