Það hefur varla farið fram hjá nokkrum manni að jólasveinarnir eru farnir að týnast til byggða og einn þeirra, hann Stekkjastaur, lét svo lítið að kíkja hingað til Íþöku. Við gerðum nú ekkert endilega ráð fyrir honum og settum því enga skó í gluggann og kallanginn kom því engum sætindum af sér. Hún Deepti okkar skilur þó skóna sína eftir við útidyrahurðina (eins og flest venjulegt fólk) og Stekkjastaur notaði tækifærið og laumaði einni svaka kartöflu oní hjá henni. Hún hefur greinilega verið óþæg, stelpugarmurinn.
Hins vegar er ekki við því að búast að fólk alið upp á Indlandi þekki venjur íslenskra jólasveina. Þegar hún fann kartöfluna starði hún lengi ofan í skóinn sinn og var mjög hugsi á svipinn. Svo beygði hún sig hægt niður og náði í kartöfluna og gekk með hana til mín eins og loftsteinn hefði fallið af himnum. Hún var alveg gáttuð, alheimurinn hafði bókstaflega tekið dýfu. Hvað í ósköpunum var eiginlega í gangi? Höfðu samleigjendur hennar gengið af göflunum? Eða falla kartöflur virkilega af himnum ofan?
Eftir stuttan lestur upp úr þjóðháttapistli Herdísar um jólahald á Íslandi, sem undirrituð skrifaði fyrir Hlynskóga-sambýlið sitt, rann upp ljós fyrir Deepti. Hún lofaði að vera þæg það sem eftir lifir til jóla, í þeirri von að næsti jólasveinn sem heiðrar okkur með nærveru sinni setji eitthvað skemmtilegt í skóinn!
laugardagur, desember 13, 2003
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli