mánudagur, janúar 10, 2005

Um lestur alls annars en skólabóka

Ég verð að viðurkenna að mér finnst oft leiðinlegt að lesa kennslubækur. Mér finnst mjög gaman að kunna það sem í þeim stendur en sjálfur lesturinn er oft afspyrnuleiðinlegur. Dett þess vegna gjarna á síðkvöldum í sjálfsvorkunn og eyði klukkustundum í lestur skemmtilegri bóka og réttlæti tímaeyðsluna sem svo að með því að lesa eitthvað skemmtilegt inn á milli fari heilinn að setja samasem-merki milli bóka og skemmtunar (eins og hann geri það ekki nú þegar, hann bara kann að vinsa fúla doðranta frá). Til að þessi Pavlov-skilyrðing virki þarf ég auðvitað að lesa mikið skemmtilegt og hér fylgir með listi yfir það sem helst stendur upp úr frá liðnu hausti:


Kvenspæjarastofa númer eitt
: Þessi barst mér yfir hafið í farangrinum hjá mömmu. Skemmti mér vel við lesturinn og hefði skemmt mér betur ef þýðingin hefði ekki verið svona hroðaleg. "Fólk segir mér að ...", úff, ég hélt að svona þýðingarskrípi væru kæfð í fæðingu. Mma. Ramotswe á betra skilið. Vonandi verður þýðöndin krítískari á störf sín með næstu bók í flokknum, þá skal ég glöð lesa þær allar á íslensku.

Enduring Patagonia: Fékk þessa í jólagjöf frá Ernu og Mödda og gleypti hana í mig milli jóla og nýárs. Bókin gerist á slóðum sem ég þekki af eigin raun eftir S-Ameríkuferðina mína 2001-2002, við Arnon vinur minn fórum í vikulanga gönguferð um Fitzroy-þjóðgarðinn þar sem megnið af aksjóninni í bókinni fer fram. Ekki slæmt að lesa lýsingu höfundar á sólarupprásinni á Cerro Torre og geta borið hana saman við mína eigin upplifun. Það er skemmst frá því að segja að samanlagðar endurminningar mínar og bókarhöfundarins urðu til þess að það munaði engu að ég segði starfi mínu sem eilífðarstúdent lausu og flygi til Patagóníu til að klifra upp á Cerro Torre. Mundi svo eftir því að ég er ömurleg í klettaklifri og slaufaði planinu.

Bóksalinn í Kabúl: Var einhverra hluta vegna búin að ákveða að mig langaði ekkert til að lesa þessa. Mikið er ég fegin að hafa fengið hana í jólapakkanum frá pabba og Siggu og fá þannig ástæðu til að snúast hugur.

Annapurna og Eiger Dreams: Fékk þessar tvær báðar lánaðar hjá Ernu og Mödda í sumar þegar ég kom heim frá Íslandi. Bækur um geðsjúklinga bundna í reipisspotta hafa alltaf heillað mig meira en góðu hófi gegnir. Er þar af leiðandi bara hæstánægð með lesturinn. Reyndar er sú fyrrnefnda eiginlega hálfskondin í augum nútímalesandans en það gerir hana svo sem ekki að verri bók. Allt eftir Krakauer er svo náttúrulega klassík.

Four Corners: Þessi kona, sem mér telst til að sé á aldur við mig, er ótrúleg. Aldrei nokkurn tímann hef ég lesið um viðlíka ævintýri eða séð ævintýraferðalang opinbera sál sína fyrir lesendum eins og hún gerir. Ferðalögin hennar virðast á köflum vera hálfgerður masókismi en á endanum sýnist mér hún hafa komist þangað sem hún ætlaði sér. Verst að hún þurfti að vera svona vond við sjálfa sig til að fá friðþægingu.

Deception Point: Dan Brown klikkar ekki.

Troll: Vá.

Elements, A Very Short Introduction: Ein af best heppnuðu tilraunum mínum til að gera kennslubækurnar meira spennandi. Komst meðal annars af því hvaðan senan í Orðabók Lempriéres (sem ég á alltaf eftir að klára), þar sem konan er drepin með bráðnu gulli, er tekin. Hafði einmitt mikið velt því fyrir mér. Held samt ég leggi ekki í að klára Lempriére fyrr en ég er búin að fá tíu í avanseruðum kúrsi í grískri og rómverskri goðafræði...

The Cider House Rules: Ég sé að ég þarf nauðsynlega að lesa meira eftir John Irving. Maðurinn kann greinilega betur en flestir aðrir að skrifa bækur; persónurnar eru ótrúlega raunverulegar og aðstæðurnar sem höfundurinn kemur þeim í ekki auðveldar viðureignar.

Eins og sjá má hef ég haldið mér sæmilega upptekinni á síðkvöldum í haust við bókalestur. Nokkrar í viðbót bíða lesturs, m.a. Arabíukonur, Hálfbróðirinn, The Heart Is A Lonely Hunter, Mountains of the Mind og The Towers of Trebizond. Ætti ég kannski að hætta í skóla til að hafa meiri tíma til að lesa??

Engin ummæli: