Ég þakka mikil og skemmtileg viðbrögð við síðasta pósti. Greinilegt að þessi listamaður, eða "listamaður" eftir því hvernig á það er litið, hefur hrist upp í fólki. Nú bara bíð ég spennt eftir að sjá hvort hann svari póstinum mínum...
Allevejne. Í dag fór ég bæði í bílaleit og húsaleit og fann a.m.k. bílinn. Vinur minn hann Nicolas (sem ætlar líka að verða meðleigjandi minn næsta vetur) á vin sem er að fara úr landi í eitt til tvö ár og þarf endilega að lána einhverjum þurfandi bílinn sinn á meðan. Ekki selja einhverjum bílinn, heldur lána. Þar sem ég er nokkuð bílþurfandi, og þekki Nicolas, stakk Nicolas því að vini sínum að ég væri kjörin til að hafa bílinn í láni. Því fórum við Nicolas í heimsókn til vinarins, og bílsins, núna áðan. Eftir smá rúnt um hverfið á Eiríki rauða, sem er við hestaheilsu þó aldurhniginn sé, taldist okkur öllum til að bíllinn og ég ættum einstaklega vel saman og ekkert því til fyrirstöðu að ég fari með forræði yfir honum þar til réttur eigandi kemur aftur frá Perú að ári eða tveimur liðnum. Bíllinn verður skráður á mitt nafn og ég fæ full afnot af honum, gegn því að skutla eigendunum út á flugvöll (JFK í NYC) einhvern tímann í júlí og vera svo góð við bílinn þar til þau koma til baka. Ég held ég hafi gert verri díla á ævinni.
Húsaleitin gekk eilítið hægar fyrir sig. Kunningjakona mín úr útiklúbbnum leigir þessa dagana íbúð niðri í bæ fyrir spottprís; við Nicolas vorum að hugsa um að leigja hana enda staðsetningin góð og verðið enn betra. Íbúðin er samt ekki alveg nógu æðisleg og við ætlum að skoða einhverjar fleiri áður en við ákveðum okkur. Mér stendur líka til boða að leigja herbergi í stóru húsi á norðurenda háskólasvæðisins, ekki alveg í miðbænum en allt í lagi staður samt; því húsi myndi ég deila með 3 eða fjórum öðrum. Það er aðeins dýrara en íbúð í bænum en á móti kemur að húsið er miklu stærra og maður verður aldrei einmana með svona marga meðleigjendur. Ég er svolítið tvístígandi um hvað ég á að gera í húsnæðismálum... læt ykkur vita hvernig þetta fer. Ég gæti svo sem bara alveg eins leigt mér sveitabæ eða eitthvað, komin með bíl og alles!
laugardagur, mars 27, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli