mánudagur, mars 28, 2005

Tralalala

FYI: Ég mæli ekki með hálfum poka af jógúrthúðuðum rúsínum í morgunmat.

Djövulli er allt dýrt á Hawai'i. Maður lifandi. Ég keypti tvo pakka af morgunkorni, tvo lítra af mjólk og einn kaffipakka í dag og pungaði út 26 dollurum fyrir herlegheitin. Held ég verði að drífa mig til baka til Íþöku áður en ég stingst á hausinn.

Í þessum ágæta nýja heimabæ mínum er engin ástæða til að sakna Íslands. Hér rignir viðstöðulaust, yfirleitt svona smá rigningu sem er blaut en samt eiginlega ekki neitt neitt. Vindurinn blæs af svo miklum móð að trén vaxa samsíða jörðinni. Svo um leið og niður úr söðlinum kemur dettur allt í dúnalogn. Waimea (bærinn) liggur neflilega í söðli milli tveggja útkulnaðra eldfjalla, Kohala í norðri og Mauna Kea í suðri. Staðvindarnir úr suðaustri blása upp hlíðarar og er svo veitt eins og í gegnum trekt inn í söðulinn. Þess vegna er sjaldan ef nokkru sinni logn í bænum og vindarnir sterkari en víðast hvar annars staðar.

Þetta var mjög áberandi í gærkvöldi. Alex, konan sem sér um prógrammið hér, stakk upp á að borða kvöldmat á ströndinni. Ég hélt nú bara hún væri eitthvað biluð því hér í bænum rigndi og rokið var alveg formidable. Enginn gerði hins vegar athugasemd við uppástunguna svo ég hélt mér saman. Kínverski maturinn var sóttur og svo brunað niður í Spencer Beach Park, við rætur Kohala-fjalls. Á leiðinni niður eftir, ca. 10 mínútna akstur, stytti upp og í baksýnisspeglinum gat að líta þrjú eldfjöll, Mauna Kea, Mauna Loa og Hualalai, sem öll voru ósýnileg vegna regnskýja frá Waimea-bæ, baða sig í síðustu geislum sólarinnar. Á ströndinni var hlýtt og bara smá gola af hafi meðan Waimea-bær var enn kyrfilega umvafinn regni og roki. Mér sýnist sem sagt að málið sé að vera ekkert að púkka of mikið upp á þennan nýja heimabæ minn og borða í staðinn dinnerinn on the beach á hverju kvöldi.

Engin ummæli: