sunnudagur, janúar 30, 2005

Q - viðbætur

Hef eitthvað verið að reka mig á að fólk hafi ekki grænan Guðmund um hvað ég er að tala um þegar ég nefni Q-prófið.

Þegar mann (eða konu, í mínu tilfelli) langar að ná sér í doktorsgráðu í einhverjum fræðum þá þarf maður að hafa litla nefnd sérfræðinga sér til halds og trausts. Þessi nefnd vill að vonum vita hvort maður sé algjör aulabárður sem komst inn í skólann með svikum og prettum eða hvort það sé í alvörunni smá vit í kollinum á manni. Til að fá svar við því eru ein þrjú munnleg próf lögð fyrir mann á ferlinum frá því að vera grænjaxl á fyrsta ári til þess að vera sprenglærð á ump-ta ári. Ég var á föstudaginn í því fyrsta af þessum þremur. Tilgangurinn með því, fyrir utan að ganga úr skugga um að ég sé ekki einhver Felix Krull (sem er einmitt ein af uppáhaldspersónunum mínum), er að sjá hvað nemandinn kann ekki nógu vel svo hægt sé að sjóða saman kúrsaplan handa honum/henni.

Eins og skiljanlegt er þá eru flestir að farast úr stressi fyrir svona próf, enda ekki skemmtileg tilhugsun að vera rekinn á gat fyrir framan nefndina sína. Leiðbeinandinn minn var svo hugulsamur að taka smá svona father-to-son pakka á mig á fimmtudaginn, þar sem hann minnti mig á að enginn hefði í huga að láta mér líða eins og asna eða vera eitthvað nastí, þetta væri bara nauðsynlegt skref í átt að því að útskrifast. Ég ákvað að slappa vel af á lokasprettinu og las ekki staf, fór í staðinn á skíði á fimmtudagseftirmiðdaginn og svo í partý! Þetta forðaði mér frá því að deyja úr stressi og á föstudagsmorguninn var ég alveg merkilega róleg. Svo byrjaði prófið og gekk alveg merkilega vel. Reyndar kom í ljós að ég er búin að gleyma h.u.b. öllu sem ég lærði í tölfræðinni heima, en þeim virtist standa nokk á sama, settu á mig tvo tölfræðikúrsa í viðbót og fóru svo bara að tala um verkefnið mitt og vettvangsvinnuna á Hawaii. Ég var ekki einu sinni send fram á meðan þeir réðu ráðum sínum um örlög mín, það var bara þegjandi samkomulag um að ég hefði náð.

Eftir prófið var ég svo úrvinda að ég gat varla hugsað. Stephanie og Melissa buðu mér í hádegismat og svo átti að halda duglega upp á áfangann um kvöldið. Það tókst ekki betur til en svo að ég sofnaði alklædd ofan á rúmteppi heima klukkan hálfníu um kvöldið og vaknaði um miðja nótt. Ég reyni bara aftur seinna, enda get ég haldið upp á Q-prófið alveg þangað til ég tek A-prófið!!!

Engin ummæli: