sunnudagur, janúar 02, 2005

Gleðilegt nýtt ár!

eða: Eiríkur í villum í Bronxinu
(Undirtitill)

Við Eiríkur skelltum okkur til NYC um áramótin. Hann var stálsleginn eftir viðgerðina, eins og fram kom hér á síðunni seint á síðasta ári, og á gamlársdag brunuðum við eftir leið 17 gegnum Catskill-fjöllin (Kattarlækjafjöll, hmmm...) og eftir Palisades Interstate Parkway niður til stórborgarinnar. Eins og alltaf þegar ég keyri í NYC þá tókst mér að villast, í þetta skiptið þegar ég var að fara af brúnni inn á Manhattan. Áður en ég vissi af var ég á leið yfir austari arm Hudson-fljótsins inn í Bronx í staðinn fyrir að vera á Henry Hudson Drive á leiðinni inn á Broadway. Það var komið myrkur og einungis 7 klst. eftir af árinu og svo virtist sem hver einasti bíll í borginni væri í Bronxinu, með taugaveiklaða geðsjúklinga undir stýri. Ekki gott móment til að villast.

Vinalegur gaur á bensínstöð leiðbeindi mér inn á Manhattan aftur og það fór ekki betur en svo að ég villtist enn kyrfilegar. Ekki komst ég inn á Manhattan heldur sogaðist ég lengra inn í Bronxið, eftir búlevarða þar sem naglasnyrtinga-sjoppur og hárgreiðslustofur skiptust á. Ég var farin að spá í að skella mér bara í afrófléttur og naglasnyrtingu og sníkja mér inn í áramótapartý hjá e-m Hispönum þegar Erna vinkona lét í sér heyra að gá að mér. Ég ætlaði neflilega að sækja hana í vinnuna efst á Manhattan og fara svo með henni og Mödda í matarboð hjá vinkonu þeirra. Með samþættri aðstoð Ernu, Mapquest, gemsans míns, naglasnyrtidömu í reykpásu og ótalinna ökumanna í næsta bíl á rauðu ljósi tókst mér að komast inn á Manhattan aftur, sniglast eftir 181a stræti vestureftir að Fort Washington-búlevarða og niður eftir að sækja Ernu.

Eftir þessar (arguably frekar modest) villur var ég orðin einn af taugaveikluðu geðsjúklingunum sem sátu undir stýri á Manhattan þetta kvöld. Með lifandi leiðsögn í sætinu við hliðina á mér gekk aksturinn niðureftir heim til Ernu og Mödda hins vegar töluvert betur og stressið gufaði svo náttla upp þegar á mitt annað heimili var komið, i.e. heim í stofu til Ernu og Mödda. Matarboðið fór vel fram og öll hegðuðum við okkur alveg sérstaklega vel, sitjandi við borðstofuborðið uppi á 112ta stræti. Í gær brunuðum við Eiríkur svo aftur til baka til Íþöku, áfjáð í að halda áfram próflestrinum...

Engin ummæli: