Ofninn inni hjá mér er bilaður. Ég er með hann stilltan á hæsta og ekkert gerist annað en að ísköldu lofti er dælt inn í herbergið. Á meðan malar ofninn inni í stofu, og ofnarnir í öllum hinum herbergjunum þegar þannig stendur á, og dæla út trópísku loftslagi svo hjá vinum mínum gengur íbúðin undir nafninu Brasilía. Sérlega vel viðeigandi í ljósi þess að ég er eini heimilismeðlimurinn sem hefur mótmælt hitabeltisvæðingu íbúðarinnar.
Sem minnir mig á það sem ég hef ætlað að velta upp hér lengi: Sálfræði hita og kulda.
Allar meðleigjendur mínar eru frá heitum stöðum og eru ekki vanar löngum, köldum vetrum. A.m.k. ein þeirra hefur aldrei, les. ALDREI, upplifað vetur áður en hún kom hingað. Þegar við fluttum hingað nú síðsumars var enn mjög heitt hér í Íþöku og loftkælingin var alltaf á milljón innandyra, þannig að ég varð að vera vel klædd inni og afklæðast svo þegar ég fór út. Þetta voru meðleigjendur mínar mjög sáttar við, og ég lét mig hafa það. Svo kom haustið, laufin fóru að sölna og einhvern tímann snemma í október kom kuldakast með næturfrost. Þá, eiginlega frá einum degi til næsta, var hitinn skrúfaður í botn á öllum ofnum hér og honum hefur ekki verið breytt síðan þá. Þrátt fyrir að í millitíðinni hafi verið fínasta sumarveður, með hita utandyra upp í 16-20°C, hafa allir ofnar hér (nema minn, sá bilaði) verið á fullu og skapað hér ákjósanleg skilyrði fyrir Amazon-frumskóginn, ef hann er í plássvandræðum. Putting it mildly, þá gerir þetta mig geðveika!!! Sérstaklega frústrerandi er þegar ég kem heim seint um eftirmiðdag í íbúð sem er ca. 30°C og ofninn inni í Bombay á milljón, vitandi að íbúi Bombay fór í skólann á undan mér um morguninn og kemur sennilega ekki heim fyrr en undir miðnætti. Hvar er lógískin í því að steikja allt hér innandyra ef viðkomandi er ekki heima lengur en 8 tíma á dag, hvar af 7 og hálfur tími fara í að liggja meðvitundarlaus í bælinu?? ARG!!! Í ljósi þessa ætti ég bara að vera ánægð með að eiga bilaðan ofn og fá þannig ókeypis transport til Svalbarða.
Eina skýringin sem mér dettur í hug á þessu háttalagi er að stelpurnar upplifi veturinn / kuldann sem einhvers konar ógn og séu (líklega ómeðvitað) að reyna að banda honum frá sér með þessari hitunaráráttu. Þessi ótti, eða kvíði eða hvað þetta nú er, er auðvitað mjög órökréttur þegar það er ekki vetrarveður fyrir fimmeyring úti, og órökrétt ástæða hlýtur að vera eina skýringin á svona fjarstæðukenndri hegðun eins og ég hef verið að upplifa hér. Rök, eins og t.d. hitunarkostnaður (sem er, því miður liggur mér við að segja, innifalinn í leigunni) og sóun á orku og auðlindum, uppskera bara bros lituð af vorkunnsemi og óþolinmæði. Ég þori ekki einu sinni að segja þeim frá honum Henrik meðleigjanda mínum á Svalbarða vorið 2001; hann svaf við opinn glugga yfir háveturinn (sem er eiginlega stórvarasamt því heita vatnið getur frosið í leiðslunum) og var því morgunhressari eftir því sem hitamælirinn stóð lægra í herberginu. Ætli draumurinn hafi ekki verið að vakna með hrím á sænginni en hann náði því aldrei, ég held kuldametið hafi verið 3 eða 4°C!!
Enívei, það verður fróðlegt að sjá hvað gerist þegar kuldaboli kemur til Íþöku í alvöru.
mánudagur, desember 01, 2003
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli