sunnudagur, janúar 23, 2005

Eiríkur og velgjörðafólk hans

Elskan hann Eiríkur minn hlýtur að vera alveg rasandi út í hann Gerardo að fara til Bólivíu í ár og skilja sig eftir í höndunum á skaðræðiskvendi eins og mér. Við lendum í miklum ævintýrum með reglulegu millibili og grey kallinn, aldraður eins og hann er orðinn, hlýtur að vera dauðþreyttur á veseninu.

Um daginn rann ég, á jafnsléttu og m.a.s. lítillega upp í móti, gegnum saltaðan snjó og klessti á götukantinn. Ekki var fartin nú mikil en nóg til að nánast affelga hægri framdekkið. Þetta var á miðjum kampus og við stöðvuðum nánast alla umferð meðan málið var leyst. Kampuslögga nokkur átti leið hjá og hjálpaði mér að skutla varadekkinu undir, svo keyrðum við á varadekkinu (sem er nánast betra en það slasaða) í viðgerð. Ég fór með kallinn á tvö verkstæði og fékk tvö verðtilboð: 100 kall eða 50 kall. Now that's a no-brainer if there ever was one.

Í fannfergi undanfarinna daga hefur svo kallinn minn náð að festa sig ump-sinnum. Alltaf gaman að því :) Síðasta festan var í morgun, ég hafði lagt Eiríki fyrir utan hjá honum Nico áður en við fórum á skíði og tekist, í týpískum anda mínum, að velja honum stað hálfum oní krapapytt. Þegar ég svo mætti á svæðið í hádeginu að sækja blessaðan bílinn var hægri hliðin frosin oní polli og 15 stiga frost!

Sem betur fer er fólk hér alveg sérstaklega hjálpsamt og indælt. Allir eru alltaf til í að ýta, ná í skóflu, kattasand og salt, hringja eftir dráttarbíl (hef nú sem betur fer ekki enn þurft að þiggja þá aðstoð) og vera næs. Eiríkur komst upp úr krapapyttinum með aðstoð hálfs sekks af kattasandi og hraustlegu skúbbi frá tveimur nágrönnum hans Nicolas. Já, Íþaka er sko Hálsaskógur Ameríku :)

Engin ummæli: