laugardagur, janúar 08, 2005

Um mynstur, krónur og haf

Ég hef svo sem ekki miklu við allt það sem hefur verið skrifað og sagt um jarðskjálftann og flóðbylgjuna miklu undan ströndum Súmötru að bæta. Ég er líklega jafnslegin og allir aðrir yfir manntjóninu og eyðileggingunni en á sama tíma kemst ég ekki hjá því að vera heilluð yfir kraftinum í náttúrunni. Ég hef ekki heldur komist hjá því að spá í af hverju engin viðvörunarkerfi voru fyrir hendi og hvort einhvern veginn hefði mátt sjá skjálftann fyrir. Að segja fyrir um jarðskjálfta er ekki einfalt mál (og veldur jarðskjálftafræðingum sennilega meiri höfuðverk en nokkuð annað) og þaðan af síður að segja fyrir um hvort tiltekinn neðansjávarskjálfti valdi flóðbylgju.

Það var athyglisverð grein í Mogganum um daginn um möguleikann á því að segja fyrir um jarðskjálfta. Greinin fjallaði um rannsóknir nokkurra vísindamanna heima á Íslandi á því hvort nota mætti ákveðinn hugbúnað (sem var hannaður til að leita að mynstrum í mannlegu atferli) til að leita að mynstrum í jarðskjálftavirkni. Árið 1997 leiddi frumrannsókn í ljós að hugbúnaðurinn gæti reynst jarðvísindamönnum mjög gagnlegur við að segja fyrir um skjálfta. Það kom mér hins vegar ekki mikið á óvart að lesa í greininni að vegna fjársveltis hafi rannsókninni á notkunarmöguleikum hugbúnaðarins í jarðvísindum verið hætt. Samkvæmt því sem forsprakkar þessarar rannsóknar segja þarf um 5-10 milljónir íslenskra króna til að ljúka rannsókninni sem byrjað var á fyrir sjö árum. Það eru ekki miklir fjármunir, borið saman við manntjónið sem jarðskjálftar valda árlega í heiminum. Manntjón segi ég og ekki eignatjón, því þó við gætum einhvern daginn spáð af öryggi fyrir um jarðskjálfta (og flutt fólk á brott) munum við líklega seint geta afstýrt þeim (og komið í veg fyrir hrunin hús og laskaða vegi).

Eins las ég í einhverjum netmiðlinum að stjórnvöld einhvers ríkis við Indlandshaf (man ekki hvar en líklega í Indónesíu) hefðu fyrir nokkrum árum átt í viðræðum við Japani um að setja upp flóðbylgjuviðvörunarkerfi í Indlandshafi. Þannig viðvörunarkerfi er tiltölulega einfalt og samanstendur af þrýstingsnemum á hafsbotni. Þeir geta numið minnstu breytingar á þrýsting, og þ.a.l. á dýpi sjávar, og þannig "séð" risaflóðbylgjuna þar sem hún fer hjá. Kostnaður við að setja upp svona viðvörunarkerfi var metinn um 2 milljónir Bandaríkjadala en hægagangur á fjármögnun verkefnisins varð til þess að það datt upp fyrir.

Nú er ég ekki að segja að íslenski hugbúnaðurinn góði hefði getað spáð fyrir um skjálftann með 100% öryggi eða að viðvörunarkerfið hefði breytt einhverju um eyðileggingarmátt flóðbylgjunnar. Ef vísindamenn hefðu hins vegar haft næg gögn til að gera sér grein fyrir að skjálfti væri í aðsigi hefði mátt senda út tilkynningu þess efnis til stjórnvalda. Stjórnvöld hefðu þá getað verið í viðbragðsstöðu og náð að bregðast við þegar þrýstinemarnir sendu boðin um flóðbylgjuna. Enginn mannlegur máttur hefði getað hindrað skjálftann eða stöðvað flóðbylgjuna en mikið af því manntjóni sem varð hefði mátt koma í veg fyrir með tiltölulega litlum tilkostnaði.

Það er neflilega stundum þannig að þegar vel tekst til í rannsóknum getur útlagður kostnaður við störf vísindamanna skilað sér margfalt til baka til samfélagsins.

Engin ummæli: